Fyrir stuttu fór í ég borgarferð til hinnar sökkvandi Amsterdam. Dvölin var frábær í alla staði enda mögnuð borg með ríka sögu og rótgróna menningu.
Það sem stendur hins vegar uppúr og gerði ferðina svo eftirminnilega var hótelið sem ég dvaldi á en það heitir hinu sérkennilega nafni CitizenM. Amsterdam býður upp á óteljanlega spennandi hluti til að gera en eftir á að hyggja var hótelið tvímælalaust það besta við ferðina.
CitizenM er hótelkeðja sem einnig má finna í Bretlandi, Skotlandi og á nýju ári opna einnig CitizenM hótel í New York og París.
Sem pjattrófa hef ég einstaklega gaman af því að lenda á flottu hóteli og njóta þess út í ystu æsar að vera þar. Það gladdi því fagurkerann í mér ótæpilega mikið að labba inn á hótelið og sjá húsgögn og ljós eftir marga af frægustu hönnuðum 20. aldar. Vörur eftir Eames hjónin, HAY og marga fleiri mátti sjá í hverjum krók og kima.
Lobbýið er í raun eitt stórt lounge-svæði sem er meistaralega hannað. Fyrir hönnunarpjattrófur væri nóg að fá sér sæti í t.d hinum margverðlaunaða Eames hægindastól og einfaldlega njóta umhverfisins.
Herbergin eru þó ekki síður skemmtilega hönnuð. Þar sem að CitizenM er svokallað ,,budget-hótel” þá eru næturnar þar langt frá því að vera dýrar. Það þýðir þó að herbergin eru fremur lítil.
Til að leysa vandamálið með rýmið tóku hönnuðir hótelsins sig til og létu bæði klósettið og sturtuna standa ein og sér í sitthvori súlunni í herberginu. Þetta baðherbergisskipulag er vissulega sérstakt en venst furðu fljótt. Á myndinni að ofan má sjá herbergið frá rúminu þar sem sturtusúlann er lýst upp á skemmtilegan hátt. Hótelgesturinn getur svo ráðið litunum á ljósinu og þannig stillt stemmninguna í herberginu.
Hugmyndafræðin með CitizenM hótelin er að byggja upp 5 stjörnu lúxus hótel og taka síðan burt öll þau ,,þægindi” sem hinn venjulegi hótelgestur þarf í raun ekki á að halda. Þannig sparast mikið fjármagn og verðið lækkar. Það sem eftir stendur er góð þjónusta, flott hönnun og skemmtileg upplifun. Þarf maður eitthvað meira en það? Allavega ekki þessi Pjattrófa.
CitizenM fær mín bestu meðmæli og ég skylda alla hönnunaraðdáendur til að koma við á hótelinu sé það í grenndinni, það er vel þess virði.
Heimasíðu hótelsins má finna hér – sjáðu hvort þú finnir ekki lausa nótt á góðu verði og í DoHop glugganum hér fyrir neðan finnurðu svo ódýrasta flugið!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.