Þessi færsla fjallar reyndar ekki um hefðbundið pjatt pjatt að hætti pjattrófa, fyrir utan það að allar pjattrófur hafa gaman af fegurð… og hér erum við að tala um fallegt hús.
Já. Hver man ekki eftir húsinu úr bíómyndinni frá 1986 Ferris’ Buellers day off þar sem Cameron hin lífsleiði og þunglyndi vinur Ferris bjó ásamt foreldrum sínum? Foreldrum sem voru svo upptekin af lífsgæðakapphlaupinu að þau veittu honum enga eftirtekt og þær stundir sem faðir Camerons var heima eyddi hann í að endurgera og bóna eldrauðu 1961 Ferrari glæsibifreiðina.
Ferris mætir svo í heimsókn og telur vin sinn Cameron á að fara á rúntinn í fyrrnefndri bifreið!
Frábær bíómynd sem ég horfði á unglingsárunum og kemur mér enn í gott skap. Það sem betra er…er að draumahúsið hans Camerons sem er algerlega tímalaust er nú til sölu! Það var flott þegar ég sá það 1986 og enn töff 2009!
Húsið var hannað af A. James Speyder og David Haid. Snilldarhönnun, byggt úr gleri, áli, cedarviði og stendur á stálstólpum í miðjum skógi í hæðum Illinois. Ætli Ferrarí-inn góði fylgi með í kaupum?
Ef ég bara ætti $ 2,300,000 þá myndi ég kaupa þetta hús án þess að blikka augunum…eða eins og mamma mín var vön að segja við mig þegar ég var táningur sífellt að biðja um eitt og annað-
Það er gott að láta sig langa.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.