Við maðurinn minn eigum samtals fjögur börn og ákváðum að skella okkur í sumarfrí með gullin okkar.
Ferðinni var heitið til Tenerife. Dásamlegur staður, fallegt umhverfi, næs hiti og mikið um að vera fyrir börnin.
Við komum til landsins rétt eftir hádegi á miðvikudegi og það var skýjað. Brjálæðislegur hiti en skýjað.
Fínt hugsaði ég…(er nefnilega ekkert mikið fyrir að sitja í sól, frekar týpan sem situr í skugga og les) ég skellti sólarvörn á öll börnin og manninn minn. Smurði þau vel og mikið og sagði að allur væri nú varinn góður.
Ungviðið hljóp um allan hótelgarðinn og prófaði hvert einasta tæki. Hverja einustu sundlaug og reyndi að tala við hvern einasta túrista sem var á svæðinu. Við bóndinn skiptum liði og hlupum á eftir þeim.
GLEYMDI SJÁLFRI MÉR
Fjórum tímum síðar ákvað mín að skella sér aðeins inn á herbergi og slaka á eftir ferðalagið til landsins og alla spennuna sem var í gangi hjá börnunum. Ég steinsofnaði. Ég svaf í rúman klukkutíma og þegar ég vaknaði var ég eldrauð á lærum og handleggjum. Damn! Ég var svona svakalega brunnin!
Daginn eftir hafði bruninn ekkert skánað, versnað ef eitthvað var. Mín var eldrauð og með verki inn að beinum (meira vesenið). Gat nú sjálfi mér um kennt þar sem ég hafði gleymt að setja sólavörn á sjálfa mig. Ég sendi strákana út og maðurinn minn var svo elskulegur að skjótast út í búð eftir hreinni jógúrt fyrir mig (ég var nú samt ekkert að segja honum að ég ætlaði ekki að borða hana).
JÓGÚRT!
Nú…þegar ég var orðin ein í íbúðinni þá smurði ég mig hátt og lágt með ískaldri jógúrtinni. Eldrauð og það hreinlega rauk af mér…svo mikill var bruninn. Jógúrtin var svalandi og ég ákvað að liggja með hana á mér í allavega hálftíma.
Þá mundi ég eftir því að ég hafði tekið með mér helling af andlits, fót og hand möskum. Dásamlegar vörur sem maður ætti nú að njóta.
Ég tók upp andlitsmaskann sem er gríma og skellti henni framan í mig. Smurði henni vel á allt andlitið svo einungis augun og varirnar sáust. Setti fótamaskann á mig, það eru þessir fínu plastskór með aloa vera mýkjandi og næringarríku kremi í. Handmaskinn var alveg eins, svona hanskar sem maður skellir sér í.
Svona sat ég. Með jógúrt um allan líkamann. Andlitsmaskann svo rét glitti í augun á mér og varir. Plastsokka á fótum og hanska á fingrum. Þá var bjöllunni hringt…..briiiiinggggg briiiiiingggggg!!!
GÓÐANN DAGINN!
Ohhh..koma krakkarnir hugsaði ég og blótaði í hljóði. Var nú ekki búin að hugsa mér að láta alla fjölskylduna góna á mig með allt þetta stöff á mér. En jæja..ég staulaðist á fætur..jógúrtin lak af mér á gólfið og ég rétt náði að opna hurðina.
Fyrir utan stóðu tvær spænskar ræstingarkonur. Þær voru í miðjum samræðum, töluðu hátt og mikið en steinþögnuðu þegar þær sáu mig. Augun ætluðu hreinlega úr þeim. Mér brá líka…úfffff….shitt….hvað var í gangi? Ég átti svo innilega von á því að þetta væru strákarnir mínir en ekki einhverjar ókunnugar konur fyrir utan. Sæææælll!
Önnur gat ekki haldið í sér og byrjaði að ískra. Hún hristist öll og náði að kreysta upp úr sér “Scusa Scusa senjorita” og hálf hljóp í burtu. Hlátursköllinn heyrðust síðan í stigaganginum lengi á eftir. Hin konan þrusaði ræðu út úr sér og vinkaði mér svo ég náði því að hún ætlaði að koma seinna. Svona þegar betur stæði á….
Þegar þær spænsku voru farnar leit ég í spegil og herre gud. Ég leit út eins og bráðnandi múmía! Jógúrt tægjurnar lekandi um allan líkamann, andlitið þakið maska, táslurnar í plastsokkum og hárið stóð í allar áttir!!! Ekki fögur sjón!
Þrátt fyrir að egóið var pínu skaddað þá náði húðin sér vel og ég var voða fín það sem eftir var ferðarinnar. Allt starfsfólkið á hótelinu var einstaklega brosmilt og vingjarnlegt við mig. Vinkaði mér og veifaði í hvert skipti sem það sá mig. Voða næs. Ha?
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.