Það getur verið erfitt að pakka niður fyrir ferðalag því yfirleitt erum við flestar haldnar smá kvíða yfir að gleyma einhverju.
…Þetta er kannski ekki skrítið því oft gleymist eitthvað og þá getur maður verið í bobba, sérstaklega ef langt er í næstu búð og enn verra ef þú ert ekki með tungumálið á hreinu. Eftirfarandi upptalning er samantekt frá þaulvönum miðaldra farfugli sem hefur komið víða og verið hér og þar…
SÓLARVÖRN
Langmikilvægasti hluturinn í lyfjatösku á ferðalögum er sólarvörnin. Rannsóknir benda til þess að börn sem sólbrenna á fyrstu æviárunum eigi frekar á hættu að fá húðkrabbamein en þau sem ekki brenna. Fyrir börn með ljósa húð er áríðandi að nota krem með sólvarnarstuðli nr. 50. Pjattrófurnar mæla með notkun EUCERIN sólarvaranna en þær eru einna bestar að gæðum og öryggi.
ALOE VERA GEL
Gott er að muna eftir að kaupa kælikrem (after sun) til þess að bera á rauða og heita húð. Hreint Aloe Vera gel er mjög gott fyrir húð sem hefur verið mikið í sólarljósi og sumum þykir best að geyma það inni í ísskáp og bera það svo dásamlega kalt á húðina að lokinni útiveru.
HYDROCORTISON
Væg sterakrem, eins og Mildison, geta reynst vel við bæði bruna og stungusárum. Oft brýst út mikill kláði eftir flugnabit og þá getur sterakrem komið að góðum notum.
KALK
Kalkneysla getur komið í veg fyrir hvimleitt sólarexem. Þeir sem hafa einhvern tíma þjáðst af slíku geta því undirbúið sig fyrir fríið með því að taka kalktöflur í u.þ.b. vikutíma áður en haldið er í sólina.
VERKJATÖFLUR
Það er góð regla að vera með Panodil eða vægar verkjatöflur með sér í snyrtitöskunni á ferðalaginu. Að sjálfsögðu er nær alls staðar hægt að finna apótek en það getur sparað spor og tíma að hafa slíkar töflur meðferðis.
SALT- OG SYKURLAUSN
Magakveisa er fremur algeng í miklum hitum. Í lyfjaverslunum er hægt að kaupa salt-og sykurlausn sem kemur í veg fyrir ofþornun líkamans. Ef fólk lendir í að fá mikinn niðurgang á það að drekka mikinn vökva og nota saltlausnina. Auðvelt er að útbúa sjálfur slíka lausn. Einni matskeið af sykri og einni teskeið af salti er blandað saman við einn lítra af sjóðandi vatni. Best er að borða ekkert á meðan þetta gengur yfir en byrja svo á einhverju léttu, t.d. þurru kexi eða brauði.
BLÖÐRUBÓLGA, FRUNSA, GYLLINÆÐ, SVEPPASÝKING og sitthvað fleira – Réttar lausnir
Það er ekki fyrir alla að reyna að útskýra blöðrubólgu eða gyllinæð fyrir spyrjandi spænskumælandi apótekara sem á stutt í eftirlaunin og því ekkert verra að hafa nokkra stíla með sér eða töflur. Margar konur (og börn og karlar) glíma við einhverja af þessum ofangreindu kvillum, stundum sjaldan, stundum oft en algengt er að slíkt brjótist fram á ferðalögum þegar líkaminn þarf að aðlagast bæði nýjum tíma og loftslagi og ónæmiskerfið er ekki upp á sitt sterkasta.
ÞOLINMÆÐI OG JÁKVÆÐNI
Síðast, en alls ekki síst, skyldi hæfilegur skammtur af þolinmæði, jákvæðni og bjartsýni alltaf vera með í ferðalaginu!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.