Flestir sem fara að skoða hvernig þeir geta nýtt sér Feng Shui fræðin byrja á því að leggja áherslu á að kynna sér auðlegðarsvæði og auðlegðarstjörnur.
Fólk vill vita hvernig það getur öðlast frægð og frama, hvernig það fer að því að selja eða kaupa á hagstæðan hátt, hvernig það verður ríkt!
Við sem vinnum faglega með Feng Shui fullyrðum aldrei um áhrif fræðanna, það væri hvorki rökrétt né siðlegt að gera slíkt. Hver og einn þarf sjálfur að meta hvernig hann vill nýta sér þekkinguna og kanna hvaða áhrif það hefur fyrir eigin líðan, hamingju og velgengni .
Hið fengsæla suð-austur horn
Í öllum híbýlum eru mis“góð“ svæði. Þau svæði sem fólki finnst mikilvægast að vita um eru auðlegðarsvæðin. Það er bæði talað um föst auðlegðarsvæði og breytileg auðlegðarsvæði. Helstu föstu auðlegðarsvæðin eru suðaustur svæðið í íbúðinni þinni, í stofunni þinni, í svefnherberginu þínu og á skrifstofunni þinni. Hvað ertu með á þessum svæðum?
Nú er að taka til, fjarlægja drasl ef eitthvað slíkt er á þessum svæðum, þrífa svæðin vel og hreinsa. Kíktu inn í skápa sem eru á þessum svæðum, taktu vel til í þeim. Ekki geyma þarna brotna hluti eða eitthvað sem er á leiðinni í Sorpu.
Hvaða veggskreytingar eru þarna á veggjunum? Er það eitthvað sem þú túlkar sem auðlegð og velgengni? Ef svo er ekki þá skaltu athuga hvort þú eigir ekki betra myndefni á svæðið.
Í suðausturhlutanum í stofunni er álitið gott að hafa málmskál með gylltri mynt í, t.d. 50kr. eða 100kr. peninga og að sjálfsögðu er líka gott að hafa Evru mynt sem er bæði silfruð og gyllt. Annað vinsælt auðlegðarráð er að festa saman þrjá myntpeninga með rauðum þræði eða borða og hengja á svæðið.
Allt í blóma
Vel laufgaðar og gróskumiklar plöntur eru einnig ákjósanlegar en þá þarf að hafa í huga að blöðin séu velrúnuð, alls ekki með hvössum broddum. Vinsælasta Feng Shui plantan eru Bamboo stilkar, þeir eru oftast hafðir fjórir saman og sérstaklega ef þeir eru settir í suðausturhornið. Það er líka í góðu lagi að hafa þarna margar litlar plöntur en allar plöntur í suðausturhorni verða að líta vel út.
Frumefnið sem tengist suðaustur hluta íbúðarinnar og einstökum herbergjum er viður. Það er ein af ástæðunum fyrir því að það er gott að hafa það vel laufgaðar plöntur. Talnagildið sem tengist þessu svæði er fjórir og það er m.a. þess vegna sem Bamboo stilkarnir eru hafðir fjórir.
Oftast nær er talið mjög gott fyrir auðlegðina að hafa sírennsli á þessu svæði, þ.e. lítinn inni gosbrunn. Það á þó ekki við núna í mars 2014 þegar betra er að hafa hann í norðausturhorninu en svo væri hægt að flytja hann tilbaka 4. apríl. Hvers vegna þessa flutninga? Það kemur til vegna þess að þegar við nýtum okkur líka fræðin um breytilega Feng Shui orku þá tökum við tillit til þess hvaða áhrif hún getur haft á atriði sem eru annars staðbundin. Það á m.a. við um föstu auðlegðarsvæðin í suðausturhlutanum.
Ef þú ert með fiskabúr er álitið að það sé gott að staðsetja það á suðaustursvæðinu. Hentugasta gullfiskasamsetningin eru átta gylltir gullfiskar og einn svartur. Þeim svarta er ætlað að draga í sig neikvæða orku.
Að lokum má nefna að alls kyns hlutir úr tré henta vel í auðlegðarhornin til að styrkja frumefnið á svæðinu.
Jóna Björg Sætran, MÉd., Feng Shui kennsla og ráðgjöf www.fengshui.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!