Barcelona er uppáhaldsborg skemmtilega rithöfundarins Óttars M. Norðfjörð en þangað hefur hann komið margoft. Hann bjó einnig í borginni um tíma og þekkir hana því vel.
Af hverju elskarðu Barcelona?
Mér finnst hún einfaldlega hafa allt. Hún er stórborg með breiðgötum en um leið eins og 4-5 tengd þorp með þröngum götum. Hún hefur strönd, hafið og fjöll allt í kring. Það er alltaf nóg um að vera í henni og veðrið er eins og best verður á kosið.
Áttu uppáhalds veitingastaði í borginni?
Það breytist reglulega en í augnablikinu er það hamborgarastaður, ótrúlegt en satt, sem heitir Kiosko. Án efa besti hamborgari sem ég hef smakkað!
Hvernig væri fullkominn dagur í Barcelona?
Þeir geta verið margir. Það væri t.d. hægt að fara í Sant Antoní hverfi og borða morgunmat á Café Cometa. Síðan rölta í gegnum efra Raval, gotneska hverfið og inn í Born. Í öllum þessum hverfum er endalaust af skemmtilegum búðum og galleríum. Hádegismatur á Neapolitan pítseríunni rétt hjá. Svo hægt að kíkja niður á strönd, ganga meðfram strandlengjunni eða hoppa út í. Eftir það fá sér horchata í Sirvent eða kaffi fyrir ofan bókabúðina Laie, enda svo daginn á einhverjum lókal veitingastað á torgi í Grácia hverfi.
Eru góðir pick-nick staðir í borginni?
Já, það er hægt að fara niður á strönd og njóta Miðjarðarhafsins eða Ciutadella garðinn sem er stór og með dýragarði. Eða þá upp í fjöllin í kring, nóg af fallegum stöðum þar og stutt í náttúruna.
Hvar er gaman að versla, einhverjar leynibúðir?
Helsta verslunargatan heitir Passeig de Gracia, þú finnur öll þekktustu merki heims þar. Við hlið hennar er Rambla de Catalunya sem er falleg og með mörgum skemmtilegum búðum, t.d. Muji. Ég mæli líka með Fantastik í Raval hverfi.
Hvert á að fara næst?
Ég er nýkominn til Íslands eftir nokkurra mánuða dvöl á Spáni og hlakka til að ferðast um landið, ætla á Vestfirði og líka upp á hálendið. Það verður gaman.
Takk fyrir þessi frábæru ferðaráð Óttar og njóttu þín á Íslandi!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.