Ég skellti mér í frí nú í júní. Mig langaði að fara lengra en til Köben, helst út fyrir Evrópu en þó mátti ferðalagið ekki kosta of mikið. Alltaf að passa budduna. Þar sem mig hefur alltaf langað til Marokkó fór ég að skoða hvort það væri ekki möguleiki og jú það var það sko!
Eina sem þurfti til var að kaupa ódýrt flug til London og annað ódýrt flug til Casablanca: Frá Casablanca var haldið til borgar sem heitir Rabat og þar bjó ég á Bed & breakfast stað hjá brimbrettameistara Marokkó sem heitir Abdel Elharim. Hann býr inni í gömlu borginni, sem kallast Medina en það eru virkisveggir sem umkringja borgina og aðeins hægt að vera fótgangandi þar fyrir innan. Stundum leið mér eins og í völundarhúsi eða sem ég væri á Hollywoodsetti.
Þetta var æðislegt – Litríkir veggir allstaðar og flísar, sætar kisur í hverju horni og brjálað flottir markaðir með ódýrum og yndislega flottum vörum. Ég sá eftir að hafa ekki bara mætt með tóma ferðatösku því ég hefði auðveldlega getað fyllt hana af gersemum. Stemningin var æðisleg og fólkið vingjarnlegra en maður gat búist við: „Welcome to Morocco” var viðkvæðið allstaðar og alltaf. Auðvitað var reynt að plokka sem mesta peninga af manni á mörkuðunum en það var bara ofsalega gaman að prútta (það gera allir með sjálfsvirðinguna í lagi í Marokkó) og allir vildu að ég færi ánægð í burtu eftir kaupin. Þessvegna drakk ég ósjaldan mintute í verslunum og átti skemmtinlegar samræður við fólkið.
Í Marokkó virtust allir vera inni í heimsmálunum, flestir vissu af hruninu og eldgosunum og gáfu mér „special Icelandic price” 😉 eða segjum það allavega! Svo ekki sé minnst á matinn. Jeminn eini hvað ég gat borðað yndilega góðan mat á spottprís. Gullfallegir veitingastaðir í heimsklassa voru álíka dýrir og Vegamót, þar sem mér leið eins og prinsessu. Ég kom líka heim með æðisleg krydd.
Það skemmtinlegasta var þó var að fara á strendurnar. Ég fór á nokkrar mismunandi strendur í nágrenni við Rabat og naut þess að vera í hita en þó með hlýja Atlandshafsgoluna á mig. Það besta við það að vera í Rabat var að aðalströndin var í aðeins 3 mínútna fjarlægð frá Medínunni og þangað gekk ég á hverjum morgni með brimbrettakennaranum mínum Abdel.
Hér er mynd af ströndinni frá sjónarhorni brimarans:
Ég var farin að taka öldur til hægri og vinstri á öðrum degi og á endanum farin að sviga á milli fólks og segja „Bonjour!” Franska er annað tungumál Marokkóbúa og því æðislegt fyrir þá sem geta krafsað sig fram á frönskunni að fara þangað. Ég get ekki talið upp öll ævintýrin sem ég lenti í en ég mæli með ferð til Marokkó fyrir alla og vil taka það fram að í Rabat var mjög barnvænt. Þar var meira að segja Tivoli!
Hér eru svo 3 myndbönd með hressa og skemmtilega brimbrettasnillinginum Abdel:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Ua3BebrwETw[/youtube]
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=dzCpxlsKpeE[/youtube]
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=LLcN15I5Mz0 [/youtube]
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.