Café de Flore er í hugum margra flottasta kaffihúsið í París. Ef borðin, stólarnir og kaffistellið hefðu rödd, gætu þau án efa sagt margar sögur af fastakúnnum og frönsku þjóðlífi. Allir komu á Café de Flore að drekka kaffið sitt.
Café de Flore er aldagamalt fyrirbæri, rekstur þess hófst það góða ár 1887 og staðsetningin var í þessu alfallegasta hverfi Parísar Saint-Germain-Des-Près. Hverfinu sem fólk dreymir um að búa, jafnvel þótt það sé í 15 fm holum – maður lætur sig hafa það fyrir drauminn! Listamenn, rithöfundar og andans menn tóku líka strax ástfóstri við kaffihúsið og vöndu þar komur sínar. Nægir að nefna þá Albert Camus og Picasso.
Þegar Frakkland var hersetið á árunum 1939-1945 héngu Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir öllum stundum á Café de Flore. Sartre sagði sjálfur að þau hafi unnið þar sleitulaust frá klukkan níu á morgnana fram til hádegis. Þá hafi þau snætt hádegisverð og komið svo aftur um klukkan tvö, tekið á móti vinum og kunningjum alveg til klukkan átta um kvöldið þegar mál var komið að halda heim á leið. Furðulegt? Örugglega, en svona var bara normið í París þá.
Stemningin var ekkert síðri á árunum eftir stríð um 1945-1950 þegar frelsistilfinning einkenndi andrúmsloftið og fólk varlífsglatt. Á sjötta áratugnum tóku svo við uppgangstímar í franskri kvikmyndalist, hin svokallaða “Nouvelle Vague” og vart varð þverfótað fyrir kvikmyndaleikurum, leikstjórum og fylgdarkonum þeirra á Café de Flore. Ekki var óalgengt að sjá þau Jane Fonda, Jane Seberg, Roman Polanski, Marcel Carné, Brigitte Bardot, Alain Delon, Losey et Belmondo á stéttinni að fá sér drykk!
Frægir hönnuðir vöndu einnig komur sínar á Flore. Til dæmis Yves Saint Laurent, Givenchy, Lagerfeld, Paco Rabanne, Guy Laroche. Að sjálfsögðu fylgdu þeim síðan fallegustu tískufyrirsætur heims og á nærliggjandi næturklúbbum fóru þau og skemmtu sér fram á morgun- Castel og Régine. Er einhver hissa á því af hverju konur láta sig dreyma um París? Þetta hefur verið dýrðarlíf.
Það er sagt að það sé einhver ljómi sem einkenni kaffihúsið, að það sé hálfgerð stofnun eða griðarstaður viðskiptavina sinna, ef svo mætti orða. Þar eru örugglega á sveimi andar þeirra sem drukku þar einu sinni kaffið sitt og lásu Le Monde við barinn. Hvar annars staðar vilja framliðnir vera nema þar sem þeim leið allra best? Svo eru það hinir fastagestirnir sem enn draga andann – þeir setja svip sinn á staðinn og kúnnahópurinn er enn skemmtileg blanda af blaðamönnum, rithöfundum, stjórnmálamönnum, listamönnum og tískuhönnuðum. Fræga fólkið en líka við hin sem enginn veit nokkur deili á og komum á Café de Flore til að fá gott kaffi og virða fyrir okkur mannlífið á Saint-Germain-Des-Près.
Fyrir ykkur Pjattrófur sem hyggist fá ykkur cappuchino á Café de Flore eru nokkrar líkur að rekast þar á tískudívuna Sonia Rykiel og Nathalie dóttur hennar. Mæðgurnar snæða hádegisverð á kaffihúsinu á samaborðinu, alla daga klukkan hálftvö! Uppáhaldsrithöfundur margra og höfundur Alkemistans, Paulo Coelho er líka fastakúnni á Café de Flore þegar hann dvelur í París.
Og það eru fleiri þekktir útlendingar sem elska Café de Flore heitt. Sharon Stone bregður stundum undir sig betri fætinum á Flore og fær sér kampavínsdreitil í aðra tána eða svo. Sjarmatröllið Robert de Niro er sagður sitja löngum stundum og horfa á mannlífið á Flore. Bandaríski leikstjórinnn Francis Ford Coppola lét einu sinni hafa eftir sér í viðtali að hann dreymdi um að búa í St-Germain des Prés hverfinu til þess eins að geta snætt morgunmatinn sinn á Café de Flore.
Fyrir ykkur sem dáist að Johnny Deep, má sjá honum bregða fyrir á Flore á hvaða tíma dags sem er enda er hann giftur frönsku þokkadísinni Vanessu Paradis og búa þau væntanlega í hverfinu.
Þannig að nú veistu hvert skal halda í Parísarkaffi næst þegar þú átt leið um borgina. CAFE DE FLORE!
Smelltu til að skoða albúm þessa margrómaða kaffihúss sem allir elska:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.