Undirhaka. Ekki beint skemmtilegasta orð í heimi en það eru ansi margir sem kannast við að líta í spegilinn og teygja fram hökuna í von um að þessi auka haka sem enginn bað um hverfi skyndilega.
Því miður gerist þetta ekki. Undirhakan er bara þarna, situr föst, sama hvað þú grennist. Svo verðurðu eldri og allt byrjar að síga og það koma hrukkur og fellingar.
Hvað er til ráða?
Það merkilega er að það er fullt hægt að gera til að vinna á undirhökunni sem ekki vill fara. Ein vinkona okkar hafði til dæmis ekki grun um að það væri hreinlega hægt að gera eitthvað í þessu en hún er búin að pirrast út í sína undirhöku frá því hún man eftir sér. Við höfðum samband við Ágúst Birgisson lýtalækni sem starfar í Domus Medica og á Akureyri og spurðum hann út í málið.
Hann segir að sitthvað komi til greina annað en að sættast bara við undirhökuna en það fari allt eftir einstaklingnum hvað henti best fyrir hvern og einn, svo lengi sem kostnaður á ekki að fara upp úr öllu valdi:
“Hjá sumum er hægt að gera einfalda fitusogs aðgerð en hvort sú aðferð er heppileg fer mjög mikið eftir því hversu mikil fita er til staðar og hvort húðin er enn nokkuð teygjanleg,” segir Ágúst en bætir við að besti árangurinn náist ef viðkomandi er sem næst sinni kjörþyngd.
“Sumt fólk er hreinlega með stuttan háls og stutta höku og þar af leiðandi virðist undirhakan vera meiri hjá þeim en öðrum. Hjá sumu fólki er reyndar bara auka húð og fellingar en lítil fita og í einstaka tilfellum er hægt að skera í burtu þessa auka húð og laga undirhökuna án þess að verið sé að tala um andlitslyftingu,” segir Ágúst og bætir við að stundum sé hægt að leggja skurð undir hökuna og strekkja þannig á og losna við auka húð og fellingu: “Oft er ekki mikið sem þarf að gera til að það sjáist verulegur munur,” segir hann.
Einfaldast fyrir yngra fólk með teygjanlega húð
“Heppilegustu kandídatarnir í fitusog á undirhöku eru þær sem eru með slétta húð, ekki með fellingum, heldur bara fyrirferðaraukningu og greinilega fitu þarna undir, húðin verður nefninlega að geta strekkst til eftir fitusogið. Þá er þetta vanalega yngra fólk sem er enn með mikinn teygjanleika í húðinni,” segir hann og bætir við að fitusog geti líka hjálpað til hjá fólki sem er með litlar hökur. Þær virðast þá stærri eftir aðgerðina.
“Öllu umfangsmeiri aðgerð er að leita til kjálkaskurðlæknis og fá hökuna lengda en svo er líka hægt að setja sílikonpúða framan í höku en ég hef ekki gert það af því mér finnst það ekki gefa góða raun. Það eru til ýmsar aðgerðir ef maður skoðar þetta þó árangurinn sé misjafn,” segir hann og leggur áherslu á að það sé mjög misjafnt hvaða aðferð henti best fyrir hvern og einn:
“Laser getur jafnvel hjálpað til við að strekkja á húðinni en það gagnast lítið að gera það eitt og sér. Að lagfæra undirhöku er ekki uppáhalds aðgerð lýtalækna því nálgunin getur verið flókin. Það er jú heldur ekki víst að sjúklingur vilji eyða hálfri til einni milljón í undirhökuna sína en ef fitusogið á við þá er það tiltölulega auðveld lausn og árangurinn góður,” segir hann að lokum og við vinkonu okkar segjum við – er þetta ekki bara spurning um að bóka viðtal og láta kanna málið?
Þú getur kannað verðskrá og fleira HÉR á heimasíðunni AB læknir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.