1. Raðaðu á rúmið
Það hjálpar mikið að raða ÖLLU sem á að fara í ferðatöskuna á rúmið, áður en þú pakkar niður. Með þessu móti sérðu nákvæmlega hvað þú ert með og hverju væri hægt að sleppa. Mundu hvað þú hefur oft tekið fullt af fötum með og aldrei farið í þau. Mundu líka að þú átt örugglega eftir að kaupa þér einhverjar ódýrar sumarflíkur og líklegast verður þú lítið klædd yfir dagin ef þú ert á leið í sólina.
_________________________________________________________________________
2. Hvað ertu að fara að gera?
Út að borða, í gönguferð, sund, á söfn? Hugsaðu um hvað stendur til að gera og settu svo uppáhalds flíkur þínar sem eru viðeigandi fyrir athafnirnar á rúmið. Það sem hefur engan sérstakan tilgang ætti ekki að fara með í töskuna.
_________________________________________________________________________
3. Sorteraðu eftir litum
Skoðaðu það sem þú ert með og hugsaðu um það í samhengi. Hvað passar saman? Oft er gott að styðjast við liti sem fara vel saman. Ekki vera með allskonar stíla í gangi. Þá lendirðu í vandræðum.
_________________________________________________________________________
4. Skór á botninn
Láttu skópör í botninn og raðaðu nærfötunum þar í kring. Mundu að pakka út í hornin. Oft fer mikið pláss til spillis í töskum þegar ekki er pakkað rétt í þær.
_________________________________________________________________________
5. Við rúllum’essu upp
Rúllaðu öllu upp til að koma í veg fyrir að flíkurnar krumpist. Það sem er aðsniðið fer best ef þú setur það á rönguna og brýtur ermarnar inn. Þannig ættirðu að sleppa við miklar krumpur. Það sparar líka pláss að rúlla fötunum upp.
_________________________________________________________________________
6. Pláss fyrir peysur
Hvert sem þú ert að fara er alltaf gott að hafa eina góða peysu með. Gollur eru frábærar því þær er hægt að nota til að fara í yfir annað ef það kólnar á kvöldin. Einnig er gott að hafa gollu með til að fara í innanundir jakkan og svo auðvitað á leiðinni aftur heim til Íslands.
_________________________________________________________________________
7. Klútar og slæður koma að góðum notum
Klútar eru fisléttir en geta komið að ýmsum notum. Þú getur bundið slæðu um mittið á ströndinni, eða yfir brjóstin, þú getur notað hana sem túrban til að forða hárinu frá sólarskemmdum, yfir axlirnar til að forða þeim frá sólbruna og svo auðvitað um hálsinn þegar farið er út að borða.
_________________________________________________________________________
8. Kjólar kvölds og morgna
Léttir og auðvelt að pakka þeim. Þú ert á flatbotna yfir daginn með flott sólgleraugu en um kvöldið eru það bara hælar, slæða eða golla og varalitur. Sami kjóllinn, önnur nýting. Hafðu líka sætar sokkabuxur með ef vera skyldi að þér yrði kalt. Þær taka ekkert pláss.
_________________________________________________________________________
9. Bikiní í öllum litum
Þau taka ekkert pláss svo hafðu eins mörg með og þú vilt. Það er gaman að geta skipt um bikiní enda ertu líklegast ekki að fara að setja þau í þvottavélina fyrr en þú kemur heim. Mundu bara að skola þau á kvöldin og hengja til þerris.
_________________________________________________________________________
10. Glær snyrtitaska
Það getur sparað fyrirhöfn að hafa glæra snyrtitösku með sér. Þá sérðu hvar allt er og þarft ekki að róta. Það er víða hægt að fá svona litlar flöskur til að fylla á. Tilvalið í ferðalagið því snyrtivörur eru ekki bara fyrirferðamiklar, þær eru líka þungar.
Góða ferð!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.