Ég vissi sem krakki að ég myndi búa erlendis einhvern hluta af minni ævi. Ævintýraþráin fór að gera vart við sig ansi snemma og því hafa ferðalög ætíð verið stór partur af mínu lífi.
Eins og hver önnur unglingsstúlka hafði ég stóra drauma. Fyrst vildi ég verða leikkona og æfði mig reglulega fyrir framan spegilinn. Draumarnir breyttust skyndilega þegar ég var fimmtán ára og var ég viss um að örlög mínu væru ráðin. Ég ætti að verða söngkona í Bandaríkjunum. Þá sigraði ég alþjóðlega söngkeppni á sviði fræga Waldorf Astoria hótelsins. Í kjölfarið var mér boðið að flytja út til New York, fara í stranga raddþjálfun og vinna að söngferli. Foreldrar mínir harðneituðu að ég færi svona ung á vit ævintýra í hinum stóra heimi.
Ég átti að klára menntaskólann á Íslandi áður og ég hlýddi því grautfúl. Í mínum huga voru þau að eyðileggja líf mitt enda er ég vatnsberi sem þarf að vera frjáls til þess að skapa. Í dag er ég nokkuð viss um að ég ætti að þakka þeim fyrir að hafa haft vit fyrir mér.
Erykah Badu mætti í mat
Um tvítugt elti ég drauma mína til New York og LA þar sem ég starfaði með söngþjálfara og framleiðendum í einhverja mánuði á eftir. New York í janúar og febrúar reyndist þó fjarri því sem ég hafði ímyndað mér. Ég bjó hjá umboðsmanninum mínum á Manhattan sem sparaði hitann í íbúðinni og límdi gula „post id” miða út um allt. Já hún var ráðrík skipulagsfrík og merkti matinn okkar í ísskápnum, mitt og þitt. Hins vegar vildi hún einnig vernda mig svo ég færi mér ekki að voða in the big apple svo ég gat ekki stolist á tjúttið. Ég huggaði mig það að Erykah Badu söngkona kom í mat og við förum reglulega í kaffi til eiginkonu Mark Knopfler í Dire Straits.
Lífsreynsla sem ég lærði af
Þetta var þó ekkert frí svo ég var lítið að njóta borgarinnar sem aldrei sefur. Mér var kalt öllum stundum, nasavængirnir frusu um leið og ég labbaði út fyrir dyrnar og ég upplifði mig ósýnilega innan um iðandi mannlífið. Fólk var ekki beint að heilsa manni. New York var því ekki í miklu uppáhaldi eftir þennan tíma og í raun var ég einmana í stórborginni. Vissulega var þetta spennandi og ég kynntist sjálfri mér mjög vel, sem var gífurlega þroskandi. Maður gerir það vanalega þegar að manni er kastað út í aðstæður sem reynast erfiðar.
Ansi mörgum árum seinna tók ég New York í sátt. Það var í fyrra. Veðrið var dásamlegt og ég var þarna til þess að njóta tilverunnar, borða góðan mat og skemmta mér með vinafólki. Ferðin var langt frá því að vera fullkomin en það sem stóð upp úr var skemmtileg matarmenning, stemningin í Brooklyn og mannlífið sem ég myndaði og deili með ykkur hér.
Minningar eru allskonar og þessar myndir minna mig á hvernig lífið getur breyst fyrirvaralaust. Við þroskumst og smekkurinn breytist í takt við tíðarandann. Eitthvað sem áður var óspennandi getur skyndilega fengið hjartað til að slá hraðar. Ég elska að dóla mér erlendis og mynda fólk sem er öðruvísi en ég. Maður þarf bara að opna augum upp á gátt, horfa vel í kringum sig og njóta litlu augnablikanna. Það er mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum í þessu lífi okkar.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!