Bókmenntafræðingurinn og blaðamaðurinn Roald Viðar veit fáar borgir jafn heillandi og Barcelona, eða Barselóna, höfuðborg Katalóníu á Spáni en þar er hann sammála mörgum samlöndum sínum.
Hann segist hafa kolfallið fyrir henni þrátt fyrir að hafa verið rændur flestu sem skiptir máli í einni af sinni fyrstu ferðum og hann kann vel að meta barinn þar sem Dali, Miro og Hemingway fengu sér görótta drykki.
Hefurðu komið þangað oft og hvernig var þín fyrsta ferð?
Hef komið þangað fimm sinnum um ævina og staldraði stutt við í hvert skipti. Fyrsta ferðin var töfrum líkust enda Barcelona ein fegursta borg veraldar. Ég bara kolféll fyrir borginni, í raun er það ekkert flóknara og hef reynt að heimsækja hana öðru hverju síðan þá. Jafn vel þótt ég hafi orðið fyrri því óhappi í minni þriðju ferð að vera rændur fartölvu, iPodi, vegabréfi og nokkur hundruð dollurum af hótelstarfsfólki! Þjófnaður er nefnilega útbreitt vandmál í Barcelona, en fari fólk gætilega og varist til dæmis að hafa peningaveski í brjóst- eða rassvössum í neðanjarðarlestum er minni ástæða til að óttast. Svo er ágætt að muna að öryggishólf á hótelherbergjum eru sjaldnast höfð upp á punt.
Af hverju dýrkarðu Barcelona?
Ein helsta ástæðan eru allir þeir flottu veitingastaðir sem eru að finna í borginni. Ég er nefnilega óttalegur lífsnautnaseggur og finnst fátt eins gott og að borða gómsætan mat. Ekki skemmir fyrir að stutt er á milli staðanna og því tilvalið að verja degi í að rölta á milli.
…fari fólk gætilega og varist til dæmis að hafa peningaveski í brjóst- eða rassvössum í neðanjarðarlestum er minni ástæða til að óttast. Svo er ágætt að muna að öryggishólf á hótelherbergjum eru sjaldnast höfð upp á punt.
Umgjörðin er náttúrulega engu lík, eins og áður sagði, þar sem götumyndin er víða gömul og heillandi, alls staðar er list og töfrablær yfir byggingum Gaudís. Þótt ótrúlegt sé getur andrúmsloftið líka verið tiltölulega afslappað, einkum fjarri hinni þekktu verslunargötu Römblunni og utan ferðamannatímabilsins sem er frá júní til ágúst.
Áttu uppáhalds veitingastað í borginni?
Como var í miklu uppáhaldi þar til eigandinn lokaði og flutti til Argentínu. Þar var hægt að gæða sér á ljúffengustu nautasteikum sem sögur fara af. Ég slefa enn við tilhugsunina. Annars er úr svo mörgu góðum stöðum að velja að ég vil mæla með nokkrum.
Á El Quim er boðið er upp á hefðbundna og afar góða katalónska rétti. Hann er rekinn í bás í hinum fræga matarmarkaði La Boqueria við Römbluna sem er gaman að skoða. Meðan betri helmingurinn gæðir sér þar yfirleitt á skelfisk sem er eldaður “spriklandi” á staðnum (!), lít ég bara í hina áttina og narta í heimsins bestu pylsur og annað lostæti.
Dos Pallilos er góður tapasstaður, Ciudad Condal líka og á Els Pescadors býður góða sjávarrétti.
Ekki er úr vegi að koma við á kaffihúsinu/barnum Marsella sem listamenn á borð við Dali og Miró sóttu á sínum tíma og auðvitað Hemingway sem skrifaði þar smásögur og drakk absinthe. Reyndar er varla þverfótað fyrir börum í borginni sem karlinn hékk á.
Hvernig væri fullkominn dagur í Barcelona?
Fer á fætur við fyrsta hanagal. Fæ mér tvöfaldan espressó á næsta “afalega” kaffihúsi. Rölti um borgina. Borða. Skoða mannlífið. Borða. Kíki á söfn (mæli sérstaklega með Miró safninu). Guðdómlegt nunnukonfekt og kaffi á Caelum. Borða þar til ég get ekki meir! Eftir lífgunartilraunir er svo aldrei að vita nema hægt sé að plata mig út á lífið.
Eru góðir pick-nick staðir í borginni?
Fer sjaldan í lautarferðir en í Barcelona er hægt að bregða sér á ströndina og ýmist flatmaga í sólinni, busla í sjónum eða láta fara vel um sig undir sólhlíf með góða bók. Við slíkar aðstæður er auðvitað tilvalið að hafa meðferðis svalandi drykki og gott að narta í.
Hvar er gaman að versla?
Alls staðar. Barcelone er stútfull af litlum skemmtilegum búðum þar sem úir og grúir af alls konar flottri hönnunarvöru, fatnaði, innanhússmunum, listmunum og fleiru.
Best geymda leyndarmál borgarinnar að þínu mati?
Ekki tilbúinn að ljóstra því upp.
Myndirnar hér að ofan (fyrir utan þá efstu) tók Sigurþór Gunnlaugsson.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.