Fegrunar eða lýtaaðgerð er ekki eitthvað sem ætti að fara út í án þess að hafa athugað málið gaumgæfilega.
Þú þarft að vita sem mest um lækninn sem framkvæmir aðgerðina, og hvert einasta litla smáatriði sem tengist henni frá undirbúningi til bata. Til að hafa þetta á hreinu þarftu undirbúning og rannsóknarvinnu svo eitthvað sé nefnt. Hér eru 10 ábendingar sem þú skalt lesa ef þér hefur einhverntíma dottið í hug að fara í fegrunaraðgerð.
1. Hvaða læknir er þetta?
Á listanum sem hér er settur saman er mælt með því að þú kynnir þér lækninn sem þú ætlar að fara í aðgerð hjá. Finndu út hvað viðkomandi hefur starfað lengi í faginu, í hverju þeir eru sérhæfðir(ef svo er) og reyndu ef þú getur að fá umsögn með lækninum. Sumir eru mjög hæfir í ákveðnum gerðum aðgerða og kannski ekki eins reynslumiklir í öðrum. Nefaðgerðir geta t.d. verið mjög flóknar og ef læknir segist ekki treysta sér í aðgerð skaltu finna annann eða biðja hann að mæla með kollega sem er færari á því sérsviði.
2. Kynntu þér ferlið
Á netinu er hafsjór upplýsinga um allskonar fegrunaraðgerðir og myndir af venjulegum konum, fyrir og eftir aðgerðir. Real Self er t.d mjög góð síða sem inniheldur fullt af allskonar myndum sem auðvelt er að leita eftir og á íslensku síðunni AB Læknir er einnig mikið af ýtarlegum upplýsingum um aðgerðir, verðskrá og bataferli.
3. Kynntu þér áhætturnar
Öllum aðgerðum fylgja vissar áhættur, jafnvel þó ekki sé um skurðaðgerð að ræða. Vertu meðvituð um þessar áhættur og spurðu lækninn út í þær. Ekki vera hrædd við að spyrja um hvað sem er, sérstaklega ef þú ert með áhyggjur yfir einhverju.
4. Ekki láta verðið hafa áhrif á ákvörðun þína
Hvort sem verðið er lægra eða hærra hjá þeim lækni sem þú ætlar að fara til skaltu ekki láta það ráða úrslitum um ákvörðun þína. Þó að annar læknir sé dýrari þýðir það heldur alls ekki að hann sé eitthvað betri. Skoðaðu frekar orðspor læknisins, hvernig aðrir tala um hann/hana og hvernig aðgerðirnar hafa tekist og hvort læknirinn sinni sjúklingum mjög vel eftir aðgerð.
5. Fáðu að sjá myndir af því sem læknirinn hefur áður gert
Þegar þú ert í viðtali við lækninn skaltu biðja hann/hana um að sýna þér myndir af sambærilegum aðgerðum sem hann/hún hefur áður gert. Þá geturðu gert þér í hugarlund hvernig útkoman verður á þess að búast við nákvæmlega eins niðurstöðum. Vertu viss um að myndirnar sýni raunverulega vinnubrögð þessa læknis en séu t.d. ekki auglýsingamyndir frá framleiðendum Botox eða brjóstapúða.
6. Ekki reyna að líkjast fræga fólkinu
Þú ert ein og stök og alveg einstök. Þessvegna er óskynsamlegt að reikna með því að geta líkst annari fyrirmynd eftir að hafa farið í fegrunaraðgerð. Stundum komast ákveðnir einstaklingar í tísku, brjóstatískan getur farið upp og niður, stundum er í tísku að hafa stærri og síðan minni. Vertu viss um að aðgerðin sem þú íhugar að fara í komi til með að fegra útlit þitt með þeim hætti að þú fáir aukið sjálfstraust og líðir betur. Hún verður að vera í takt við þitt útlit og þinn líkama, ekki líkama eða útlit annarar manneskju. Þó að Gunna sé með stóran barm er ekki víst að þinn yrði betri stærri. Fegrunaraðgerð er ekki eins og klipping á hári. Þetta er breyting til frambúðar óháð öllum tískusveiflum. Persónuleg ákvörðun þín.
7. Talaðu fyrst við einhvern í fjölskyldunni eða góða vini
Ef þú átt góða og hreinskilna vini skaltu prófa að tala við þá um pælingar þínar áður en þú ræðst í aðgerð. Mögulega koma upp spurningar sem þér hafði ekki dottið í hug að spyrja sjálfa þig að og þú gætir íhugað málið frá fleiri sjónarhornum. Ef þú ákveður að fara í aðgerð án þess að ráðfæra þig við neinn þá er læknirinn bundinn trúnaðarsambandi við þig en það er alltaf betra að fá hugmyndir frá öðrum sem þú treystir. Athugaðu samt að allt tal um útlit annara getur verið mjög viðkvæmt og þú þarft því að tala um þetta við mjög hreinskilna vinkonu sem þú treystir til að segja þér satt en ekki eitthvað sem hún heldur að þú viljir heyra.
8. Bataferlið tekur tíma
Það tekur alltaf langan tíma að jafna sig eftir fegrunaraðgerð. Flestar aðgerðir eru þess eðlis að það tekur nokkra mánuði, jafnvel ár, þar til endanleg niðurstaða kemur í ljós. Ör þurfa tíma til að mýkjast upp og jafna sig og líkaminn þarf sinn tíma til að jafna sig. Þú þarft líka að vera meðvituð um tímann eftir aðgerð. Þarftu aðstoð beint á eftir? Verður þú að hafa einhvern hjá þér og hver á það að vera? Hvernig kemstu heim? Hvaða sársaukastilla þarftu að nota? Hvað með heimsókn til læknis eftir aðgerð? Þarf að taka sauma og svo framvegis. Vertu með þetta allt á hreinu og talaðu um það við lækninn.
9. Taktu þér tíma til að hugsa málið
Eftir að hafa rætt við lækni um hugmyndir þínar skaltu gefa þér tíma til að velta þeim betur fyrir þér og möguleikunum sem liggja fyrir. Farðu vel yfir valkostina og ef þér finnst sem þú þurfir fleiri upplýsingar áttu ekki að hika við að afla þér þeirra og rannsaka allt í þaula áður en lengra en haldið.
10. Fáðu frekari ráðgjöf
Sumir mæla með að tala við fleiri en einn lækni um aðgerðina sem þú veltir fyrir þér að fara í. Þá færðu fleiri en eitt sjónarhorn og heyrir jafnvel um aðra mögulega sem kynnu að hljóma betur. Þetta gefur þér fleiri valkosti og hjálpar þér að taka meðvitaða og yfirvegaða ákvörðun. Síðast en ekki síst áttu aldrei að ana út í neitt þegar kemur að svona stórum ákvörðunum. Hugsaðu málið vel og framkvæmdu svo.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.