Flestir nota aðeins 20 prósent af fötunum sem þeir eiga í um 80 prósent tilvika. Ef þú trúir mér ekki, prófaðu þetta í mánuð:
Í hvert sinn sem þú hefur notað einhverja flík, hengdu hana þá upp í öðrum enda fataskápsins. Í lok mánaðarins sérðu að þú ert alltaf að nota sömu fötin, aftur og aftur.
Reyndar eru það ekki bara fötin sem falla inn í 20/80 regluna. Það getur verið hvað sem er í lífi þínu.
Reglan heitir Pareto Principle og er vel þekkt úr viðskiptalífinu til dæmis fá margir sölumenn fá 80 prósent tekna sinna frá 20 prósent kúnnunum. Á sama hátt notum við 20 prósent af því sem við eigum, 80 prósent af tímanum.
Tilvalið er að beita þessari reglu á fataskápinn og hreinsa út þessi 80 prósent sem við erum ekki að nota. Þá eru uppáhalds 20 prósentin sem þú ert alltaf að nota sett í einn hluta skápsins. Í hinn hlutann fara síðan þessi 80 prósent sem þú notar aldrei en taka samt allt plássið. Með þessu móti er auðveldara að henda úr ótnotaða bunkanum.
HVERNIG SORTERA ÉG?
Þú ræðst á 80 prósentin – velur og hafnar úr þeim, fyrst eftir lit: Það getur margborgað sig að fá stílista til að sortera litina í fataskápnum með þér. Þannig sjáið þið saman hvaða litir lyfta þér upp og hvaða litir draga þig niður. Margir óttast liti, en það er ástæðulaust. Við getum óhrædd borið miklu fleiri liti, hætt að nota aðra. Réttir litir gleðja þig upp, auka sjálfstraustið.
Svona losarðu þig við 50 prósent af fötunum.
Mátaðu: Þau föt sem eftir standa mátarðu. Sjáðu hvernig þér líður í þeim. Ef það er eitthvað sem pirrar þig, sniðið, efnið eða annað, mega þau fara.
Þú átt skilið að eiga bara föt sem þú elskar að fara í! Aldrei opna fataskápinn þinn aftur og væla: “ÉG Á EKKERT TIL AÐ FARA Í… OHH!
Svo ákveður þú að kaupa aldrei fatnað sem þú ert ekki alveg sátt við. Þú veist að hann endar í 80 prósent hrúgunni og þú tapar peningunum þínum. Kauptu aðeins fatnað sem þú ert virkilega hrifin af, föt sem klæða þig mjög vel. Jafnvel þótt þær flíkur séu dýrari en ella, kosti kannski þrefalt á við annað, gerðu það samt því það er jafn dýrt að kaupa til dæmis þrjár vandaðar flíkur og 20 ódýrari.
Ég mæli með því að þú fylgir þessum ráðum. Það er áhrifaríkt að leggja sig fram um að líta vel út og líða vel í fötunum sínum. Með því móti líður þér betur og þú dregur að þér aukna velmegun.
Orkan í fataskápnum: Sumir geyma föt í skápnum sem hafa ekki verið notuð í yfir 20 ár. Fatnaður sem var einu sinni svo rándýr að það verður að geyma hann um aldur og ævi eins og eitthvert dýrmætt djásn. Þetta fólk heldur því fram að fötin komi aftur í tísku, þau þurfi bara að hanga í skápnum aðeins lengur. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert er eilíft, allra síst tískan sjálf. Efni og snið breytast, föt taka líka í sig geymslulykt með árunum svo dæmi séu tekin.
Mundu bara þetta: Ef þú hefur ekki notað flíkina á árinu, eða jafnvel síðastliðin eitt eða tvö ár, er tími til kominn að kveðja hana fyrir fullt og allt. Vertu viss, um leið og þú losar út gömul föt, gamla orku, gamlar minningar- flæða til þín ný tækifæri í einni eða annarri mynd.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.