Spánn er að mínu mati eitt unaðslegasta land jarðar og þangað reyni ég að fara eins oft og ég get.
Á Spáni panta ég mér ólífur og hvítvín, sit með sólgleraugu úti í 25 stiga hita og horfi á fólkið fara hjá. Ég borða tapas á hverjum degi, geitaost með hunangsgljáðum valhnetum, parmaskinku, mozarella ost, kirsuber, jarðarber, vatnsmelónur og dúnmjúk snittubrauð.
Ég kaupi mér poka af appelsínum á markaðnum (heilan ‘hagkaups’) fyrir minna en 400 kr og geri mér ferskan appelsínusafa á hverjum morgni. Ég hlusta á klassíska gítartónlist, sit úti á verönd á kvöldin, í léttum sumarkjól og horfi upp í stjörnubjartan himinn. Úti eru enn 25 stig. Stundum skrepp ég á ströndina með góða bók og sit þar undir sólhlíf og les eða hlusta á hljóðbók.
Þá er um að gera að sofa út á hverjum morgni og fara seint að sofa á kvöldin að hætti innfæddra. Vera aldrei úti í sólinni í hádeginu og muna að nota sólarvarnir alla daga, allann daginn.
Á mínum Spáni eru engir þandir Þjóðverjar eða bleikir Bretar, þar er ekkert klikkað ‘djamm’, engar troðnar strendur, engin sólbruni, engir götusalar sem reyna að pranga inn á mig illa fölsuðum Rolex úrum. Enginn æsingur. Fyrir mér eru Spánarferðirnar svolítið eins og að fara í sumarbústað á Íslandi, nema þar get ég ‘garanterað’ dásamlega góðan mat og heiðskíra daga, allann daginn, alla vikuna og kannski 20-30 stiga hita. Reyndar nýt ég þeirra forréttinda að hafa stundum aðgang að húsi sem er ekki í túristabæ heldur litlu sjávarþorpi og þangað koma aðallega Spánverjar. Ég man amk ekki eftir því að hafa hitt þarna breta eða þjóðverja. Aðeins spænskar fjölskyldur í sumarskapi.
Svo eru það borgarferðirnar. Ég hef heimsótt Sevilla, Barcelona, Alicante og Madrid en þær eru hver annari æðislegri…
MADRID
Ef þig langar að fara í fjöruga skemmtferð er Madrid ALGJÖRLEGA málið. Borgin er reyndar inni í miðju landi svo þar getur orðið ansi heitt en stemmningin er líka heit og skemmtileg. Í Madrid eru óteljandi litlir barir, flísalagðir í hólf og gólf, þétt skipaðir inni sem úti og fjörið eftir því. Borgin er jafnframt einstaklega falleg, húsin gömul og glæsileg, torgin, söfnin, veitingastaðirnir og allt hitt. Madrid er heimsborg í háklassa. Flott hótel HÉR og HÉR og allskonar áhugaverðar upplýsingar HÉR.
SEVILLE
Seville er einstök borg, ótrúlega hreinleg, falleg og glæsileg. Borgin var lengi vel eins sú ríkasta í Evrópu og ber þess vel merki því glæsileiki bygginganna er með ólíkindum. Seville er heimaborg flamenco dansins og tapas er hvergi eins gott og fjölbreytt og í Seville en það sem ég tók sérstaklega eftir þegar ég kom til borgarinnar voru glæsilegar konur. Allar svo vel til hafðar og flottar, sama á hvaða aldri. Það er rosalega gaman að versla í Seville enda fjölbreytt úrval verslana, allt frá Zöru til Sephora og svo auðvitað verslunarmiðstöðvar.
Í Seville eru nokkur stórmerkileg söfn og meðal þeirra er kirkja þar sem landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus liggur í grafhýsi sínu en það sem þú vilt alls ekki missa af eru Arabísku böðin. Bókaðu bara með góðum fyrirvara og pantaðu líka nudd. Seville er hinn fullkomni áfangastaður fyrir ástfangin pör, eða pör sem vilja verða meira ástfangin. Flott hótel HÉR og enn flottara HÉR.
Kíktu á heimasíðuna hjá Lifestyle Seville til að kanna fleiri möguleika og bóka eitthvað skemmtilegt eins og vín og hráskinkusmökkunarferð. Ég bendi líka á að þú ert ekki nema í sirka einn til tvo klukkutíma að fara til Sevilla frá Algarve í Portúgal en þangað er flogið beint með VITA í sumar.
BARCELONA
Barcelona er líklega sú borg á Spáni sem flestir íslendingar hafa heimsótt enda hefur Icelandair flogið þangað beint á sumrin í nokkur ár. Það eru reyndar nokkur ár síðan ég sótti borgina heim en þá bjó ég í Pyrennea fjöllum í litlu þorpi, (eða réttara sagt agnarsmáu), í um fjögurra tíma fjarlægð frá Barcelona.
Barcelona er fræg fyrir sitthvað sem er svolítið skakkt og skrítið. Til að mynda eru þar ótal margir kyn -og klæðskiptingar (hver öðrum sætari) og svo er Gaudi kirkjan og annar arkitektúr eftir þann flotta snilling hálfgerð einkennismerki borgarinnar. Í Barcelona er hægt að fara á ströndina og versla fyrir allann peninginn enda gott úrval af verslunum.
Annars mæli ég með þessari vefsíðu til að kanna skemmtilega möguleika í borginni, allt frá því að leigja hjól, mótorhjól, fara í siglingu, dekur, súkkulaðismökkun eða freyðivíngerð.
ALICANTE
Alicante er æðisleg borg. Ekki of stór, ekki of lítil, allt í góðu göngufæri og fullt, fullt af góðum veitingastöðum og búðum. Ef þig langar að fara í HM leiðangur er sniðugast að renna í verslunarmiðstöðvarnar sem liggja aðeins fyrir ofan miðbæinn en ég legg þó til að fólk sé ekkert að eyða of miklum tíma þar í senn. Skipuleggja sig frekar áður en haldið er út, skoða HM á netinu og vera með plan því það er svo mikil synd að eyða sumarfríinu sínu inni í ‘molli’.
Ef þú ert svo heppin að vera í Alicante í kringum 21 júní áttu eftir að upplifa stórkostlega skemmtun þegar borgarbúar fagna sumarsólstöðum með íkveikjum og látum. Þá eru byggðar himinháar styttur sem minna á eitthvað úr Disney myndum en rétt fyrir miðnætti er kveikt í öllum herlegheitunum með tilheyrandi slökkviliðsbílaviðbúnaði og fjöri.
Nóttin fer svo í dans og stuð og um alla borg eru æpandi glöð og rennandi blaut ungmennin að ‘teika’ slökkviliðsbíla. Fjörið stendur reyndar í þrjá til fjóra daga en hápunkturinn er á sumarsólstöðunótt. Algjörlega ólýsanleg upplifun.
En ætli þetta sé ekki allt rammað inn í þessa flottu kynningu sem segir í raun allt. Maður þarf ekki neitt á Spáni annað en landið sjálft…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=GJ68EQSaU4E[/youtube]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.