Ása Björg Tryggvadóttir, markaðsráðgjafi á Hvíta húsinu, þriggja barna móðir og nú síðast áhugakona um hjólreiðar ætlar að skella sér í Mallorca síðar í þessum mánuði og hjóla sem aldrei fyrr.
„Ef ég hefði verið spurð fyrir þremur mánuðum hefði ég ekki sagst vera mikil áhugamanneskja um hjólreiðar. Í dag er ég hins vegar byrjuð að hjóla reglulega og orðin mjög áhugasöm en ég er algjör byrjandi í þessu. Ég sé ekki fyrir mér að verða keppnismanneskja í greininni en þetta er frábært áhugamál,“ segir Ása sem fátt stoppa sig þrátt fyrir byrjendabraginn.
Hark síðustu vikur
„Þetta er búið að vera hark síðustu vikur þegar ég hef lent í roki rigningu frosti og hagléli, allt í sama hjólatúrnum en núna með hækkandi sól verður þetta bara betra og hjólatúrunum mun fjölga hratt. Reyndar keppti ég í þríþraut við vinkonur mínar þegar ég var gæsuð, þá prófaði ég að hjóla í keppni og fannst það ótrúlega gaman!“
Einu hjólaferðir Ásu utan landssteinanna voru á námsárum hennar í Köben en þegar hún sá færi á að komast í sjö daga húsmæðraorlof til Mallorca sló hún til.
„Ég sá þessa ferð auglýsta hjá ÚÚ og fannst ótrúlega spennandi, það sem heillaði mig líklega fyrst var að komast í sjö daga húsmæðraorlof til Mallorca! Ég elska frí sem snúast um útiveru og hreyfingu en eins og flestir Íslendingar hafa gert í vetur sá ég líka sólina fyrir mér í hyllingum. Mér hefur alltaf fundist gaman að hjóla og ákvað að þetta skyldi verða byrjunin á mínum hjólaferli. Ágætt að byrja með stæl á Mallorca þar sem atvinnumenn í heiminum koma saman til að æfa,“ segir Ása sem ætlar að skella sér í ferðina með nokkrum vinkonum. Líklega eru um tuttugu konur skráðar í ferðina en vonandi bætast enn fleiri skemmtilegar í hópinn!“
Ása segir að maður þurfi ekkert inntökupróf til að komast með í ferðina þó það skemmi eflaust ekki fyrir að vera í ágætu formi þegar það er lagt í hann.
„Ég lít svo á að ég muni fá mun meira út úr ferðinni með því að vera í ágætis formi. Ég myndi segja að það væri æskilegt að vera í formi en hjólaformið kemur svo bara. Það verður hjólað á svokölluðum „racer“ hjólum í 3-6 klukkutíma á dag svo það er gott að vera búin að æfa sig og prófa þannig hjól. Ég hef sjálf aðallega verið að hlaupa og í styrktarþjálfun hjá G-Fit þegar tími gefst en er að koma mér í hjólaform þessa dagana. Markmiðið er að vera í mun betra formi í lok ferðar og hjóla mikið í sumar í íslensku sólinni,“ segir þessi hressa hjólreiðakappi að lokum en þú getur lesið meira um þessa fyrstu stelpuhjólaferð Íslendinga hér á heimasíðu Úrval Útsýn.
Góða ferð stelpur!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.