Eins og ég hef áður skrifað er Spánn einn af mínum eftirlætis stöðum á jörðinni og á ég þá skoðun sannarlega sameiginlega með mörgum öðrum enda dásemdarland.
Í nokkur ár hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að dvelja í litlu sjávarplássi við Spánarstrendur þar sem heimamenn koma til að sóla sig. Í öll þau ár sem ég hef farið þarna hef ég næstum aldrei hitt íslending, breta eða þjóðverja. Ekki eins og ég sé einhver rasisti en þú veist hvað ég meina 😉 Það gefur bara aðra stemmningu að vera næstum aðeins innan um heimamenn. Svo kann ég líka að segja vino tinto, vino blanco, cafe solo, aqua con gas, manzana og naranja, nú eða queso og pan.
Hátíðir á Spáni
Spánn er frábært land, auðugt af góðum mat og skemmtilegri menningu og hefðum og svo er annað sem ekki allir vita… Fáar þjóðir halda jafn brjálaðar og skemmtilegar hátíðir og Spánverjar! Þjóðhátíðin okkar, menningarnótt eða jafnvel gamlárskvöldið fölnar alveg í samanburði við fagnaðarlæti þeirra á Spáni.
Í hverri borg, þorpi eða jafnvel þyrpingu hafa menn sína eigin hátíð sem safnar borgarbúum saman í gleði og glaum. Þá eru kveiktir bæði flug og varðeldar og í sumum borgum er gengið svo langt að búa til himinháar gullfallegar styttur, aðeins til að kveikja í þeim nokkrum dögum síðar. Í raun er þetta svolítið eins og að kveikt væri í Disneyworld, svo flottar eru þessar styttur.
Það er ógleymanleg lífsreynsla að upplifa hátíðarhöld á Spáni og sértu á leið þangað er um að gera að kynna sér hátíðarnar en fyrir þau sem stefna á Torrevieja er skemmtileg hátíð í bænum Elche en þú getur smellt HÉR til að lesa betur um hátíðir á Spáni sem eru haldnar í hverjum mánuði.
Sjálf er ég óskaplega hrifin af sólstöðuhátíð þeirra í Alicante sem fer fram 20 júní. Hátíðin heitir Fogueres de Sant Joan og er ævintýri líkust. Ég mæli hiklaust með að fólk skelli sér á þessa hátíð sem þú getur lesið meira um hér.
#pjattrofurnar #alicante #spain
A photo posted by Margrét H. Gústavs (@margret_gustavs) on
KEYRÐU UM SPÁN
Margir fara til Spánar og hreyfa sig ekki út fyrir bæjarmörk Benidorm eða þess staðar sem ákveðið var að heimsækja en ég hvet þó alla ferðalanga eindregið til að leigja sér bíl og prófa að keyra aðeins um landið.
Þú getur til að mynda farið með góðri vinkonu og prófað að leigja blæjubíl…
Þið gætuð ekið til annara borga en sem dæmi tekur ekki nema fjóra tíma að aka frá Alicante til bæði Barcelona og Madrid og frá Sevilla tekur aðeins rúma klukkustund að komast til Portúgal.
Örugg umferð
Umferðarmenning á Spáni er örugg miðað við landið okkar. Þar keyra allir á leyfilegum hámarkshraða sem gerir að verkum að umferðin gengur þægilega fyrir sig.
Menn og konur halda sig á hægri akrein og taka ekki frammúr nema nauðsyn krefji en á Spáni eru margir sveitavegir einstefnu. Þá er leyfilegur hámarkshraði oft í kringum 80 km per kls en á hraðbrautum máttu fara á 120.
Ef það kemur fyrir slys á hraðbraut kveikja allir á ‘hazard’ ljósunum til merkis um að eitthvað hafi komið fyrir en þetta gerist ekki oft.
Og séuð þið með GPS tæki eru ykkur allir vegir færir. Þá er hægt að rata um allt. Reyndar er sniðugt að kaupa sér bara frelsi í iPhone eða annan snjallsíma og nota það svo til að ráfa um netið, rata og finna góða veitingastaði og fleira. Mín reynsla er sú að það borgar sig að kaupa símafrelsi þegar maður er á ferðalagi.
Smelltu HÉR til að lesa nánar um ökumenningu Spánverja og mundu bara… að virða hraðatakmarkanir sem aldrei fyrr.
Svo segi ég bara, skelltu þér af stað! Viva la Espania!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.