Að ferðast erlendis eru forréttindi. Hvort sem það er að rúnta á milli Norðurlandanna eða strengja duglega á naflastrengnum og fara út fyrir þann þægilega og snyrtilega vestræna heim sem við þekkjum.
Leið mín lá langt út fyrir þau landamæri sem ég hafði áður heimsótt. Engar uppstilltar myndtökur fyrir framan bandarískar kaffihúsakeðjur, sigri hrósandi með útþynntan karamellu latte í hendinni og skrámur á handleggjum eftir nýþunga innkaupapoka.
Ég fór til Afríku, þar sem hvorki var að finna verslunarmiðstöðvar né rennibrautagarða, og á tímum: rennandi vatni.
Þau lönd sem ég heimsótti voru Gambía, Senegal og Guinea-Bissau sem liggja á vesturströnd Afríku. Staðir sem þessir munu seint uppfylla þær grunnkröfur sem við gerum til samfélagsins sem við búum í. Margir eiga varla í sig og á, sumstaðar er ekki einu sinni kennsla í grunnskólum og erfitt er að halda uppi lágmarks heilbrigðisgæslu. Eðlilegast hefði verið að ég hnipraði mig saman og gréti yfir öllu volæðinu þangað til að heimfaradegi kæmi og ég gæti loksins skroppið í H&M í London og reynt að jafna mig á óréttlæti heimsins, milli þess sem ég mátaði skó.
En af einhverjum óskiljanlega ástæðum fór ferðin mín ekki þannig.
Ferðalagið mitt var full af hlátrarsköllum og gleði, forvitnislegum augum og innilegum kveðjum. Allt um kring var litadýrð og falleg náttúran breiddi úr sér ,menn og dýr lifðu sátt við sitt.
Aldrei áður hef ég verið umkringd af jafn fáum veraldlegum gæðum en enginn virtist gefa því gaum. Rafmagnsleysi, vatnsleysi, engin opinber þjónusta, ónýtir vegir, grunnskólar óvirkir, hagkerfi í óskilum: listinn er endalaus.
,,Kannski vita þau ekki betur, vita ekki hvað þau eiga bágt” hugsaði ég með mér fyrstu dagana og slétti varlega úr fína Farmers Market silkikjólnum mínum. Á einhverjum tímapunkti hlít ég þó að hafa dottið á hausinn því einn morguninn vaknaði ég, og það rann upp fyrir mér að líklegast var það einungis ég ,,sem vissi ekki betur”.
Fólkið, menningin, andrúmsloftið, náttúran, viðmótið var svo yndislegt og einlægt -ég gat ekki annað en orðið ástfangin af þessum stöðum, og þá sérstaklega Guinea-Bissau. Ég stóð mig að því að dreyma dagdrauma um að setjast þar að og skræla mangó þar sem eftir lifði, og leynilega held ég alltaf í vonina.
Nú þegar heim er komið og ég sit og skoða úrvalið á nýjustu spjaldtölvunum og hvort það sé ekki einhver bleik og smart fyrir mig, er erfitt að hugsa tilbaka og fá ekki samviskubit.
Lærði ég ekkert af dvölinni? Af hverju er ég ekki eins og munkurinn sem seldi sportbílinn sinn? Hvers vegna fer ég aftur í sama farið, með mígreni yfir því að diskó buxur séu að detta úr tísku og ég sem var að kaupa mér svoleiðis!
Einfaldlega útaf því að þetta er lífið mitt hér á Íslandi. Það er hégómafullt og stundum yfirborðskennt og einkennist oftar en ekki af efnishyggju. Enn stundum, þegar áhyggjurnar um vigtina og meðaleinkunnir úr lokaprófum kvelja sálarlífið hugsa ég til Afríku, þar sem ég gekk um, laus við alla hnúta í maga og sátt við mínar köldu sturtu og útikamra. Við erum þau sem við erum, lífsgæðin okkar eru misjöfn og það er staðreynd.
Upplifun mín af Afríku gerði mér kleift að skilja tvær staðreyndir um sjálfa mig. Ég get verið hégómafull og yfirborðskennd, en ég get líka verið nægjusöm og þakklát. Það var stórkostleg uppgvötun sem ég hefði aldrei komist að, hefði ég bara þrætt verslunarmiðstöðvar og amerísk kaffihús.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.