Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hvernig það er að ferðast til framandi landa og sinna sjálfboðastörfum. Kolbrún Pálsdóttir fór til Úganda í sex vikna hjálparstarf og kom reynslunni ríkari heim. Hún segir ákvörðunina hafa verið tekna með stuttum fyrirvara og sér ekki eftir því að hafa farið.
Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fara til úganda?
Pabbi var búin að hvetja mig lengi til að fara í hjálparstarf eftir að ég útskrifaðist úr Kvennó. Við vorum búin að skoða mikið af stofnunum sem heilluðu mig ekki nægilega mikið en seinna frétti ég að náskyldur frændi minn frá Noregi væri að fara til Úganda í hjálparstarf. Ég sló á þráðinn til hans og kynnti mér prógrammið. Þetta heillaði mig mikið og eina sem ég þurfti að gera var að kaupa flugfar, sem kostaði mig 80 þúsund ásamt því fá allar þessar mikilvægu sprautur. Allt uppihald, bæði matur, húsnæði og ferðakostnaður innanlands var innifalið í starfinu en þetta þykir frekar óvenjulegt og var að sjálfsögðu mikill plús.
Var mikill undirbúningur fyrir ferðina?
Í rauninni var enginn undibúningur fyrir ferðina. Ég tók ákvörðuna tveimur vikum áður en ég fór og vissi eiginlega ekkert hvað ég var að fara útí. Eina sem ég vissi var að ég var að fara vinna með rúmlega 80 munaðarlausum krökkum sem höfðu misst foreldra sína úr AIDS.
Þegar ég sagði honum að samkynhneigð kona væri forsætisráðherra á Íslandi, trúði hann mér ekki.
Fórstu ein eða varstu með eitthverjum?
Ég fór með frænda mínum og tveimur norskum hjúkrunarkonum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef ekki getað notað móðurmálið mitt á nokkurn hátt og var ég farin að skilja norskuna ansi vel. Kærastinn minn kom svo til mín síðustu vikuna og þá fann ég enn betur hvernig það var að hafa ekki talað móðurmálið í svo langan tíma.
Geturu lýst aðstæðum í Úganda?
Þetta þróunarland er mjög eftirá eins og flest afríkuríkin. Í öllu. Hugsunarhætti, tísku og allt rosalega þröngsýnt. Þetta var eins og að fara aftur í tímann. Læknirinn á barnaheimilinu þar sem ég starfaði sagði að við vestrænu ríkin höfðum of mikið af ,,unnecessary freedom” og þá var hann bæði að tala um stöðu kvenna í þjóðfélaginu og samkynhneigð. Þegar ég sagði honum að samkynhneigð kona væri forsætisráðherra á Íslandi, trúði hann mér ekki! Fáttæktin í landinu er líka mjög áberandi en þau þekkja auðvitað ekki annað. Fólkið virðist vera mjög hamingjusamt í moldarkofunum sínum með kranavatnið sem er mjög, mjög skítugt. Rafmagnið virðist vera af mjög skornum skammti og fyrstu tvær vikurnar sem ég dvaldi í landinu var ekki neitt rafmagn. Einn daginn lentum við í því að rafmagnið vantaði, vatnið hafði klárast, gasið í eldavélinni var búið og bíllinn bensínlaus og við enduðum á því að borða rándýra hnetusmjörið sem við keyptum í Amerískum Supermarkaði í kvöldmat.
Hvernig var upplifun þín á landi og þjóð?
Ég hef ferðast mjög víða um heiminn og er Úganda alveg hiklaust uppáhalds landið mitt af öllum. Fólkið er svo vinalegt og hjálpsamt og ég gat alveg ímyndað mér að vera þarna í nokkra mánuði til viðbótar.
Við náðum að ferðast mikið á landinu, fórum í Safari, River Rafting í efsta stiginu og teygjustökk. Þetta var ekki bara endalaus vinna. Þessi ferð var algjört ævintýri.
Nú er mikið talað um leiðtogann Kony í heimsfréttum, varst þú vör við umræður um hann á ferðalagi þínu?
