Mig langar að segja ykkur frá frábærum ferðapoka sem ég nota alltaf í ferðalögum. Pokinn er hugmynd kvenna úr Soropotimistaklúbbnum, hann er úr gegnsæju plastefni, með fjórum hólfum sem eru brydduð með skáböndum í fallegum litum.
Ferðapokinn er gæddur þeirri náttúru að fötin sem eru sett í hann krumpast mun minna en ef þeim væri pakkað í plastpoka hér og þar í töskunni. Ferðapokinn er líka umhverfisvænn því hann má nota aftur og aftur.
Ég tek þennan litla poka með í öll ferðalög, hvort sem þau eru stutt eða löng. Aðallega af því að það er hægt að pakka endalaust í hann og fötin fara svo vel í honum. Það er þægilegt að kippa pokanum með öllu sem í honum er inn í skáp eða hreinlega geyma pokann í ferðatöskunni. Þetta er alveg frábært fyrir þig ef þú ert t.d. mikið að flakka og ferðast en ferðapokinn er líka bara góður fyrir þær sem láta sér annt um fötin sín.
Það er Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur selur ferðafélagann góða. Pokinn er framleiðsla Soroptimistasystra. Þær kaupa plast á rúllu, sníða niður og brydda með skáböndum sem þær sauma á jaðrana. Þannig er hver einasti poki algjörlega handgerður og saumaður af systum með alúð og umhyggju.
Laugardaginn 20. nóvember nk. munu systur í Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur standa vaktina í Smáralind rétt við Make up Store og bjóða ferðapokann til sölu.
Allur ágóði sölunnar rennur til góðgjörða en klúbburinn hefur styrkt sumarnámskeiðahald á Íslandi fyrir börn og unglinga með fötlun á einhverfurófi í samvinnu við menntavísindasvið HÍ og Umsjónarfélag einhverfra. Soroptimistar eru hjálpar- og friðarsamtök kvenna á heimsvísu og Reykjavíkurklúbbur er elsti klúbburinn á Íslandi.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.