Íslendingar eru yfirleitt duglegir að strauja kortin sín þegar farið er út fyrir landsteinana.
Þegar á að gera stórinnkaup í Barcelona er líklega auðveldast að gera sér dagsferð í einhverja af verslunarmiðstöðunum sem finna má hér. Ég mæli með eftirfarandi:
1. La Maquinista
Mæli fyrst og fremst með því að fara í La Maquinista. Þessi verslunarmiðstöð er topp næs og risa stór! Ættir að finna hér allar helstu verslanir sem þú þarft að heimsækja, enda verslanirnar yfir 200 talsins. Eini gallinn er að Primark er ekki ein af þessum fjölmörgu verslunum. Hellingur af allskyns veitingastöðum, leiktæki fyrir börnin og jafnvel bíósalur fyrir þá sem dauðleiðast verslunarleiðangrar (einungis á spænsku þó)!
Verslunarmiðstöðin er skemmtilega uppsett. Þú gengur hálfpartinn um utandyra svo sólargeislarnir þurfa ekki að fara alveg til spillis. Eina Forever 21 verslunin sem finna má hér í Barcelona er staðsett í þessari miðstöð.
2. L’illa
Nýleg og skemmtilega hönnuð verslunarmiðstöð. Verslanirnar eru þó flestar í minni kantinum, nema Primark. Hún er mjög stór og flott! Ath! Það er ekki H&M verslun í þessari verslunarmiðstöð. Ekki örvænta þó því það er stór H&M verslun staðsett við hliðina á miðstöðinni. Vefsíða: hér.
3. Diagonal Mar
Mjög þægileg verslunarmiðstöð með flestum verslunum sem við íslendingar sækjum í erlendis. Primark er líka í þessari, þó ekki jafn skemmtileg að mínu mati og í L’illa. Það er svolítill Smáralindarfílingur í þessari verslunarmiðstöð ásamt “stjörnutogi” á efstu hæð! Vefsíða: hér
Aðrar verslunarmiðstöðvar
4. Arenas
Þessi verslunarmiðstöð opnaði árið 2011 en hún er uppgerður nautaatsvöllur frá árinu 1900. Nautaat er bannað hér í Cataloniu svo þeir fundu þessu mannvirki annað hlutverk. Gaman að kíkja hingað inn en mæli ekki með verslunarleiðangri hingað. Veitingastaðirnir á efstu hæðinni fá hins vegar mín meðmæli, getur valið um að fara í “útsýnisferð” í lyftu upp á efstu hæð og borgað 1 evru fyrir, eða tekið bara rúllustigann inni. Verslunarmiðstöðin er staðsett á Espanya torginu svo það er tilvalið að kíkja hingað við áður en farið er á ljósasýninguna í Töfragosbrunninum.
5. Mare Magnum
Þessi verslunarmiðstöð er staðsett við höfnina. Þetta er sú eina sem opin er á sunnudögum. Ekki mitt fyrsta val þegar ég fer að versla en gaman að kíkja hingað við af og til.
6. Passeig de Grácia
Passeig de Grácia er helsta verslunargatan hér í Barcelona svo hér má finna flestar helstu verslanirnar. Í öðrum enda götunnar eru dýrari verslanirnar; Prada, Chanel, Michael Kors o.s.frv.
Í hinum endanum eru svo H&M, Zara, Pull&Bear o.s.frv. Risa stór El Corte Ingles er einnig á Passeig de Grácia, það er hægt að finna bókstaflega allt þar inni. Það leynist verslunarmiðstöð við Passeig de Gracia sem nefnist Bulevard Rosa. Það eru fáar þekktar búðir þar en skemmtilegt að labba þar í gegn.
Meðan þið röltið götuna lítið þá upp og njótið arkitektúrsins. Það leynist m.a. hús hannað af Gaudí inn á milli verslana og gaman að skella sér þangað inn í sýnisferð.
Athugið að Spánarbúar skella búðunum í lás á sunnudögum og flestar verslanir eru því lokaðar þann dag.
Aðeins ein verslunarmiðstöð er opin á sunnudögum skilst mér: Mare Magnum. Hina sex daga vikunnar eru þær flestar opnar frá 10 á morgnanna til 10 á kvöldin.
Happy shopping!
Það er svo sannarlega skemmtileg að versla hér í Barcelona!
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com