Þýskaland er “boring” og þjóðverjar leiðinlegir. Það er ekkert varið í þetta lúðalega land – nema kannski Berlín… skilst að hún sé töff.
Þessa einstaklega fyrirsjáanlegu hugmynd hafði ég um þetta stóra land fyrir ekki svo löngu síðan en á síðustu tólf mánuðum leiddu einskærar tilviljanir til þess að ég fór þrisvar til Þýskalands og í hvert sinn í sitthvora borgina: Hamborg, Berlín og Köln.
Ég verð að viðurkenna að ég át bæði hattinn minn og hárkolluna strax í Hamborg. Þessar borgir eru hver annari skemmtilegri en skemmtilegust fannst mér þó Köln, líklegast af því hún er svo frábærlega staðsett og ekkert allt of stór.
Í raun minnti Köln svolítið á Kaupmannahöfn svona stærðarlega séð enda full af göngugötum sem eru aftur fullar af frábærum verslunum.
Þá eru ónefndir veitingastaðirnir en aldrei áður hef ég upplifað það að smakka aldrei, í eitt einasta skipti, vondan mat á ferðalagi. Þetta þykir tíðindum sæta í minni dagbók því ég hef löngum verið óttalegur matarsnobbari.
Ferðinni var þannig háttað að við lentum á miðvikudegi og gistum tvær nætur á hóteli við ánna Rín. Hótelið heitir Art’Otel og tiltölulega nýtt fjögurra stjörnu hótel. Það var hreinlegt og fínt en þjónustunni var svolítið ábótavant. Við fengum þá skýringu að það væri fáliðað af því akkúrat þegar við vorum þarna skein sólin í fyrsta sinn allt sumarið (en ekki hvað) – og menn hreinlega skrópuðu í vinnunni.
Á laugardegi leigðum við flottan sjálfskiptan Ford jeppa frá Avis og ókum sem leið lá til Frakklands til að heimsækja vinkonu sem býr með eðlunni sinni og eiginmanni rétt hjá Thionville. Leiðin frá Þýskalandi til Frakklands er frjósöm og fallegt og gaman að skoða vínberja akrana, fjöll og dali út um gluggann. Eitt af því besta við að fara til Kölnar er hversu stutt það er að komast þaðan til annara skemmtilegra staða í Evrópu en sem dæmi tekur 5 kls að keyra til Parísar og 8 kls til Milanó á Ítalíu og bílaleigubíllinn kostaði okkur 65 evrur yfir helgina.
HÁDEGISMATUR Í LUX
Eftir að hafa eytt laugardegi í Frakklandi ókum við á sunnudeginum í gegnum Mosel til Lúxemborgar og þar fengum við okkur hádegismat á fallegu torgi í hjarta borgarinnar en síðan lá leiðin aftur til Kölnar.
Við ákváðum að skipta um hótel og í þetta sinn varð fyrir valinu Hotel im Wasserturn. Nýlegt hótel byggt í gömlum vantstanki, ótrúlega sérstakur gististaður og skemmtilegur.
Reyndar varð frekar heitt inni á herberginu en bygging hússins er þannig að hitinn stígur eðlilega bara upp og við vorum á næst efstu hæð. Að öðru leiti var hótelið bara nokkuð skemmtilegt og þjónustan framúrskarandi.
Hotels.com varð fyrir valinu þegar við pöntuðum okkur gistingu en það er alltaf hægt að fá góða díla með stuttum fyrirvara. Mælum þó með því að þú gerir samanburð á milli síða og þess að kaupa beint af hótelinu. Oft getur munað talsvert miklu á t.d. Expedia, Dohop, Hotels.com og Lastminute ef fólk kýs að panta þannig fyrirfram.
En hvað sem því líður þá legg ég til að þú skoðir Kölnarborg sem áfangastað fyrir næsta ferðalag. Mér skilst líka að þar sé himneskur jólamarkaður fyrir framan Dómkirkjuna ár hvert og ekki amalegt að upplifa það held ég.
Einhver íslensku flugfélaganna fóru beint til Kölnar síðasta sumar þó ég viti ekki hvað framhaldið verður eða hvort flogið verði næsta sumar aftur en tvímælalaust getum við Eva systir mælt með þessari borg sem frábærum áfangastað í fríinu!
_______________________________________________________________
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.