Feng Shui fræðin eru nú komin til ára sinna, allt að 5000 – 6000 ára gömul en enn er fjöldinn allur af fólki að nýta sér þau.
Þau eru nýtt á heimilum, jafnt inni í íbúðinni og úti fyrir í garðinum og allan heim er fólk að nýta sér „leyndardómana“ fornu, ekki bara erlendis í hinum stóra heimi, heldur líka hér á litla Íslandi. Þetta á ekki aðeins við um fólk í viðskiptalífinu sem hefur fylgst með notkun Feng Shui hjá viðskiptafrömuðum og öðru þekktu fólki erlendis, heldur líka einstaklingar sem hafa heyrt af fræðunum og vilja nýta sér þau sér og sínum til betri líðan.
Fyrir nokkru var birt við mig viðtal í Fréttablaðinu varðandi notkun spegla í híbýlum. Þar bar margt á góma enda er hægt að nýta spegla á svo margan hátt í Feng Shui. Ef þú ert með spegil heima hjá þér þá ættir þú að renna yfir greinina, það er aldrei að vita nema þú getir nýtt þér eitthvað sem þar stendur. Feng Shui meistarinn minn, Marie Diamond (sem kom m.a. fram á myndbandinu „The Secret“) hefur sagt ýmsar sögur af því hvernig speglar virðast „geyma minningar“. Það hljómar dálítið undarlega en það er nú líka svo margt skrýtið í veröldinni.
Aðeins fyrir kynlíf og svefn
Það er margt annað sem skiptir máli í svefnherberginu þegar þú vilt njóta þín sem best þar. Svefnherbergið þitt á jú á vera þinn sælureitur, þar á ekki að læra undir háskólanámið eða vinna bókhaldið fyrir fyrirtækið. Nei, ó nei.
Svefnherbergið á að vera fyrir tvennt; kynlíf og svefn. Stundum þarf að sveigja til og brjóta þessa meginreglu sökum plássleysis, en slíkt getur á ýmsan hátt truflað vellíðan þína. Þá er vert að skoða hvort ekki sé hægt að skipuleggja sig ögn öðurvísi, búa til vinnuaðstöðu annars staðar í íbúðinni. Hvaða herbergi liggja að svefnherberginu þínu? Hvað er t.d. hinu megin við höfðalagið? Í hvaða átt snýr rúmið þitt, þ.e. í hvaða átt snýr hvirfillinn þinn þegar þú sefur? Hvers konar veggskreytingar ertu með þarna inni? Hvaða litir eru ríkjandi? Hvað er í SUÐVESTUR rýminu? Hvað er á rómantíska svæðinu þínu? Hvað er á rómantíska svæði maka þíns?
Á vefnum mínum www.fengshui.is er að finna ýmislegt sem þér gæti þótt forvitnilegt varðandi það hvernig þú getur nýtt þér Feng Shui fræðin, ekki aðeins fyrir þig heldur líka fyrir fjölskylduna þína. Af og til býð ég upp á Feng Shui námskeið, bæði almenn námskeið og svo námskeið þar sem er fjallað sérstaklega um afmarkaða þætti.
Mánudaginn 28.10. kl. 17 – 20 býð ég t.d. upp á örnámskeið þar sem ég fjalla fyrst um ýmsa grunnþætti Feng Shui, en mestur hluti tímans fer samt í að fjalla um svefnherbergið þitt.
Þátttakendur mega koma með ljósmyndir úr svefnherberginu, þ.e. ljósmyndir af því hvernig er umhorfs þar, og einnig hvet ég þátttakendur til að koma með grunnteikningu af íbúðinni eða slíkt riss.
Þá er gott að vera búinn að merkja inn á hvernig íbúðin snýr, hvar er Norður – hvar er Suður? Líttu á.
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!