Hér hefur yfirstéttin á Englandi skemmt sér í 200 ár

Hér hefur yfirstéttin á Englandi skemmt sér í 200 ár

img_0416Færðu fiðring í magann þegar þú heyrir herra Darcy nefndan á nafn? Finnst þér eðlilegast að borða agúrkusamlokur og smákökur af þriggja hæða diskum?

Þarna er undirrituð að fá sér High Tea á Francis Hótelinu í Bath. Það er alveg óhætt að mæla með því!
Þarna er undirrituð að fá sér High Tea á Francis Hótelinu í Bath. Það er alveg óhætt að mæla með því!

…Líður þér stundum eins og þú hefðir í raun ekki átt að fæðast á Íslandi, heldur í Englandi? Varstu kannski glaðlega konan framan á Mackintosh dósinni í fyrra lífi?

Ef þú stendur þig að því að kinka kolli við þennan lestur þá er bara eitt í stöðunni: Drífa sig til borgarinnar Bath í suður Englandi!

Fyrir manneskju með raunverulega anglófilíu* þá er það ekki valkostur, heldur skylda!

Mæðgu-stelpuferð

Sjálf er ég búin að kaupa flugmiða til Bath í nóvember en þangað er flogið beint með WOW allt árið um kring. Réttara sagt er flogið til Bristol flugvallar, en þaðan er um hálftíma akstur inn til Bath. 

Ég ætla að kaupa jólagjafirnar og eiga góðar stundir með dóttur minni, vinkonu og dóttur hennar. Stelpuferð par exselans.

Við erum þegar byrjaðar að plana. Ætlum að leigja okkur íbúð á besta stað og fara í verslunarleiðangur.

Kaupa allskonar fallegar jólagjafir, föt fyrir veturinn og annað fínerí.

Allt er í göngufæri og allar þessar helstu búðir sem við kunnum að meta eru á staðnum. Urban Outfitters, All Saints, Tk Maxx og svo mætti lengi telja. Þetta er fullkomið!

https://www.youtube.com/watch?v=Pdxd1SpN_CU

Fjögurra hæða SPA höll!

Eftir verslunarleiðangurinn munum við slaka á í Thermae Bath Spa sem er hvorki meira né minna fjögurra hæða SPA höll, með sundlaug uppi á þaki og það inni í miðri borg! Þar er hægt að fá nudd og njóta þess að hvílast í allskonar gufuböðum eða potti eftir “erfiðan” dag við innkaupin.

bath23

Við ætlum að vera í Bath frá föstudegi til sunnudags en keyra svo til London og fljúga þaðan heim á mánudegi með fullar töskur af gjöfum vonandi. Það tekur ekki nema um tvo tíma að aka milli Bath og London og enn minni tíma tekur að fara með lest.

Ekki að ég sé að mæla sérstaklega með því að fara líka til London, við eigum bara smá erindi þar. 

Úrvinda í Oxfordstræti

Sjálf er ég orðin frekar þreytt á látum stórborganna. Ég verð alltaf svo dösuð og úrvinda eftir leiðangur inn í miðborg London. Þetta er svo mikið labb. Oxford stræti dregur úr mér allan kraft meðan Bath er svona borg sem bara endurnærir.

Þar er líka úrval af frábærum veitingastöðum og umhverfið er dásamlega fallegt. Mikill gróður og falleg hús. Verðlagið er heldur ekki öðruvísi en annað sambærilegt í London. 

Í dag búa um 88.000 manns í borginni en öldum saman hefur Bath þótt með bestu stöðum sem hægt er að heimsækja á Englandi. Þangað hafa sogast breskir hefðarkettir, og aðrir smekklegir kettir, í þeim tilgangi að endurnæra sig á sál og líkama. Baða sig í náttúrulaugum líkt og við gerum hér á Íslandi og njóta þess að vera til.

