
Eftir að snjallsímarnir góðu (og vondu) komu til sögunnar höfum við öll orðið meira eða minna háð þeim.
Sjálf er ég aðallega háð internetinu og hef verið mjög lengi. Mér finnst eins og það vanti í mig gangráðinn ef ég get ekki verið sítengd við netið.
Fyrst var maður bara háður í heimahúsum en eftir að snjallsímarnir mættu er fíknin óseðjandi. Ótakmarkað skal það vera! Alltaf!
Ég rak mig fyrst á þetta fyrir tveimur árum þegar ég fékk himinháan reikning eftir Grikklandsferð.
Samt hélt ég að með því að greiða fast gjald á dag (tæpar 700 kr) væri ég að fá sama pakkadíl og heima. Fimm gigabæta niðurhalsveislu og engin takmörk á símtölum, hvort sem ég fékk þau eða sendi.
Auðveldur misskilningur
Þetta var algjör misskilningur. Orðalagið í flestum auglýsingum af þessu tægi gefur manni þó fullt tilefni til að misskilja. Til dæmis þetta, tekið beint frá Vodafone.
Þú greiðir eitt daggjald fyrir hvern dag sem síminn er notaður. Eftir það er öll notkun símans þá daga samkvæmt íslenskri gjaldskrá – frábært fyrir þá sem vilja nota símann mikið á ferðalögum um Evrópu.
Þessi íslenska gjaldskrá sem þarna er nefnd er nefnilega ekki sú sama og frábæri pakkadíllinn sem þú ert með heima. Nei.
Þetta er svona svipuð gjaldskrá og þegar maður fékk fyrsta GSM símann. Þá var borgað 35 kr á mínútu fyrir innanlandssímtal, um 200 kr fyrir símtal til útlanda og um 10 kr fyrir að taka á móti símtali eða senda SMS. Fyrir niðurhal borgar maður um 6 kr á megabæt sem þýðir s.a 250 kr fyrir eitt lag á YouTube. Þú ert semsagt að borga tæpar 700 kr á dag og eftir það kemur þessi íslenska verðskrá með sömu verðlagningu og tíðkaðist í gamla daga. Fínt ef maður heitir Jóakim aðalönd en alls ekki fínt ef þú ert bara venjuleg Gunna sem reynir að passa peningana sína og í hvað þeir fara.
Keyptu þér frelsi
Að þessu sögðu mæli ég eindregið með því að þú, neytandi góður, drífir þig heldur í næsta útibú Vodafone, Orange, Moviestar, British Telecom eða hvað þessi símafyrirtæki heita og kaupir þér bara frelsi í því landi sem þú ert stödd í.
Það er misjafnt hvað þetta kostar en sem dæmi má nefna að 1.6 gigabæt í frelsi á Spáni kostar 15 evrur hjá Orange eða um 2000 kr íslenskar, í Bretlandi fæst góður frelsisdíll hjá EE + T-Mobile svo eitthvað sé nefnt en flest fyrirtæki selja frelsispakka. Þannig að ef þú ætlar að vera lengur en 2 daga í útlöndum þá myndi ég segja að þetta borgaði sig. Að minnsta kosti ef þú hegðar þér eins og ég með snjallsímann.
Vertu bara búin að finna verslunina á netinu áður en þú leggur í hann, hafðu skilríki með þér, settu þetta efst á ToDo listann og notaðu svo netið eins og þú vilt og þarft þegar þú kemur út. (Í sumum tilvikum gætir þú jafnvel verið búin að kaupa þér SIM kortið í gegnum netið og láta senda heim á hótel, á eftir að kanna það). Ég þarf varla að tíunda það en net í síma er meðal annars mjög gott til að finna veitingastaði, rata á réttu búðirnar, rata heim, finna makann sem ráfar týndur um í stórborginni, senda snöpp og myndir af öllu þessu skemmtilega sem ber fyrir augu.
Ps. Ef þú ætlar að vera lengi í burtu er sniðugt að segja bara tímabundið upp áskriftinni sem þú ert með heima og fara í lægstu mögulegu verðskrá. Það fer bara eftir dílnum sem þú ert með.
Pss. Ef símafyrirtækið þitt er komið með nýjan ferskan díl og reynir að sannfæra þig um að hann sé betri en að kaupa frelsi í útlöndum þá skaltu samt bera þetta saman fram og til baka og taka mið af venjulegri notkun hjá þér. Mjög líklega er þrátt fyrir allt skynsamlegra að kaupa sér frelsið úti.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.