París stendur alltaf undir nafni, stórkostleg borg hvernig sem á hana er litið. París ber með sér þokka og glæsileika. Þar er hægt að finna út hvað er í tísku, hvað er vinsælast í matargerð og hverskonar listviðburðir eru vinsælastir hverju sinni. Þetta er borgin sem hefur öll trompin á hendi sér og það er auðvelt að heillast af henni.
Eitthvert skemmtilegasta verslunarhúsið í París heitir Le Bon Marché. Þar er hægt að dandalast frá morgni til kvölds og skemmta sér.
Það var Gustaf Eiffel sem teiknaði Bon Marché árið 1852, sá hinn sami og teiknaði Eiffel turninn.
Skyldi engan undra að innviðirnir minni um margt á víravirkið í Eiffel turninum.
Í Bon Marché er að finna 40 flottustu tískuhönnuði heims og stöðugt koma nýjar og nýjar vörur fyrir tískuþyrsta viðskiptavini. Þar eru til dæmis töskur og fylgihlutir frá Dior, Gucci, Louis Vuitton svo eitthvað sé nefnt. Eins eru þar föt á konur og karla og börn frá öllum frægustu tískuhúsunum. Úrvalið er ólýsanlega flott – þarna er hægt að eyða allmörgum klukkutímum bara í að skoða hvað allt er fallegt.
Fyrir konur með góðan smekk á undirfatnaði er le Bon Marché gullnáma. Þar er heil hæð full af undirfötum sem segja “sex”. Fyrir þá sem eru í giftingarhugleiðingum er einnig heil kategoría tileinkuð brúðhjónum í versluninni. Sjón er þar sannarlega sögu ríkari. Fyrsta hæðin er síðan að mestu undirlögð af sokkum og sokkabuxum, snyrtivörum og ilmvötnum. Sælgætisland fyrir pjattrófur.
Í vöruhúsinu er einnig himnesk skódeild með öllu því nýjasta frá MiuMiu, Prada og fleirum og á efstu hæðinni er búsáhaldadeild með dýrlegum kristal og borðbúnaði. Að ógleymdri húsgagnadeildinni sem er með nýjustu hönnuninni og þar er einnig fullt af vörum fyrir baðið og lúxus sængurföt fyrir svefnherbergið.
Rúsínan í pylsuendanum er síðan matarmarkaðurinn La Grande Epicerie en þar er bara það besta.
Úrval af þúsunudum matvælategunda úr öllum heiminum. Þar er til dæmis mjög góður salatbar og á heitum sumardögum er frábært að kaupa þar salatbox og litla rauðvínsflösku og setjast með þetta í nærliggjandi húsagarði og njóta alls þess besta sem París hefur upp á að bjóða.
24 rue de Sevres
Metro: Lína 10, Sevres-Babylone
Hverfi: Saint-Germain-des-Près, 7. hverfi
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.