Fyrir fáeinum mánuðum skrapp vinkonuhópurinn saman í litla sæluferð, aðeins til þess að gera lífið svolítið skemmtilegra.
Ferðalagið byrjaði á hádegi þar sem við hittumst á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Þar var skálað í freyðivíni og ljúffeng humarsúpa snædd með nýbökuð brauði og íslensku smjöri.
Staðurinn kom skemmtilega á óvart þar sem hann var bæði heimilislegur og huggulegur og humarsúpan var einstaklega bragðgóð! Við mælum sannarlega með því að renna saman vinkonuhópurinn í súpu á Fjöruborðinu og þá kannski sérstaklega nú þegar sólin hækkar á lofti.
Eftir Fjöruborðarheimsóknina keyrðum við upp á Laugarvatn þar sem við skelltum okkur í heitu pottana og gufu í Fontana spa. Þar fengum við góða þjónustu og nutum fallegs útsýnis yfir vatnið þegar við sátum í heita pottinum. Fontana Spa er nýtt nafn á gufuböðunum að Laugarvatni og við vorum flestar sammála um að gamla góða nafnið hentaði nú betur en Fontana Spa þar sem hvorki er boðið upp á nudd né aðra þjónustu sem vanalega er tengd við orðið SPA þarna að Laugarvatni. En gufuböðin standa fyrir sínu.
Við ókum svo á Hótel Flúðir þar sem við snæddum kvöldverð, héldum skemmtilega trúnóstund, gistum, vöknuðum í frábæran morgunverð og brunuðum svo endurnærðar í bæinn eftir þennan skemmtilega sólarhring.
Við mælum heilshugar með því að gera sér dagamun með þessum hætti. Það kostar lítið að splæsa saman í einn bensíntank og fá sér súpu í hádeginu og auðvitað er hægt að sníða dagsferðir að áhuga og fjárhag hvers og eins en það sem eftir stendur er ljúf og skemmtileg minning – og af þeim á kona auðvitað aldrei nóg!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.