Bath er í hugum margra bókaorma sérlega merkileg vegna þess að rithöfundurinn Jane Austen bjó þar um nokkura ára skeið. Það væri kannski ekki svo merkilegt nema hvað að sérfræðingarnir telja að margar af hennar allra vinsælustu sögum séu sprottnar úr samkvæmislífi borgarinnar sem var skrautlegt upp úr aldamótunum 1700, einmitt þegar Austen var þar upp á sitt besta.

Partýkóngurinn Beau Nash; frjálslegur, skemmtilegur og eflaust fljúgandi samkynhneigður

Þetta magnaða félagslíf má skrifa skuldlaust á partýpinnann og spjátrunginn Beau Nash en sá ofurspaði er enn goðsögn í borginni þó yfir 200 ár séu frá andláti hans. Beau gengdi stöðu skemmtanastjóra, eða Master of Ceremony (M.C), í félagsheimilinu í Bath og tókst það svona líka ofboðslega vel.

Samkomusalur í Bath Assembly Rooms. Þarna eru enn haldin dansnámskeið.
Samkomusalur í Bath Assembly Rooms. Þarna eru enn haldin dansnámskeið, veislur og fleira skemmtilegt.

Í þessu samkomuhúsi, sem kallast The Bath Assembly Rooms, hélt hann eftirsóttar veislur, spilakvöld og böll. Hann valdi sjálfur af kostgæfni hver fór á gestalistann og það var sannarlega ekki hver sem er sem komst á þann lista.

beau_nashÉg sé herramanninn fyrir mér sortera réttu einstaklingana í veislurnar, skrifa nöfnin niður á blað með fjaðurpenna, fá sér tesopa inn á milli með litla fingur sperrtan upp í loft. Fullkominn skyldi þessi gestalisti vera og svo eftirsóknarverður að út myndi spyrjast. Og hann kunni þetta karlinn.

VIP staðurinn þar sem allir vildu vera

Ekki leið á löngu þar til orðrómurinn barst um allt Bretland. Bath var staðurinn þar sem fræga fólkið mætti, VIP.

Allir vildu mæta í boðin hans Beau og færri komust að en vildu. Síðar var það haft eftir meistaranum að velgengni manns í lífinu snerist ekki um hvað maður vissi – heldur hverja maður þekkti. Örugglega nokkuð til í því.

Beau Nash þótti jafnframt frjálslegur og skemmtilegur í fasi. Með áhrifum sínum og sjarma braut hann upp ákveðna stífni sem fram að þeim tíma hafði tíðkast í samskiptum efri og millistéttar Englendinga, öllum til léttis.

Sjálf er ég með þá kenningu að Beau hafi verið fljúgandi samkynhneigður, að minnsta kosti sé ég ekki betur þegar maður skoðar myndir af kappanum. Augljóslega gríðarlegur snillingur.

Við mæðgurnar ætlum sannarlega að líta við á The Bath Assembly Rooms.

Á staðnum er nefnilega líka að finna tískusafn þar sem hægt er að máta gamaldags kjóla og hatta og láta svo taka mynd af sér í fullum skrúðaVið ætlum að taka Jane Austen á þetta. Vera all in eins og sagt er.  

Bath17

Sérstakur arkitektúr fyrir yfirstéttina

Nafn borgarinnar er engin tilviljun. Hún stendur við bakka árinnar Avon þar sem Rómverjar byggðu almenningsbaðhús og musteri fyrir um 2000 árum. Musteri sem standa þarna enn.

Þessir náttúrulegu hverir eru þeir einu á Bretlandi og hafa þannig mikla sérstöðu. Það var eflaust samspil heilsulindanna og sjarmakóngsins Beau Nash sem gerði Bath að allra vinsælasta orlofsstað yfirstéttarinnar á Georgíska tímabilinu (1714-1830).

