Ég held ég hafi verið svona 14 ára þegar ég varð feministi. Það er að segja, ég var svona fjórtán ára þegar ég upplifði í fyrsta sinn að mér væri mismunað af því ég var stelpa.
Allar götur síðan hef ég rannsakað tilveruna út frá þessum vinkli (og reyndar fleirum) og velt því fyrir mér af hverju það er svona flókið að jafna virðingarstöðu karla og kvenna. Af hverju það þykir ekki eins fínt að vera kona, af hverju reyna karlar að kúga konur, af hverju er staðan er eins og hún er í þessum heimi?
Vitaskuld hef ég komist að mörgum niðurstöðum í gegnum árin og er oft búin að skipta um skoðun en einn vinkill sem ég hef pælt töluvert í upp á síðkastið eru blæðingarnar… túrinn.
Allar konur í heimi fara á blæðingar einu sinni í mánuði. Það er að segja konur á barneignaaldri. Stundum stendur þetta ferli yfir í viku. Stundum jafnvel lengur. Það er að segja, við finnum bólgur, fáum verki, finnum að þetta er að fara að byrja, svo byrjar ballið með mismiklum óþægindum og stendur yfir í sirka viku frá upphafi til enda. Sumar konur verða óvinnufærar á meðan. Samt má ekkert tala um þetta. Ekki múkk.
Körlum finnst nefninlega fátt hræðilegra en að vita til þess að konur fari á blæðingar.
Þeir panikka hálfpartinn. Vilja bara ekkert af þessu vita. Það sama gildir eiginlega um okkur sjálfar. Við kóum með þessum ótta þeirra.
Við pukrumst með bindin og látum eins og þetta sé bara ekki að gerast. Bindi og tappar eru tabú. Kannski erum við bara að hlífa körlunum sem fara í kerfi?
Láttu mig í friði ég er á túr
Af hverju er ekki hægt að segja bara við yfirmanninn „Láttu mig í friði ég er á túr”? Own it eins og stelpur segja.
Af hverju þarf að skammast sín eða fela þetta? Hvað er það? Það er ekki eins og þetta sé lítið mál eða hafi engin áhrif á okkur.
Hér áður fyrr voru konur sumsstaðar lokaðar inni meðan þær voru á blæðingum. Þær voru bara látnar í eitthvað svona túrhús og þar máttu þær dúsa þar til ferlið var yfirstaðið. Túr er tabú í okkar kristna menningarheimi þar sem kirkjunnar feður hafa ráðið ferð gegnum aldirnar. Samt fara allar konur jarðar á blæðingar í hverjum mánuði og þetta dæmi hefur geysilega mikil áhrif á líf okkar og tilveru.
Í sumum menningarheimum er þessu breytingarferli kvenna hinsvegar fagnað sérstaklega og hér má t.a.m. sjá æðislega myndasyrpu um það.
Kvendómsvígsla
Einn af mínum andlegu mentorum, mannfræðingurinn Joseph Campbell, sagði að blæðingar væru kvendómsvígsla ungra kvenna, –þegar náttúran tekur yfirhöndina og egóið (viljinn) ræður engu um málið.
Þér verður bara illt, þér blæðir, stundum engistu um af sársauka. Þetta er ekkert grín. Þú ert ekki lengur ábyrgðarlaus stelpa. Þú ert kona takk fyrir.
Í sumum ættbálkum voru strákar látnir upplifa mikinn sársauka svo þeir kæmust í gegnum manndómsvígslu af því náttúran þvingar ekkert þessu líku upp á stráka.
Strákar snúast bara um sjálfa sig og hjá þeim verða engin kaflaskil í lífinu með þessum hætti. Náttúran pínir þá ekki til að verða menn. Þeir fullorðnast með öðrum hætti. Ef þeir gera það þá…
Campbell vildi reyndar líka meina að heimurinn í dag væri stútfullur af ofvöxnum strákum sem skortir manndóm af því þeir þurfa aldrei að takast á við annað en egóvilja sinn… en það er önnur saga 😉
Hljóp maraþon á blæðingum
Ég varð ákaflega kát þegar ég rakst á þessa frétt um Kiran Gandhi. Hún starfar sem trommari í bandinu hjá ofurtöffaranum MIU og er líka útskrifuð með viðskiptagráðu frá Harvard. Kira var að fara að hlaupa maraþon þegar hún byrjaði allt í einu á túr. Hún ákvað að láta bara vaða, hlaupa án þess að vera með tappa! Til hvers? Jú, til að vekja athygli á þessum kynjamun. Hún skrifaði á Facebook:
“I ran with blood dripping down my legs for sisters who don’t have access to tampons and sisters who, despite cramping and pain, hide it away and pretend like it doesn’t exist.” eða…
„Ég hljóp maraþon með blóðtauma niður leggina fyrir systur okkar sem hafa ekki aðgang að bindum og töppum og fyrir systur sem, þrátt fyrir krampa og sársauka, fela það og láta eins og það sé ekkert að gerast.”
Töffaraskapurinn gerist varla meiri! Í viðtalinu við People sagði hún að þetta hefði gefið sér heilmikið vald. Að ef það væri hægt að hlaupa maraþon á túr þá væri hægt að brjóta upp sexisma og tabú á fleiri vígstöðvum.
Það er skemmtilegt að segja frá því að á Indlandi, þaðan sem Kira er ættuð, halda konur sem aðhyllast hindúisma oft sérstaklega upp á það þegar stelpur byrja á blæðingum. Það er semsagt haldið upp á kvendómsvígsluna og ekkert tabú við það. Lestu viðtal á People við Kiru hér.
Hér má sjá Kiru á trommunum…
Það sem ég er að reyna að segja með þessu er að konur eru öðruvísi en karlar. Líf okkar og menning er öðruvísi en líf þeirra. Til að ná jafnri virðingarstöðu við karla verður fólk að hætta að upphefja hið karllæga og gildi þeirra ofar því kvenlega.
Sérstök færni, áhugamál eða sérsvið kvenna eru hvorki ómerkilegri né meira óspennandi en karla.
Líffræðin gerir okkur öðruvísi en svo sannarlega ekki aumari, veikari eða verri. Þvert á móti erum við flestar alveg ótrúlega, fáránlega, brjálæðingslega sterkar. Það þarf svo sannarlega að vera það þegar þú ferð á túr einu sinni í mánuði. Ég meina… sérðu karlmenn fyrir þér…?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.