
Ég fór í langt og skemmtilegt ferðalag til Bandaríkjanna síðasta sumar. Dvaldist í þrjár vikur í Kaliforníu og svo vorum við í viku í New York.
Mér finnst fátt skemmtilegra en að taka myndir í þessari frábæru og litríku borg.
Mannlífið er svo fjölskrúðugt að skrítnasti blómagarður kæmist ekki í hálfkvisti við það.
Uppteknust var ég af honum Ólafi greyinu á Time Square.
Það er eitthvað við þetta starf. Að standa í kannski 30-40 stiga hita í svona stórum og óþægilegum búning.
Þiggja smápeninga fyrir það þegar krakkar standa við hliðina á þér og mamma eða pabbi taka mynd. Ræða harkið við kollegana. Fara svo heim eftir erfiðan dag í vinnunni. Já þvílíkt starf.
Ætli þau séu með stéttarfélag?
Svo var þarna stelpa sem stóð bara svo gott sem berrössuð og dældi inn seðlum.
Eflaust öllu þægilegri búningur í hitanum en múnderingin hans Ólafs. Ég má þó teljast „heppin“ að hafa séð hana því núna er þetta komið á grátt svæði hvort það megi yfirleitt fækka fötum með þessum hætti á torginu.
Þegar mest lætur eru um 40 hálfberar konur á torginu að raka inn seðlum. Svo er allskonar annað fólk í hinum og þessum búningum með allskonar meiningar og tjáningu. „New York is all about self expression“.
Annað sem vakti sérstaka athygli mína var hópur kátra gyðinga sem sprellaði þarna á torginu.
Þeir hoppuðu og skoppuðu og sungu eitthvað á hebresku sem maður skildi ekkert í. Á sama tíma arkaði brúnaþungur maður um svæðið, íklæddur Biblíuvesti. Hann hélt líka á skilti sem sagði að heimsendir væri í nánd. Það er alltaf að koma heimsendir.
Stelpur með strípihneigð, einmana Ólafur, skoppandi gyðingar og allar heimsins þjóðir á einum bletti. Þvílíkur sirkus sem þessi dásemdar borg nú er!
- „Ólafur“ horfir hálf skeptískur út í mannþvöguna meðan hann tekur stöðuna með Mikka mús. Harkið… harkið maður.
- Það eru allar sortir á Time Square og allar þjóðir heims eru samankomnar í New York sem svo sannarlega fagnar fjölbreytileikanum.
- Skvísan sem sá sér leik á borði og halaði inn fleiri hundruð dollurum á dag. Flip-flops, fjaðrir og bleik búkmálning. Ekki mikill útlagður kostnaður í þessu fyrirtæki.
- Þessar stelpur tóku sig til og fóru bara allt í einu að dansa við trumbuslátt tónlistarmannsins í götunni. Dancing in the streets.
- Og gyðingarnir héldu heldur ekkert aftur af sér. Hlupu í kringi og sungu af lífs og sálar kröftum eitthvað á hebresku.
- Fánum var sveiflað og menn létu sig detta aftur, væntanlega í táknrænum tilgangi. Ekki einn einasti kvenmaður var í þessum hópi. Taktu eftir stuðinu á stráknum í rauða bolnum.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.