Á sumrin sýnum við almennt meira af hörundinu en á veturnar, sérstaklega þegar hlýtt er í veðri eða þegar verið er að spóka sig á baðfötum.
Til að húðin fái notið sín sem best er gott að gefa henni svolítið aukna athygli og það er best að gera þegar þú ert í sturtunni.
Notaðu skrúbb
Með því að gera þetta færðu húðina til að eflast og styrkjast, þú hreinsar í burtu dauðar húðfrumur, færð fallegri áferð, örvar blóðrásina og lítur þar af leiðandi mikið betur út.
Skrúbb fyrir líkamann má fá allstaðar þar sem hægt er að kaupa snyrtivörur og þetta er til í öllum verðflokkum. Til að auka áhrifin er gott að nota grófan hanska eða klút en með því tryggirðu að dauðu húðfrumurnar hreinsast af. Einbeittu þér sérstaklega að grófum svæðum, hnjám og olnbogum…og ekki gleyma að enda á fótunum og tánum sem vilja vera fínar í opnum skóm.
Þetta er líka sérlega gott á sumrin ef þú ert mikið í sólinni því þá endurnýjast húðin mikið örar og því betra að skrúbba sig vel.
Notaðu skrúbbinn daglega í sturtunni, eða annan hvorn dag.
Sinntu háreyðingum
Notaðu annaðhvort vax, rakvél eða háreyðingakrem til að losna við loðna leggi og bikinílínur. Háreyðingarkrem eru t.d. svolítið vanmetin en þau eru rosalega góð til að fjarlægja hár af fótleggjum. Fótleggirnir verða mjög mjúkir á eftir og hárin eru lengur að vaxa til baka heldur en ef þú notar rakvél.
Berðu á þig
Vertu dugleg að nota body lotion og/eða brúnkukrem eftir sturtuna og skrúbbinn. Þau eru til í allskonar verðflokkum en Pjattrófurnar eru sérlega hrifnar af Dove (sem er ódýrt) og Guerlain. Hvort um sig æðislega góðar vörur en svo má líka fá mjög góð svona krem frá Nivea, Lancome, Shiseido og Lavera svo fátt eitt sé nefnt.
Ef þú sinnir þessu samviskusamlega ættirðu að fá fallega, ljómandi húð sem nýtur sín þegar þú spókar þig á hlýrabol, í ermalausum kjól eða á sundlaugarbakkanum…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.