“I like my money right where I can see them… hanging in my closet (Sarah Jessica Parker sem Carrie Bradwhaw úr Sex and the city)
Hversu oft heyrir maður konur segja: „Ég á ekkert til þess að vera í” jafnvel þóttþær eigi fullan skáp af fötum?”
Með þessum orðum hefst BA ritgerð Örnu Sigrúnar Haraldsdóttur fatahönnuðar sem er sérstaklega að stúdera vinnufatnað kvenna. Arna heldur áfram:
Ef hver einasti dagur hefst á því að eyða tíma í að velja föt fyrir daginn eru það orðnar ansi margar mínútur þegar lífið er á enda.
Það er ekki að ástæðulausu að fólk eyðir eins miklum tíma og peningum í útlitið og raun ber vitni. Útlit er það fyrsta sem fólk sér er það hittir manneskju í fyrsta skipti og þar af leiðandi það fyrsta sem hægt er að dæma eftir. Ef til væru einfaldar reglur eða einhvers konar leiðbeiningar um hvernig konur ættu að klæða sig kæmust þær af með töluvert styttri tíma til að hafa sig til á morgnanna og einnig minni tíma til að fylgjast með tísku, versla föt og allt hitt sem með þarf. Karlar hafa komið sér upp reglum um vinnuföt sem einfalt er að fylgja og sparar þeim tíma. Ef konur ætla sér að keppa á jafnréttisgrundvelli um eftirsóknaverð störf er mikilvægt að frítími utan vinnu sé álíka mikill milli kynjanna.
Ofuráhersla á útlit og smartheit kvenna er liður í því að erfitt er fyrir konur að keppa við karla.
Fólk í stjórnunarstöðum og öðrum áhrifastöðum þarf oft að koma fram sem ímynd þess fyrirtækis sem það starfar hjá og getur fyrirtækið því sett reglur um hvernig það skal klæðast. Oft á tíðum er það þó ekki nauðsynlegt því af einhverri ástæðu hafa myndast óskrifaðar reglur um klæðaburð og flestir þekkja til þeirra. Þessar reglur eru einna stífastar í viðskipta- og bankageiranum en virðast vera frjálslegri til dæmis í pólitík.
Klæðnaður kvenna í viðskiptum og fjármálum á sér ekki eins langa sögu og klæðnaður karla í sömu störfum. Það er einfaldlega vegna þess að konur hafa ekki eins lengi og karlar unnið þessi störf. Þær hafa þó líkt og karlar komið sér upp ákveðnum reglum um klæðnað. Sóley Halla Eggertsdóttir starfaði sem viðskiptastjóri Eignastýringar KB banka og sagði í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins, að til væru óskrifuð lög um klæðnað á vinnustaðnum. Hún sagði meðal annars:
„Þar sem vinnan gengur að hluta til út á að halda kynningar og funda með viðskiptavinunum eru svona pínu óskrifuð lög að það sé ekki sama í hverju maður er í vinnunni… vinnan gengur að hluta til út á að hitta viðskiptavini og fara á fundi, þ.e. vera í framlínu, þá kemur það að sjálfu sér að maður hugsar út í hvort fatnaðurinn gangi í vinnunni eða ekki.”
Með þessu er hún að segja að viðskiptavinir hennar dæmi hæfileika hennar í starfi m.a.eftir því hvernig hún lítur út. Það sé því mikilvægt að virðast vera starfi sínu vaxinn.
Þegar konur fóru að sækja inn á starfsvettvang sem áður tilheyrði körlum var ekki komin föst hefð á klæðnað kvenna í þessum stöðum sem jöfnuðust á við jakkaföt karla. Svarta dragtin, sem hefur orðið einkennisbúningur þessara kvenna er í raun alveg eins og jakkaföt karla, sniðin á konulíkama.
Hvernig fatnaði vilja konur klæðast á vinnumarkaði?
Til að komast að þessu hefur Arna útbúið könnun sem hún myndi vera mjög þakklát fyrir að einhverjar vildu svara.
Könnunina má finna hér
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.