Til að mæta eftirspurn þeirra sem vildu búa í Bath voru margar nýjar byggingar reistar á þessum tíma. Mörg húsin eru í fallegum klassískum stíl sem kallast Georgískur arkítektúr. Merkilegastar þykja þar tvær byggingar, The Circus, sem eru bogadregnar íbúðarbyggingar með ákaflega skemmtilegum dulrænum táknum yfir hverri hurð, og svo The Royal Crescent sem er er ein sögufrægasta bygging Evrópu. Líka bogadregin.

Þar eru bæði íbúðir sem kosta himin og haf og heilan skipaflota en einnig hótel sem er rjóminn af rjómanum. Eitt glæsilegasta og besta fimm stjörnu hótelið í Evrópu. 

bath4
Huggulegheit í fallega garðinum sem tilheyrir The Royal Crescent Hotel.

The Royal Crescent Hotel

Ég held ég hafi aldrei á ævinni upplifað jafn dásamlega þjónustu, hlýleika og fegurð á einum stað eins og þegar ég varð svo lánsöm að fá að gista á þessu sögufræga hóteli í Maí síðasta. 

Á The Royal Crescent fannst mér ég vera umvafin þessari fágætu fágun sem Englendingar eru þekktir fyrir. Fágun sem hefur skapast af aldalöngum hefðum þar sem allt gengur út á gestrisni, tilfinningu fyrir smáatriðum og þeim fallega útgangspunkti að láta öðrum líða vel. 

Hvort sem var í fallega skrúðgarðinum, á veitingastaðnum eða inni á hótelherberginu. Þetta var í alla staði eins og að vera dáin og komin til hima.

The Royal Crescent er SPA hótel svo þar er hægt að þiggja nudd, slaka á og láta dekra við sig. Þar er einnig hægt njóta þess að fá sér high-tea eða borða kvöldverð á The Dower House Restaurant and Bar veitingastaðnum. Þar er boðið upp á einstaklega ljúffengar veitingar sem eru bornar fram með jafn fallegum hætti. Á sumrin er líka hægt að borða úti í garðinum, – al fresco. Með því áhugaverðasta sem ég fékk að smakka á Dower House var rauðbeðu súrdeigsbrauð sem var borið fram alveg nýbakað með salti og mjúku smjöri. Þá var fiskisúpan upp á tíu sem og allt annað. Sjáið bara hvað þetta er fallegt! Eins og lítil listaverk á disk.


Drottning í einn dag

Ég verð að segja það, mér hefur sjaldan þótt ég eins lánssöm eins og þegar ég gisti á þessu fræga hóteli. Eins og drotting í einn dag. Þannig var það.

 

 

 

 

 

bath6

Smáatriðin verða svo auðvitað að stórum atriðum þegar þau koma saman og eftir lifir dásamleg upplifun í minningunni, líkt og eftirbragð af ævintýralega góðu eðalvíni. Dæmi um þessi smáatriði. Jú… Nafnið mitt var handskrifað á lítinn miða sem var festur á hurð herbergisins sem ég gisti í. Þegar inn var komið biðu mín konfektmolar ásamt fallegri kveðju, ferskir ávextir, niðurskornir á fallegum disk. Splúnkuný tímarit við rúmstokkinn. Herra Idris Elba sagði hæ. 

Rúmið ó-svo mjúkt og fallegt. Fullkomið! Örugglega alveg eins og  Elizabeth Montagu hefði viljað hafa það, en eftir henni er herbergið sem ég gisti í kallað.

Frumkvöðull, feministi, partý-ljónynja og nörd

 

 

 

 

 

lady_elizabeth_montagu_duchess_of_buccleuch_and_queensberryElizabeth Montagu var menntakona, bókaormur, listunnandi og partýpía. Hún var jafnframt stofnandi blásokkuhreyfingarinnar sem var einskonar mennta og menningarklúbbur fyrir konur. Framúrstefnulegt á þeim tíma þegar konur gerðu lítið annað en að gæta barna og mögulega sauma svolítið út.

