Ég hafði aldrei komið á Hótel Rangá þegar ég afréð að skella mér þangað í stutta lúxusferð snemma í síðasta mánuði.
Oft hafði ég heyrt talað um þetta fíneríshótel og vinkonur mínar flestar með rómantískan norðurljósastjörnuglampa í augunum þegar ég sagði þeim frá þessu, – viðbrögðin alltaf “Ohhh!… Hótel Rangá. Það er ÆÐI!”.
Ég var því tilbúin fyrir rómantísk undur og stórmerki þegar ég lagði leið mína austur í góðum félagsskap einhvern rigningardaginn í haust.
Rangá er ótrúlega skemmtilega búið hótel og þá bera svíturnar þeirra af enda hver og ein með ákveðnu þema sem tengjast heimsálfunum. Við dvöldum í Royalsvítunni en sú er eins og góð 80 fermetra íbúð. Mjög hátt til lofts og vítt til veggja og allt gert til að ýta undir rómantíska stemmingu. Okkar biðu meira að segja súkkulaðihjúpuð jarðarber á disk og rósarvöndur!
Svíta þessi hefur lengi verið mjög vinsæl hjá brúðhjónum enda virkilega rómantískt að koma þarna í kyrrðina, gluggar í allar áttir, yndislega mjúkt rúm og baðker fyrir tvo, ásamt setustofu, tvöfaldri sturtu, skrifborði og sjónvörpum bæði við rúmið og sestustofu. Það er ekki annað hægt en að líða eins og blómi í eggi. Eða blómum?
Það eru þó ekki bara brúðhjón sem koma á Hótel Rangá, staðurinn er líka vinsæll hjá pörum sem langar að eiga saman notalega stund, borða og hafa það gott bara tvö. Rækta sambandið eins og það er kallað. Reglulega eru tilboð á þessu sem flestum íslenskum hótelum sem margir taka enda á kostnaðurinn það til að verða ansi mikill ef þú ætlar út að borða með þínum heittelskaða og taka t.d. leigubíl fram og til baka. Þá velja margir að bæta við nokkrum þúsundkörlum, gista líka á hóteli og gera extra góða upplifun sem lifir í minningunni um ókomin ár.
Ég gæti líka trúað að gjafabréf til hjóna með gistingu á Hótel Rangá væri kærkomið. Þá sérstaklega til þeirra sem eiga orðið flesta muni sem þarf að kaupa til heimilis. Það er svo gott að bregða sér af bæ, leggja á flótta frá hversdagslífinu og rækta rómansinn án þess að þurfa að leggja endilega land undir fót og stíga upp í flugvél. Ferð á Rangá er dekurferð þar sem þið þurfið ekkert að leggja á ykkur annað en að komast á staðinn. Eftir það verður séð um ykkur með glæsibrag en hótelið hefur þegar fengið mjög góða umsögn á ferðasíðunni Trip Advisor. Þjónustan til fyrirmyndar.
Það eina sem ég hef kannski að segja um matseðilinn er að mér þótti hann full túristamiðaður. Við íslendingar erum vissulega kát með lambið okkar og finnst skyrið gott en kannski finnst okkur meira gaman að fá eitthvað öðruvísi á samsettum veislumatseðli þegar við förum að ‘tríta’ okkur. Annars var ekkert út á matinn að setja.
Persónulega hefði ég áhuga á að komast þarna aftur á Hótel Rangá í norðurljósaferð síðar í vetur. Mér finnst ofsalega gaman að ferðast innanlands á veturna, þá aðallega til að komast í heitan pott og skoða stjörnur og norðurljós í vetrarmyrkrinu. Það er fátt rómantískara! Þau sjást jú aldrei eins vel frá borginni.
Í galleríinu fyrir neðan eru nokkrar myndir sem ég tók bæði af matnum, svítunni og aðeins af hótelinu en þú getur líka skoðað fleiri myndir hér. Mæli sannarlega með dvöl á Rangá fyrir íslenskar dekurrófur og ástmenn þeirra!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.