Það vill vefjast fyrir okkur að pakka létt fyrir ferðalög. Alltaf skal manni detta í hug einhver flík sem er bara ‘algjörlega ómissandi’ fyrir ferðalagið og henni er pakkað með.
Svo kemur maður út, með þessa þungu tösku sína, og notar ekki nema 20% af því sem er í henni! Sama vitleysan aftur og aftur.
En viti menn! Það er til lausn!
Áður en ég fór í ferðalag með vinkonum mínum til Rhodos í fyrra fann ég þessa líka bráðsniðugu síðu á netinu.
Síðu sem gengur bara út á að gefa okkur góð ráð um hvernig og hverju skuli pakka fyrir ferðalög, allt eftir því hvað dvölin á að standa lengi, hvert skal haldið og hvaða árstíma skal ferðast á.
Ég verð að segja að þessi síða kom sér óskaplega vel fyrir mig og ég pakkaði af þvílíkri fagmennsku að ég hreinlega klappaði sjálfri mér á bakið og talaði við mig eins og Brian Tracy að þessu afreki loknu.
Staðreyndin er sú að maður þarf í raun ekki margt með sér í ferðalagið.
Galdurinn er bara að hafa flíkurnar léttar og réttar og að þær passi saman. Skartið og klútana notar maður til að hressa flíkurnar við eftir daginn og svo er bara að hafa þetta nógu einfalt.
Mundu líka að verandi eyjarskeggi af okkar litla Íslandi áttu eflaust alltaf eftir að freistast til að kaupa föt eða einhverja muni á ferðalaginu þar sem úrvalið er meira svo það er allt í lagi að hafa nóg pláss í töskunni.
HÉR er hlekkur á pökkunarlistana þeirra og HÉR er hlekkur á forsíðu Travel Fashion Girl.
Sjálf var ég þarna nýlega búin að eignast ferðapokann frá Soroptimistum en það er hlutur sem ég gæti mögulega ekki lifað án í dag, verandi sú flökkukind sem ég er.
Um er að ræða einskonar plastumslög sem maður setur fötin í en þetta sauma nokkrar dömur í Soroptimista félaginu. Hugmyndin kemur frá flugfreyjum (og Soroptimistum) sem nú eru komnar á eftirlaun en þessir pokar voru saumaðir af kappi fyrir allar áhafnir Flugleiða í gamla daga eftir að nokkrar höfðu krækt í svipaða poka hjá Macy’s. Ég mæli eindregið með að þú náir þér í svona poka en til þess þarf líklegast að hafa beint samband við Soroptimista. Ég veit ekki hvar er hægt að kaupa þá núna.
En í stuttu máli. Það er um að gera að mennta sig í pökkun áður en farið er á fullt í verkið. Þú verður fegin að ferðast léttar og koma ekki aftur heim með fulla tösku af fötum sem þú fórst aldrei í!
Takk þið dömur hjá Travel Fashion Girl fyrir að deila þessari mikilvægu þekkingu!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.