Ég er nýkomin úr fimm vikna reisu frá Suður Ameríku með eiginmanninum. Við fórum út með engin plön og ekkert bókað annað en það að við vorum búin að ákveða hvaða lönd við vildum ná að heimsækja.
Þetta er listinn yfir það sem ég pakkaði niður fyrir þessa ævintýraferð:
- Hlýja peysu
- Jakka
- Stuttbuxur
- Síðar, þægilegar buxur fyrir langar rútuferðir og sem vörn gegn moskítóflugum
- Boli til skiptanna, a.m.k. hlýrabol og stuttermabol
- Bómullarkjól, t.d. frá American Apparel eða Emami. Virkar allsstaðar!
- Þægilegur brjóstahaldari, helst t-shirt bra: húðlitur, svartur eða hvitur
- Nærbuxur til skiptanna. Nú koma ömmunærbuxurnar sér vel! 🙂
- Bikini (búðu þig undir að þurfa að nota a.m.k. toppinn sem nærfatnað)
- Ferðahandklæði. Fislétt og taka minna pláss en einn stuttermabolur og þorna á undraverðum tíma. Kosta sitt en borga sig upp í léttari bakpoka.
- Léttir gönguskór. Ég valdi mér Mojito skó frá Scarpa sem eru til i fullt af litum og fást í Fjallakofanum. Gönguskór eru frekar púkó að upplagi svo mér fannst þetta ansi vel sloppið.
- Teva sandalar eða svipað fyrir gönguferðir í hita.
- Bakpoki. Ekki freistast til að vera með of stóran. Veldu poka sem er ætlaður fyrir konur: þeir eru gerðir fyrir minni axlir, smærri bök og hafa engin lárétt bönd sem klessa niður brjóstin.
- Teygjur, hárband og ömmuspennur.
- Hreinsi fyrir andlit, andlitsvatn og exfoliator. Ég keypti mér þetta Blue Lagoon travel sett.
- Sólarvörn! Ég var með 3 styrkleika, SPF 55 hæst. Get mælt með náttúrulegu Aubrey sólarvörunum frá Heilsuhúsinu.
- Sólgleraugu.
Í handfarangur:
- Snjallsími/farsími sem virkar sem vekjaraklukka, klukka,vasaljós og til að vafra á TripAdvisor og Facebook þegar þú kemst á wifi. Ekki gleyma hleðslutækinu.
- Myndavél, hleðslutæki og auka minniskort.
- Ferðakoddi (uppblásanlegur) og augnskýla sem getur breytt degi í nótt.
- Tannbursti, tannkrem, naglaklippur og plokkari, varasalvi eða lítil túba með feitu græðandi kremi
- Vegabréf og ljósrit af vegabréfi og mikilvægum pappírum.
- Visakort og ökuskírteini
Enginn hárblásari, make upp eða háir hælar!
Ég hef aldrei skilið það að fljúga með sjampóbrúsa milli landa þannig að ég kaupi sjampó, næringu og handsápu bara í stórmarkaði þegar ég kem út. Sápuna get eg svo líka notað til að handþvo eina og eina flík.
Lyf, plástra og annað slíkt er allt hægt ad kaupa erlendis og algjör óþarfi að pakka niður (nema lyfseðilskyld lyf). Athugaðu að þú gætir þurft að fara í bólusetningu áður en þú ferð út og það er einfaldast að hringja í Heilsugæsluna og fá að tala við hjúkrunarfræðing um það. Ef þú ert bólusett gegn gulu (yellow fever) þá skaltu biðja hjúkrunarfræðinginn um alþjóðlegt bólusetningarvottorð og taka það með þér. Ég hef það líka fyrir venju að kaupa mér bók á flugvellinum áður en ég fer í langt flug.
Mér datt ekki í hug að bera fartölvuna mína um Suður Ameríku. Aðrir ferðalangar sem við hittum voru þó margir með iPad með sér og nokkrir tóku ekki myndavél, heldur treystu alfarið á myndavélina á snjallsímanum.
Þegar þú ert búin að pakka þessu öllu ofan í bakpokann þinn þá áttarðu þig á því hvað þetta er í rauninni sáralítið, en samt alveg nóg. Þetta myndaalbúm er með myndum af hlutunum sem ég tók með mér.
Annað sem gæti komið sér vel:
- Vasaljós
- Vasahnífur
- Duct tape (getur vafid utan um kveikjara og slegið 2 flugur í einu höggi).
- Wc pappír
- Moskítósprey
- First aid
- Tappi í vaskinn (Universal sink plug)
- Plastpoki með zip (utan um vegabréf og pappíra svo þau blotni ekki)
- Hattur eða derhúfa til að verjast sól
- Hengilás
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.