Ég hef gengið yfir Knippelsbrú oftar en ég hef tölu á. Ég hef einnig hjólað ansi oft yfir brúnna og fyrir skömmu síðan ákvað ég staldra við og kanna hvað væri að finna undir brúnni.
Þar leynist skemmtileg perla sem býður að jafnaði upp á lifandi tónlist, gómsætan mat og stemningu sem vart er hægt að lýsa með orðum. Einskonar “hygge” sem er tilfinning eða orð sem er ekki hægt að þýða. Það er skynjun sem kemur upp innra hjá manni. Eitthvað sem liggur í loftinu og lætur manni líða vel.
Þar situr fólk á víð á dreif við hrá plankaborð eða í sólstólum í sandinum við Kayak barinn. Þar er sötrað hvítvín í sólinni og japlað á Moules marinieres, steik á platta með frönskum eða drukkinn öl á svokölluðum föstudagsbar.
Þarna eru kajak áhugamenn og konur að gera sig reiðubúin fyrir vatnið. Tilbúnu ströndina hef ég ekki stigið fæti á, einungis vegna þess að hún vaggar í takt við vatnsbylgjurnar sem myndast eftir smábátana sem sigla allt um kring. Ég fæ bara sjóriðu. Eitthvað með innra eyrað. Fast land freistar frekar.
Á sumrin er iðandi mannlíf, pálmatré og fjölbreyttar raddir sem bergmála. Ég settist niður með systur minni til að borða góðan mat og gleyma mér örlitla stund. Þarna naut ég tilverunnar undir brúnni í feluleik frá borginni. Ef þú ert í Kaupmannahöfn er vert að heimsækja þennan stað. Hér leynast engin tröll undir brúnni.
Hér er Kayak barinn undir brúnni í Kaupmannhöfn.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!