„REYNSLA MÍN AF SVOKÖLLUÐUM SNJALLBÍLUM ER EKKI GÓÐ,“ SEGIR RITHÖFUNDURINN SIGURGEIR ORRI SEM NÝVERIÐ SPLÆSTI Í SINN FYRSTA MUSTANG BLÆJUBÍL, ÁRGERÐ 1969.
Sigurgeir Orri, og konan hans, verkfræðingurinn Heiðrún Gígja, hafa árum saman verið búsett í Laguna Beach í suður Kaliforníu og í veðursældinni þar er lítið mál að bruna um á svona kagga alla daga, allan ársins hring. En það var þó á ferðalagi um Ísland og Evrópu þegar mælirinn varð allt í einu fullur hjá Sigurgeiri og þolinmæði hans fyrir snjallbílum fauk út um gluggann.
„PÍÍÍP ekki sleppa stýrinu PÍÍÍP!“
„Á þessu ferðalagi komst ég því að það er eitthvað bogið við alla þessa „snilli“ sem bílaframleiðendur keppast við að setja í bílana,“ segir hann pínulítið pirraður og heldur áfram: „Nútíma krúskontról býður upp á sjálfvirkan akstur. Heldur vissum hraða og gætir þess að bifreiðin aki eftir götunni. En ef maður vogar sér að sleppa stýrinu: PÍÍÍP ekki sleppa stýrinu PÍÍÍP!“
„Og ekki nóg með það,“ segir hann og er nú orðið svolítið heitt í hamsi. „Ef ég skipti um akrein PÍÍÍP, ef ég ók hraðar en skilti sögðu til um PÍÍÍP, ef ég setti í bakkgír PÍÍÍP, ef ég setti ekki á mig öryggisbeltið um leið og ég settist inn í bílinn PÍÍÍP! Þetta var sérstaklega slæmt þegar við ókum kræklóttan og mjóan veg á suðurlandi. Það var ekki hægt að halda sig á einni akrein, maður sneiddi alltaf inn á akreinina á móti í beygjum PÍÍÍP, PÍÍÍP, PÍÍÍP!,“ útskýrir hann og bætir við að á þessum tímapunkti hafi hann ákveðið að slíta sambandi sínu við snjallbíla:
Útvarpið er alveg upprunalegt og virkar ágætlega. Það eru tvær rásir. Önnur með kántrítónlist og hin með mexíkóskri þjóðlagatónlist.
Sigurgeir Orri
„Ég hugsaði með mér: Hvað um gamlan jeppa bara? Bíða þetta tímabil af sér meðan verið er að þróa sjálfkeyrandi bíla, sleppa því að vera tilraunadýr fyrir bílaframleiðendur. Eitt leiddi af öðru, hugmyndin um að kaupa gamlan jeppa breyttist í að kaupa blæju mústank. Eftir nokkurra mánaða fyrirgrennslan festum við Heiðrún kaup á þessum Mustang.“
Blæjukaggi hentaði betur en gamall jeppi
Eins og fyrr segir er Mústankurinn árgerð 1969 og mjög fallegt eintak en bíllinn hefur aldrei lent í tjóni. Allar línur beinar og samskeyti eins og best verður á kosið miðað við bandaríska bíla að hans sögn. Vélin er V8 302 rúmtommur, eða 5 lítra og hestöflin eru 250.
„Þótt Mústankurinn hafi verið minn eftirlætis bíll þegar ég var barn var hugmyndin lengst af að kaupa International Scout ii. Skátinn frá 1971-1979 er virkilega falleg hönnun en það verður að segjast eins og er að gamlir jeppar eru meira eins og traktorar í akstri. Við hjónin áttuðum okkur á því að blæjukaggi myndi henta okkur miklu betur og það varð niðurstaðan.“
Það er bónus að fá að gera við svona bíla
Eins og gengur og gerist með alla bíla þá þarf að passa vel upp á viðhaldið. Sigurgeir Orri segir það bónus að fá að gera við svona bíla.
„Það er stór hluti af því að eiga þá. Þennan bíl þarf þó sama og ekkert að laga. Hann er nýsprautaður, með nýja blæju og marga aðra hluti að auki, eins og vatnskassa, bremsur, rafal og rafgeymi. Hann er á nýjum upprunalegum dekkjum á upprunalegum felgum. Mælirinn segir 93 þúsund, en það er ekkert að marka þessa tölu. Á einhverjum tímapunkti var vélin tekin í gegn og þá má segja að mælirinn núllstillist, eða færist amk. mikið aftur.“
Tvær útvarpsrásir virka, önnur með mexíkóskri þjóðlagatónlist og hin með amerísku kántrí
Sigurgeir segir að útvarpið sé alveg upprunalegt og virki ágætlega.
„Það eru tvær rásir. Önnur með kántrítónlist og hin með mexíkóskri þjóðlagatónlist. Hátalarinn er einn talsins, staðsettur á miðju mælaborðinu. Þetta er ekki kaggi með hljóðkerfi. Blæjan gerir það að verkum að það er ekki pláss fyrir hátalara aftur í. Ég festi kaup á farandhátalara sem ég tengi með aðstoð Haraldar Blátannar við símann. Það er ótrúlega góður hljómur í þessu litla apparati.“
Spurður að því hver fyrri eigandi bílsins hafi verið segir Sigurgeir það hafa verið ljósmyndara í Hollywood. „Hann er af ítölskum ættum. Sagði mér að hann hefði myndað margt frægðarmennið. Fínn náungi. Hugsaði vel um bílinn. Ég er honum þakklátur fyrir alla þá ást sem hann sýndi kagganum.“
Sækir bílasamkomur og segir alveg hægt að flytja kaggann heim
Sigurgeir segist hafa haft áhuga á gömlum bílum frá því hann man eftir sér og hann sækir gjarna samkomur þar sem fornbílaeigendur hittast.
„Ein slík hérna í Appelsínusýslu er kölluð Kaffi og Bílar (cars and coffee) og er snemma á hverjum laugardagsmorgni. Það er mjög gaman að skoða þessi gömlu farartæki. Sú alúð og metnaður sem menn leggja í bílana sína er til fyrirmyndar. Annað sem menn leggja í þessi tæki eru peningar. Það var fornbíll á samkomunni sl. laugardag sem kostar litlar 7,4 milljónir dala. 1964 Shelby Daytona og það er ekkert smáræði! Bíllinn okkar kostaði þó bara á við nýjan smábíl, alveg innan eðlilegra marka.“
Að lokum spyr ég stoltan eigandann hvort hann sjái fyrir sér að geta komið með bílinn heim.
„Jájá, engin spurning. Lalli vinur minn, sem hjálpaði mér við að meta þennan og vega, aðstoðaði vin sinn fyrir skömmu að kaupa blæjumústank sem nú hefur fast aðsetur á Íslandi svo það er engin sérstök fyrirstaða.“