Sífellt fleiri vilja meina að konur leiðist almennt út í fíknarhegðun og/eða misnotkun á áfengi og fíkniefnum eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi og annarskonar áföllum í æsku…
Til að hægt sé að vinna almenninlega úr sálrænum vanda þurfi að takast á við fíknina, æskuna og afleiðingarnar í heildarmeðferð sem vinnur á öllum þáttunum svo að vel geti tekist til og lífsgæði einstaklingsins verði sem best.
Félagsskapurinn Rótin var stofnuð síðasta vor með því markmiði að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.
Fyrsta umræðukvöldið Rótarinnar verður miðvikudaginn 11. september næstkomandi kl. 20 á Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík og fyrsti gestur haustsins er Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri en Sigrún er doktorsnemi í lýðheilsuvísindum.
Erindi Sigrúnar fjallar um fíkn sem afleiðingu af ofbeldi og annars konar áföllum í æsku.
Rannsóknir hennar snúast um að skoða afleiðingar ofbeldis í æsku fyrir heilsufar og líðan karla og kvenna og vinna að þróun þverfaglegra meðferðarúrræða fyrir þann hóp.
Úrræðið sem Sigrún hefur unnið að er kallað Gæfusporin og hefur hún unnið með það úrræði á Akureyri undanfarin tvö haust og nú í haust verður farið af stað í þriðja sinn.
Einnig er verið að fara að stað með Gæfusporin í Mjóddinni Í Reykjavík í september þar sem Sigrún verður með handleiðslu og fræðslu. Fyrirkomulag umræðukvöldanna hjá okkur er þannig að fyrst er um 45 mín. inngangserindi og svo eru almennar umræður á eftir. Boðið er upp á te og kaffi og umræðukvöldin eru öllum opin, bæði konum og körlum.
Allar áhugakonur um andlegan þroska og framfarir, – og þá sérstaklega þær sem þekkja af eigin raun ofbeldi og í kjölfarið baráttu við hverskonar fíkn, hvort sem er í formi ofáts, áfengis eða annars, ættu sérstaklega að gera sér ferð á Hallveigarstaði og leggja orð í belg.
Áfram stelpur!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.