Það kom mér mikið á óvart að ég hafði ekki einu sinni heyrt minnst á þennan mann eða þetta vandamál fyrr en um daginn þegar ég sá myndbandið.
Þetta er fallegt land með endalausum náttúruperlum og er ég strax farin að skipuleggja ferð þangað aftur.
Fór vel um þig meðan á dvöl þinni stóð t.d. við hvaða aðstæður bjóst þú?
Ég bjó inn á fjölskyldu mannsins sem rak barnaheimilið. Góðviljaður norðmaður borgaði leigu fjölskyldunnar og vorum við í mjög flottu húsi sem var afgirt með rafmagnsgirðingu og stóru hliði. Við sjálfboðaliðarnir fengum öll herbergi útaf fyrir okkur, þægilegt tvíbreytt rúm og skáp undir fötin okkar. Fjölskyldan deildi þó öll einu herbergi: tvö ungabörn sem pissuðu undir, einn unglingsstrákur, mamman, systir hennar og frænka og svo húshjálpin. Öll voru þau í jafn stóru herbergi og það sem ég fékk.
Við urðum öll mjög náin fjölskyldunni og það var mjög erfitt að kveðja.
Þetta var fólkið sem hugsaði um okkur, eldaði ofaní okkur, þvoði af okkur og passaði að okkur vantaði ekkert. Ég var mjög heppin að fá svona gott fólk, sérstaklega þegar ég veiktist illa næstsíðustu vikuna. Ég þurfti virkilega mikið á þeim að halda. Svona er fólkið í Úganda. Setur sjálft sig alltaf í annað sæti.
…þarna er ekki til neitt sem heitir tími. Allt gera þeir á sínum hraða. Mæta þegar þeim hentar og láta aðra bíða. Við eyddum miklum tíma í að bíða eftir fólki.
Hvaða tungumál tala infæddir og hvenig voru samskipti ykkar á milli?
Enskan er meginmál landsins, enda gömul bresk nýlenda. Þau tala góða ensku en hreimurinn er hinsvegar eitthvað sem erfitt er að skilja. Tungumálin eru þó held ég hátt í 50 í landinu en Luganda og Soga tungumálin voru aðallega töluð á því svæði sem ég var.
Gætiru hugsað þér að fara aftur þangað?
Ég mun alveg hiklaust fara aftur þangað, bæði til að hitta börnin sem ég var búin að kynnast svo náið og fjölskylduna. Þetta er fallegt land með endalausum náttúruperlum og er ég strax farin að skipuleggja ferð þangað aftur.
Hverju var erfiðast að aðlagast?
Það var lítið sem kom mér á óvart í Úganda og var ég eiginlega öllu við búin þegar ég kom út. En það var líklegast úganski tíminn sem ég átti erfiðast með að aðlagast því þarna er ekki til neitt sem heitir tími. Allt gera þeir á sínum hraða. Mæta þegar þeim hentar og láta aðra bíða. Við eyddum miklum tíma í að bíða eftir fólki, áætlunarbílum og mat. Sérstaklega mat. Á veitingarstöðum gátum við beðið í hátt að einn og hálfan tíma eftir mat. Svo við lærðum að fara aldrei á veitingarstað svöng.
Að lokum hvernig er þetta í minningunni og myndir þú mæla með því að prófa að fara og gera eitthvað nýtt í allt annari heimsálfu?
Þetta voru líklega lærdómsríkustu sex vikur sem ég hef nokkurn tíman átt. Ég held að ég hafi lært meira á þessu ferðalagi en nokkruntímann á skólabekk. Maður lærir að sjá fegurðina í fátæktinni og samgleðjast öðrum fyrir það litla sem það hefur. Allir eru svo hamingjusamir og það er eins og engin vandamál séu til í heiminum hjá þessu fólki. Það kann að meta það sem hefur.
Ég mæli með þessari lífsreynslu fyrir alla, sama hvar fólk er statt í lífinu.
Viktoría Hinriksdóttir er yngsta pjattrófan. Fædd í ljónsmerkinu árið 1994. Hefur áhuga á öllu sem tengist hreyfingu og íþróttum, mataræði, tísku og öðru sem gerir lífið fallegra, betra og skemmtilegra.