Dama af guðs náð og mikil vinkona, hvíslaði að mér best geymda leyndarmálinu sínu fyrir nokkrum árum og ég hef alltaf farið eftir því. „Fallegt hár er höfuðprýði,“ var hún vön að segja og það er alveg rétt.
Síðan hef ég alltaf tekið eftir konum með fallega tilhaft hár. Sérstaklega þeim sem koma fram í sjónvarpi eða láta að sér kveða opinberlega. Þær geta farið í hvaða tuskur sem er og alltaf verið fínar því hárið puntar svo mikið.
Sama flotta dama fékk mig síðan til að prófa hársnyrtistofu í hlíðunum sem ég hafði aldrei heyrt um. Hárflikk. Þar hafði hún sjálf verið fastakúnni í mörg herrans ár.
Fram til þessa hafði ég alltaf farið á mjög elegant og dýrar stofur, sem eru auðvitað líka frábærar en þarna gekk ég inn í alveg nýtt dæmi, allt var látlaust og laust við íburð, stór hluti fastakúnna sem leit inn greinilega íbúar í hlíðunum.
Stundum var smá bið og þá var maður helst að skoða fólkið, enda litrík og flott flóran í þessum miðpunkti borgarinnar. Hvað mig snertir, varð ekki aftur snúið eftir þessa fyrstu heimsókn. Þær Pálína og Kolla á Hárflikk eru nú einu hárgreiðslukonurnar sem fá að hafa hendur í hári mínu.
Að mínu mati er litla stofan í Hlíðunum eitthvert allra best geymda leyndarmálið í bænum. Ef þú þekkir ekki þær stöllur ekki ættirðu endilega að líta við og prófa. Gengið er inn af götunni eins og hver vill og þarna er alltaf biðröð og hamagangur. Það sem mér finnst skemmtilegast er að þær koma reglulega með nýtt look sem slær í gegn. Auk þess er stofan líka mjög vinsæl af því að verðin eru skynsamleg, þannig kostar dömuklipping um 3.100 krónur.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.