Tannhvíttanir hafa verið áberandi undanfarin misseri og margir hafa nýtt sér þessa undraaðferð til að fá perluhvítar og fallegar tennur.
Meðferðin getur þó verið kostnaðarsöm og haft í för með sér áhættur, þannig að þeir sem eru að íhuga tannhvíttun ættu að fara til fagaðila skv. ráðum tannlækna um land allt.
Fyrir þá sem kjósa ekki róttækar aðgerðir eru til aðferðir sem geta gert tennurnar hvítari með lítilli fyrirhöfn heima fyrir.
Það sem virkar að sjálfsögðu best er takmörkuð neysla á gosdrykkjum (sérstaklega dökkum), sælgæti og kaffi. Te getur líka haft þau áhrif að tennurnar verða gulari. Það er enginn að tala um að sleppa þessum hlutum alveg en gott er að hafa þá í lágmarki.
Regluleg burstun 2x á dag ætti að vera vani hjá flestum mér finnst algjör snilld að nota hvíttunartannkrem. Í þeim eru örlitlir kristallar og matarsódi sem hjálpa til við að slípa óhreinindi af tönnunum og lýsa þær og tannþráður einu sinni á dag gerir kraftaverk, en hann losar sýkla og bakteríur frá tönnum og tannholdi og þar af leiðandi breytist liturinn til hins betra. Svo er minni hætta á tannholdsbólgum og skemmdum og Karíus og Baktus fá að fjúka!
Matarsódi á tennurnar er líka algjör snilld eins og Margrét talaði um í þessari grein árið 2009 en ekki nota hann oftar en tvisvar á ári.
Gott munnskol að kvöldi, s.s. Listerine hjálpar til við að halda sýklum í lágmarki. Dagleg neysla ávaxta og grænmetis hefur jákvæð áhrif á munnvatnsframleiðslu, sem og sykurlaust tyggjó. Og meiri munnvatnsframleiðsla þýðir hvítari tennur. Vatnsdrykkja segir sig sjálf.
Þá erum við komin að því besta – Kossar! Því hefur lengi verið haldi fram að það að stunda reglulegt kossaflens gefi hvítari tennur vegna aukinnar munnvatnsframleiðslu.
Ég mæli því með því að fara að ráðunum hér að ofan til að gera tennurnar hvítari… Það sakar ekki að prófa!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com