Í síðasta mánuði fór ég í fyrsta sinn til Grikklands. Við fórum saman fjórar vinkonur til að verðlauna okkur eftir vel heppnað líkamsræktarátak um veturinn.
Höfðum verið með grúbbu á Facebook þar sem við stöppuðum stálinu hver í aðra og svo var þetta “útskriftarferð” þó maður útskrifist auðvitað aldrei – en það er önnur saga.
Grikkland varð fyrir valinu sem áfangastaður okkar, nánar tiltekið eyjan Rhodos – og þvílíkur dýrðarstaður! Ég gersamlega kolféll fyrir þessu landi og veit varla hvar ég á að byrja með jákvæðu lýsingarorðin hvort sem þau snúa að matnum, menningunni, sólinni, sjónum, sandinum eða sætu strákunum… Lýsingarorðið að vera eins og “grískt goð” er nefninlega alls ekki innistæðulaust.
Við höfðum sjaldan séð jafn mikið samansafn af laglegu karlfólki; Skærblá eða græn augu, svart hrokkið hár, ólífulituð húð og þykkar varir… drepið okkur ekki! Og ofan í það kurteisir og fágaðir… ja hér, en það er líka önnur saga 😉
50.000 á viku fyrir 5 stjörnu lúxus
Áningarstaður okkar var Ixia ströndin sem er rétt utan við Rhodos Town eða bæinn Rhodos. Þar borguðum við um 40-50 þ.kr á mann fyrir gistingu í hótelíbúð, sem þýðir að við höfðum okkar eigin íbúð með tveimur svefn og baðherbergjum, laug, sólpall og alles en líka aðgang að hótelsundlaug, veitingastað, bar ofl.
Hótelið heitir Villa Di Mare og er fimm stjörnu háklassa hótel en þetta góða verð fengum við bæði vegna þess að þarna er rétt verið að detta inn í túrista season og vegna þess að við bókuðum á netinu. Villa di Mare stendur beint við sjóinn og ég myndi fara þangað aftur á morgun ef ég ætti þess kost. Hæsta einkunn. Skilst líka að Maria Callas og Onassis hafi verið fastagestir í gamla daga en þetta er eitt elsta hótel eyjunnar, nýuppgert.
Eðal hráefni og himneskur matur
Maturinn á Grikklandi er svo auðvitað bara háklassa. Á Grikklandi eru samankomin menningaráhrif frá Tyrklandi, Ítalíu, Frakklandi, Asíu og víðar enda hafa margir barist um yfirráð yfir eyjunum í gegnum aldirnar.
Þessa áhrifa gætir í matnum sem sendi okkur reglulega til himnaríkis gegnum bragðlaukana. Innbakaður fetaostur í smjördeigi, grísk jógúrt með jarðarberjum, banana og grísku hunangi, allar ólífurnar, vínið… algjörlega ólýsanlegt. Og ferskleikinn mjög mikill enda er mikið lagt upp úr góðum hráefnum.
Á Grikklandi tala flestir ensku enda ekkert talsett í sjónvarpi hjá þeim. Þetta fannst mér mjög góð tilbreyting frá Spánverjum sem tala bara spænsku við mann, hvort sem maður skilur hana eða ekki og fyrir vikið fengum við svo mikið meira út úr dvölinni í gegnum sögur og fræðslu eyjarskeggja.
Eyjaskeggjar í kreppu – eins og við
Grikkir eru nefninlega kurteist og flott fólk sem er alvant því að sinna ferðamönnum og ég man sjálf ekki eftir því að hafa fengið jafn ljúfar og góðar móttökur á ferðalagi. Landið er auðvitað að fara í gegnum mikla erfiðleika og kreppu núna en það gerir það bara að verkum að þau leggja meira á sig í túrismanum. Alveg eins og Ísland þarf á túristum að halda þurfa eyjarskeggjarnir á Grikklandi á okkur að halda núna.
Leigubílstjórar eyjunnar voru hver og einn eins og hinn besti skemmtikraftur enda vinna þeir aðallega yfir túristatímann. Þeir fræddu okkur um eyjuna sína, hvort sem var pólitíkina eða menninguna og þessir gömlu börðu á ennið yfir því hvað unga fólkið á Grikklandi áttar sig ekki á dýptinni í fornri menningarsögu landsins.
Allstaðar menning og saga
Rhodos er t.d. svo auðug af menningarsögu að hvar sem þú drepur niður fæti eru sögur og fornleifar. Hof ástargyðjunnar Afródítu stendur t.d. í miðri borginni og upp á hæð er hof Appolóns. Göturnar eru litlar og þröngar og allstaðar er eitthvað forvitnilegt og fallegt að sjá. Þá sér í lagi þegar túristabúðirnar loka og slökkva ljósin. Ég myndi mæla með því að allir lituðust um í gömlum borgum þegar búið er að draga fyrir. Þá fyrst sér maður borgina eins og hún á að vera. Eins og hún var fyrir 500 eða fleiri árum.
Kannski er ekki gott að orðlengja þetta mikið meira en ég skora á alla ferðalanga að kynna sér Grikkland sem áfangastað. Þetta er algjör draumur og ég á eftir að fara aftur og aftur, ef ekki bara verða eftir einn daginn eins og hún Shirley Valentine!
Hvernig kemstu þangað?
Við bókuðum hótelið í gegnum booking.com en flugum með Icelandair til London og þaðan með Ryanair frá Stansted beint til Rhodos. Við pöntuðum fyrirfram leigubíl (á netinu) sem beið eftir okkur á Heathrow en ef fleiri en þrír ferðast saman borgar slíkur ferðamáti sig í stað þess að fara með lest.
Gaman er þó að segja frá því að nú eru Heimsferðir að fljúga beint til Krítar í sumar en það er staður sem ég er staðráðin í að heimsækja sem fyrst! Auðvitað er mikið betra að fara beint heldur en að standa í þessu stappi og ég sá ekki betur en að verðið væri í kringum 120 þúsund fyrir bæði flug og gistingu sem verður að teljast hreint frábært!
Sem þaulvanur miðaldra ferðapési gef ég Grikklandi tíu stjörnur sem áfangastað og hvet alla til að skoða þann valkost fyrir fríið. Ég fer aftur. Það er á hreinu. Langar að skoða allar eyjarnar. Að lokum örfá heilræði:
- Spurðu heimamenn ráða um veitingastaði, þá helst heimamenn sem líta þannig út í fasi og klæðaburði að þú gætir verið samsinna þeim með annað. Ekki láta lokka þig inn á veitingastaði með gylliboðum.
- Alltaf spyrja leigubílstjóra fyrirfram hvað ferðin kostar.
- Algengt er að gefa þjórfé á Grikklandi með því að námunda tölu í heila upphæð. Ef leigubíll kostar átta þá gefurðu hinar tvær.
- Flestir staðir á Grikklandi eru öruggir og þú getur andað rólega en passaðu töskuna þína eins og vanalega og ekki glenna seðlabúntin.
Hér eru svo nokkrar myndir sem ég tók á Rhodos. Sælar minningar…
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.