Sæmundur Þór Helgason (26) flutti til Amsterdam haustið 2008 til þess að læra stafræna kvikmyndagerð. Síðan lærði hann myndlist í Gerrit Rietveld Akademie og útskrifaðist þaðan vorið 2012 en fór hvergi og býr enn í borginni.
Hér deilir innanbúðarmaðurinn Sæmundur nokkrum góðum stöðum og ráðum til að njóta borgarinnar sem best og mest.
Hvað er það skemmtilegasta við AMSTERDAM?
Ég mundi segja að hjólaumferðin væri mér kærust. Það mikill munur að vera laus við bílaumferð og stressið sem henni fylgir. Ég tel að vatnsflæðið um borgina hafi einnig róandi áhrif á íbúana.
Annar mikilvægur þáttur er fjölbreytni þjóðerna sem saman eru komin á einum stað. Almennt tala hollendingar góða ensku og er auðvelt að komast af án mikillar hollensku kunnáttu.
Hvernig væri fullkominn dagur í borginni?
Ég tel þá nú alla nokkuð fullkomna sem slíka, en um daginn vaknaði ég snemma morguns á sófa í sýningarými hjá Collectief Ondergrond í Austur Amsterdam eftir að hafa unnið langt fram eftir við að setja upp kvikmyndabúnað sem ég hafði þróað undanfarna mánuði.
Fór út í Albert Heijn (sem er beint á móti vindmyllu sem hýsir bæði bruggverksmiðju og bar) og keypti mér morgunmat og batterí.
Fór aftur út í sýningarrými til að hefja tökur. Á meðan upptökunni stóð, sópaði ég gólf sýningarrýmisins og hengdi upp skjá sem var ætlaður spilun upptökunarinnar.
[vimeo]https://vimeo.com/65519292[/vimeo]
Að verknaði loknum hjólaði ég út í Wellness 1926 sem er baðhús rétt hjá Java Plein. Stoppaði á leiðinni til að fá mér Falafel. Lét síðan fara vel um mig í tyrkneskri gufu og finnskri saunu. Síðan hjólaði ég aftur út í sýningarrýmið rétt fyrir opnunina og naut kvöldsins með sýningargestum og samsýnendum.
Áttu uppáhalds veitingastað í borginni?
Það eru nokkrir ódýrir matsölustaðir þar sem er hægt að fá þriggja rétta máltíð á um 5 evrur. Mkz á Eersteschinkel straat er einn þeirra. Pepper er annar, staðsettur í gömlu squatti á Overtoom 301. Síðan er það Maoz, falafel keðja þar sem maður skammtar sér sjálfur. Þar er frí áfylling á mat svo lengi sem maður klárar ekki brauðið.
Hartenkaas er einnig í miklu uppáhaldi. Þar fær maður ekta hollenskar samlokur með gömlum eða nýjum osti.
Er gott að fara í lautarferð í Amsterdam – þær eru svo rómantískar?
Vondelpark er almennt vinsælasti staðurinn. Amsterdamse Bos er skógur og almenningsgarður í suður Amsterdam sem gaman er að hjóla eða ganga um. Neuwemeer er vatn rétt norðan við Amsterdamse bos þar sem vinsælt er að baða sig eða sigla um. Þar getur maður einnig átt von á því að rekast á stóra vísunda sem ganga lausir. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart.
Hvar er gaman að versla?
Ég mundi segja Boekie Woekie væri skemmtileg búð til að versla í ef maður er að leita að áhugaverðum bókum. Athenaeum hefur líka gott úrval af bókum og svo American Book Center. Annars er ég nú ekki mikið fyrir að versla.
– Takk fyrir okkur Sæmundur! Kemur bara og verslar með okkur næst, þá verður gaman 😉
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.