Margar konur kannast við að sjá breytingar á útlitinu sem þær taka ekkert endilega fagnandi.
Þetta á sér í lagi við um hrukkurnar og önnur merki öldrunar en með tímanum fer húðin jú að verða æ hrifnari af þyngdaraflinu og allt tekur að síga í suðurátt eins og sagt er.
Þetta stafar jú af því að með aldrinum missir húðin teygjanleika sinn þar sem húðfrumurnar endurnýja sig ekki með sama hraða og áður og kollagen búskapurinn er ekki sá sami. Undirhúðin og fitan undir húðinni breytist líka þannig að húðin verður slöpp og laus en bæði reykingar og sól hafa mikil áhrif á þetta ferli og þeim sem er annt um útlit sitt ættu því tafarlaust að byrja að nota góðar sólarvarnir og hætta strax að reykja.
Margar konur sem eru komnar yfir fimmtugt hafa farið í andlitslyftingu og jafnvel yngri konur sem hafa farið illa með húð sína með of miklum sólböðum í ljósabekkjum eða utandyra, reykingum og slæmu mataræði.
Andlitslyftingar eru sérlega algengar í Ástralíu þar sem sólin skín allann ársins hring og fátt þykir verra en miklar hrukkur og sólarskemmdir á húð.
Það sama má segja um Bandaríkin en margar þekktar konur eru grunaðar um að hafa lagst undir hnífinn meðan sumar hreinlega segja bara frá því án þess að skammast sín. Þetta á við um t.d. Hilary Clinton, Debbie Harry og Meryl Streep en segja má að þær hafi yngt sig um áratug eða meira eftir að hafa farið í slíka aðgerð.
Hvernig gengur andlitslyfting fyrir sig?
Undirbúningur fyrir og eftir aðgerð
Reykingar minnka mjög blóðflæði til húðarinnar og því er öllum sem ætla í andlitslyftingu uppálagt að hætta að reykja sex vikum fyrir aðgerð því annars eykst hættan á sýkingu og drepi í húðinni. Einnig er gott að taka ríkulega af C-vítamíni, borða grænmeti og drekka grænt te til að auka upptöku súrefnis í blóðinu.
Að aðgerðinni lokinni dvelur sjúklingurinn á stofunni í nokkrar klukkustundir. Verkir eru vægir þó aðgerðin sé stór og ekki er þörf á miklum verkjalyfjum en vegna þess að bandvefur húðar í andliti er svo mjúkur, bólgnar andlitið töluvert upp.
Þegar heim er komið má alls ekki reyna mikið á sig, beygja sig fram til að fara í skó eða lyfta þungu og alltaf að hafa hátt undir höfði þegar legið er í rúmi eða sófa. Áreynsla eykur blæðingarhættu og veldur því að viðkomandi verður mikið lengur að ná sér.
Nauðsynlegt er að nota kalda bakstra oft á dag til að draga vel úr bólgum og flýta bataferlinu og gott er að láta rólega vantsbunu skola andlitið þegar farið er í sturtu en alveg bannað að nudda með höndum eða handklæði á eftir.
Bataferlið næstu daga
Bólgan getur aukist fyrstu þrjá dagana en eftir það fer hún minnkandi. Krem eða aðrar snyrtivörur má ekki nota fyrstu tíu dagana eftir aðgerð og það er ekki ráðlegt að fara út í sól tvær vikur eftir aðgerð. Ekki má stunda neinar íþróttir, æfingar, hlaup eða skokk eða annað sem veldur svitamyndun sex vikur eftir aðgerð.
Áhætta
Líkt og með allar skurðaðgerðir er alltaf viss áhætta sem fylgir því að fara í andlitslyftingu eða aðrar fegrunaraðgerðir og því er nauðsynlegt að íhuga vandlega hvort viðkomandi finnist áhættan þess virði áður en lengra er haldið.
Eftir aðgerð gæti borið á skyndilegri bólgu en þá er hugsanlega blæðing undir húðinni sem þarf að stoppa. Það þarf því einstaka sinnum að opna aftur, fjarlægja blóðköggul og stöðva blæðinguna. Ef þetta gerist, er það á fyrstu 6-12 klst. eftir aðgerð. Sumar geta jafnvel fundið fyrir dofnar tilfinningum í andliti en yfirleitt er þetta fljótt að jafna sig og full tilfinning kemur til baka.
Ef þú vilt vita meira mælum við með því að skoða heimasíðuna ABlæknir.is eða senda Ágústi póst á agust (hja) ablaeknir.is
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.