Ég á mér einn stóran draum…
…og það er að ég eigi einhvern daginn eftir að ferðast um allan heim og lifa lífi þar sem ég þarf eigilega alltaf að vera með vegabréfið í rassvasanum.
Ég hef nú þegar ferðast nokkuð víða, hef komið til 19 landa í þremur heimsálfum og ég fór ekki í fyrstu utanlandsferðina mína fyrr en ég var orðin 13 ára. Svo þetta eru næstum því tvö lönd á ári.
Stærsta ferðin sem ég hef farið í er klárlega bakpokaferðalag sem ég fór í með tveimur bestu vinkonum mínum. Við ferðuðumst í rúma fjóra mánuði um Bandaríkin, Karabíska hafið og Suður-Ameríku og ferðuðumst allt í allt til tíu landa. Ég held ég sé nokkuð örugg með að fullyrða að þessi ferð sé upplifun lífs okkar og að við ætlum allar að reyna að gera meira af einhverju svipuðu í framtíðinni.
Það er margt sem þarf að hugsa út í áður en er farið í svona stóra ferð en fyrir fólk eins og mig var aðaláskorunin líklega sú að hugsa ekki. Vissulega þurftum við að bóka flug og hafa einhverja áætlun en það skemmtilegasta við svona ferðir er að leyfa sér að gera það sem maður vill á augnablikinu sem maður vill það.
Að eiga nokkra auka daga svo maður geti ílengst á fallegum stað sem maður bjóst ekki við að myndi heilla mann eða bara hangið með nýjum vinum sem maður bjóst ekki við að maður ætti eftir að kynnast.
Ég myndi segja að það að kunna að njóta ferðalaga, og á vissan hátt lífsins, er að kunna að taka því óvænta sama hvað það er. Þó það sé seinkun á flugi eða að missa af lest eða jafnvel það að kreditkortinu manns hafi verið stolið/það týnst (tvisvar). Þá þó að vissulega fylgi þessu öllu leiðindi verða svona atvik bara enn leiðinlegri ef maður fer að pirra sig óþarflega á þeim. Í mínu ferðalagi græddi ég allavega frían hádegismat á seinkaða fluginu, græddi fallegustu gönguferð lífs míns í kolniðarmyrkri eftir lestarteinum hátt upp í Andes-fjöllunum á því að missa af lestinni og ég græddi nokkra auka daga í sólinni þegar ég var að bíða eftir nýju korti.
Sögurnar af því óvænta verða líka einhvernvegin alltaf hluti af skemmtilegustu sögunum þegar heim er komið svo besta ráðið sem ég get gefið þeim sem eru að plana bakpokaferðalag er: Fagnið hinu óvænta því þó það virðist slæmt akkúrat á því augnabliki þá getiði allavega hugsað um hve góð saga þetta gæti orðið þegar heim er komið.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.