Ímyndaðu þér að Kolaportið myndi deyja og fara til himna. Þetta himnaríki er til.
Það er í litlum, ótrúlega sætum bæ, sem heitir San Juan Capistrano og er í suðurhluta Kaliforníu, í sirka klukkutíma akstursfjarlægð frá L.A í suðurátt. Himnaríkið sjálft kallast The Old Barn Antiques Mall.
The Old Barn er með gríðalega stórt safn af antik munum en yfir 60 manns selja sinn varning á þar til gerðum básum í gömlu hlöðunni sem er fleiri hundruð fermetrar. Antiksalarnir eru þó ekki sjálfir á staðnum heldur er ótrúlega skemmtilegt persónugallerí af starfsfólki sem aðstoðar mann við kaupin. Þarna finnur þú gersamlega allt á milli himins og jarðar, skartgripi, föt, skrautmuni, plaköt, húsgögn, bollastell, hljómplötur, kassettur… bara allskonar, allskonar, allskonar.
Dýru dónaglösin
Verðin eru líka allskonar, allt frá einum dollara eða undir og upp í eitthvað mikið meira, en samt er allt mjög sanngjarnt. Nema kannski dónaglösin sem mig langaði að kaupa, bæði ég og konan sem vann á markaðnum urðum alveg rasandi bit þegar hún fann út að maðurinn sem var að selja þetta vildi heila 400$ fyrir glösin. Okkur fannst það full mikið! 😆
Þið sem eruð eitthvað eldri en tvævetur, og munið eftir engu sjónvarpi á fimmtudögum, munið eflaust eftir þessum glösum. Konurnar fækkðu fötum um leið og vökva var hellt í glasið. Rosalegt alveg! Þó ekki nógu rosalegt til að ég væri til í að borga um 40.000 kr fyrir þetta. Maður hefur sín mörk.
Kóróna fyrir ferminguna
Við Edda dóttir mín nutum þess alveg í botn að flækjast um í mollinu.
Hún endaði á að kaupa sér kórónu fyrir ferminguna sína sem verður snemma á næsta ári, ofsalega fallega antík kórónu sem hún borgaði sirka 20$ fyrir. Sjálf hélt ég að mér höndum og keypti bara veggskraut og lítið plakat.
Ef þú skyldir nú vera meðal þeirra sem njóta beina flugsins með WOWair til vesturstrandarinnar þá skora ég á þig að keyra við í þessum frábæra bæ og skoða bæði antik mollið, fiðrildagarðinn, veitingahúsin við brautarteinana og fleira.
San Juan Capistrano er nefnilega vel þess virði að heimsækja, en ég á eflaust eftir að fjalla betur um bæinn í sérlegu bloggi um suður Kaliforníu og hvað er gaman að sjá og skoða þar.
Sérlegum áhugamanneskjum um antikmarkaði bendi ég svo á þessa síðu hér, en í gegnum hana getur þú fundið sambærilega antikmarkaði, eða moll, um gervöll Bandaríkin.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.