Ég flutti heim frá Kaupmannahöfn fyrir örfáum mánuðum. „Heim” er kannski ekki rétta orðið því heima er í raun í tveimur löndum einhver staðar milli tveggja heima.
„Aftur” væri betra orð þar sem þetta er í annað sinn sem að ég flyt á milli Íslands og Kaupmannahafnar. Eflaust mun ég búa í Danmörku aftur. Jafnvel flyt ég eitthvert annað einn daginn. Ég hef að minnsta kosti ekki gefið það upp á bátinn að búa meira erlendis og hræðist alls ekki flutninga.
Búsetan erlendis hefur að sjálfsögðu mótað mig sem einstakling því þarna skapaði ég mér líf sem ég hefði eflaust aldrei lifað á Íslandi. Eftir ellefu ár í útlandinu er ég meira opin fyrir breytingum. Ég er þó ekki farin að aðhyllast dönsku „jenteloven” og tala bjagaða íslensku með hrognahreim.
Skipulagið er orðið örlítið betra, ég fagna fjölbreytileikanum, borða gulrætur eins og dönsku píurnar og hyldeblomst er ennþá uppáhalds drykkurinn minn.
Borginni kynntist ég nokkuð vel og komst fljótlega að því að þarna væri hægt að upplifa nýja staði á hverjum degi. Ég get ekki talið upp hversu oft ég hef verið spurð um hvað sé nauðsynlegt að sjá þegar að fólk heimsækir borgina.
Ég gæti auðveldlega skrifað bók um borgina mína eða staði eða sem hafa fallið í kramið hjá mér en að þessu sinni ætla ég að segja ykkur frá nokkrum veitingastöðum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ef þú ert að ferðast til Kóngsins Köben á næstunni þá skaltu ekki hika við að prófa einhverja af þessum stöðum.
Pastis
Hvar? @Miðbærinn
Gothersgade 52, 1123 København K
Á horninu á Gothersgade og Adelsgade er veitingastaðurinn Pastis sem minnir mig óneitanlega á París. Þetta er franskur brasserie staður með frábærum mat. Vínúrvalið er ansi gott en þarna ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Kjöt eða fiskur, ég mæli með bæði.
Bistro Royal
Hvar? @Miðbærinn
Kongens Nytorv 26, 1050 København K
Hér færðu góða steik með frönskum eða gómsætan humar sem bráðnar í munninum. Madklubben rekur átta staði um borgina sem gaman er að borða á. Til dæmis er stærri staður á Vesterbro með góðum kokteilbar en ég er hrifin af þessari staðsetningu sem er við Kongens Nytorv. Staðurinn býður upp á einfaldan matseðil og verðið er mjög gott. Stemningin er alltaf frábær hvort sem það er í miðri viku eða um helgi. Flottur staður fyrir aðeins stærri hópa.
Wokshop
Hvar? @Miðbærinn
Ny Adelgade 6. 1104 KBh. K.
Wokshop er þekktur fyrir að vera með geggjaðan austurlenskan mat. Hann er rétt hjá Kongens Nytorv í hliðargötu. Þarna þarftu að deila borði með öðrum gestum en staðurinn er mjög lítill og borðin eru fá. Maturinn er einskonar blanda af austurlenskum réttum. Betra gerist það ekki. Þarna færðu virkilega bragðgóðan mat sem ég mæli hiklaust með.
Tony’s
Hvar? @Miðbærinn
Havnegade 47, 1058 København K
Hér er einstaklega góður ítalskur staður. Það þarf að panta borð og verðið er viðráðanlegt. Matargerðin er einföld eins og ítalir eru þekktir fyrir. Þjónustan er fín og staðsetningin er við vatnið skammt frá Nyhavn. Þessi staður klikkar aldrei.
Kødbyen Fiskebar
Hvar? @Vesterbro
Flæsketorvet 100, 1711 København V
Ef þú vil fá meiriháttar ferskar ostrur, múslinga og hvítvín eða einfaldlega fish & chips, þá er þetta staðurinn. Hrá iðnaðarhönnunin passer vel við stemninguna sem liggur í loftinu. Hér að gaman að fara áður en farið er út á lífið. Ég mæli með honum!
Mother
Hvar? @Vesterbro/Kødbyen
Høkerboderne 9, 1712 København V
Hér færðu bestu pizzurnar í bænum. Andrúmloftið er alltaf gott enda nóg um að vera í Kødbyen. Starfsfólkið talar helst ekki dönsku og þú gætir þurft að deila borði með fleiri gestum. Þessi staður er í raun fyrir alla fjölskylduna og um helgar er boðið upp á girnilegt hlaðborð með allskonar réttum. Pizzur, ostar, salöt, brauð og eftirréttir.
Gorilla
Hvar? @Vesterbro /Kødbyen
Flæsketorvet 63, 1711 København V
Ég slysaðist inn á þennan stað með kærasta mínum í sumar. Við áttum ekki pantað og enduðum á því að sitja við barinn og borða þar dýrindis smárétti og drukkum gott rauðvín með. Þessi staður er mjög stór og flottur. Maturinn er bragðgóður og þjónustan frábær.
Barbie
Hvar? @Vesterbro
Trommesalen 5, 1614 København V
Nafnið dregur hvern sem er að staðnum. Það er líka spennandi að finna staðinn en til þess að komast þangað þarf að fara í gegnum RETOUR STEAK VESTERBRO og niður tröppur. Staðurinn er hálf falinn í kjallaranum. Hugmyndin að nafninu er ekki fenginn frá frægu leggjalöngu barbiedúkkunnar heldur er þetta slang fyrir barbecue eða BBQ. Á Barbie er boðið upp á BBQ bakka að eigin vali. Hér þarf að panta borð.
Bæst
Hvar? @Nørrebro
Guldbergsgade 29, 2200 København N
Allur matur er unnin frá grunni og staðurinn einblínir á gott kjöt og vistvænar vörur. Pizzurnar eru unnar úr súrdeigi og bakaðar í ofni sem var sérpantaður frá Napoli. Hér þarf að borga örlítið meira fyrir réttina en það er vel þess virði.
20A
Hvar? @Nørrebro
Ravnsborggade 20A -2200 København N
Mjög huggulegur lítill staður. Matseðillinn er aldeilis ekki flókinn á þessum stað. Þarna er lokað alla sunnudaga en aðra daga er boðið upp á tvo aðalrétti, tvo forrétti og einn- tvo eftirrétti. Aðalrétturinn er margbreytilegur en oftast er boðið upp á einn kjötrétt og einn fiskrétt. Á borðstólum gæti verið unghani, kálfakjöt eða jafnvel reykt „flæsk”. Verð fyrir rétt dagsins er 125 dkk ef borðað er á staðnum en 85 dkk ef borðað er út úr húsi.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!