Þessi dama var í allt í senn frumkvöðull, feministi og augljóslega pínu partý-ljónynja og nörd á sama tíma. Gæti ekki verið betra. Hún vildi að konur menntuðu sig, leit svo á að ómenntaðar konur gætu eins verið þrælar. Að menntuarleysið væri það sem héldi konum í skefjum karlanna. Hún átti líka færri börn en flestar kynsystur sínar, lagði meiri áherslu á andans mál. Góð týpa.

Að öllum líkindum var karakter Keiru Knightley í myndinni The Duchess, kunningjakona Elizabethar Montagu og eflaust hafa þær rabbað mikið um menningu og listir en senur úr myndinni voru teknar upp í kringum The Royal Crescent og sögusviðið er einmitt m.a. Bath, rétt fyrir aldamótin 1800.

Ef þú hefur séð myndina þá manstu eflaust eftir atriðinu þar sem persóna Keiru, Georgiana Cavendish, hittir Bess sem síðar varð frilla manns hennar. Þær kynntust fyrst í Bath enda var það eins og fyrr segir, – staðurinn (með greini).

THE DUCHESS

Jane Austen nördar sameinast í Bath

Star Trek nördar hittast á Star Trek ráðstefnum og tala klingon málið. Jane Austen nördar hittast í Bath. Ef þú ert einlægur aðdáandi þá er rétti tíminn fyrir þig til að heimsækja Bath akkúrat núna (best að kaupa bara flugið strax í fyrramálið).

Fram til 18 þessa mánaðar stendur nefnilega yfir heilmikil hátíð til heiðurs skáldkonunni en þessi hátíð fer fram á hverju hausti.

makintossÞá koma saman einlægir aðdáendur Austen, spóka sig í þar til gerðum klæðnaði, taka réttu sporin í The Assembly Hall og fara á söguslóðir. Líklegast tala allir með mjög “posh” hreim og láta sér annt um einkalíf allra hinna, hneykslast og eru smá á innsoginu. Svona Jane Austen style. 

Þétt dagskrá er skipulögð í 10 daga og miðarnir seljast fljótt þó nú séu enn nokkrir fáanlegir. Ef þig langar að skella þér fyrir helgina þá er um að gera að láta bara vaða, nú eða bíða fram á næsta ár og plana þetta vel. Láta sauma búninga. Æfa hreiminn. Við erum að tala um konuna á Mackintosh dósinni, – alla leið! Smelltu hér til að lesa meira um Jane Austen hátíðina.

Fullkominn áfangastaður fyrir mæðgur og miðaldra pör

Ég get ekki mært þessa borg nógu mikið án þess að pistillinn verði allt of langur. Ég vona bara að það skíni í gegn hvað ég er hrifin og hjartanlega upprifin.

Mér finnst Bath svo fullkominn áfangastaður fyrir mæðgur eða rómantísk miðaldra pör sem langar að detta í smá svona “Pósturinn Páll” fíling. Upplifa England af gamla skólanum. Spóka sig um og hafa það huggulegt, hvort sem er um vetur, sumar, vor eða haust. Versla, hangsa, vera laus við stressið í stórborgunum. 

bath3

Ég veit að ég á eftir að fara þarna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það er bara eitthvað við þessa borg sem er svo yndislegt. Hún er svo mátuleg, svo örugg og notaleg, falleg,  stelpuleg. Já bara fullkominn!

Smelltu hér til að lesa meira um allt það sem er í boði í borginni, hvaða verslanir er þar að finna og fleiri gagnlegar upplýsingar. 

Leyfum svo þessum myndum að tala sínu máli. Sumar tók ég sjálf síðasta vor, aðrar eru úr myndasöfnum.


 

ps. *anglófilía = Ofurást á öllu sem kemur frá Englandi 

 

 

 

 

 

 

 

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest