Í kvöld verður annar þáttur af Pabbahelgum sýndur á RÚV en margir bíða nú ofurspenntir eftir því að fá svör við ótal spurningum sem vöknuðu eftir síðasta þátt. Förum hér yfir hann í helstu atriðum:
Í byrjun þáttarins er Karen að undirbúa hið árlega kynlíf með manninum sínum Matta, en eftir snarpann afmælis-sjortara ráðast tvö yngri börnin inn og vilja taka þátt í kitlustríði. Þar sem við lifum á tímum yfirdeilinga þarf Karen að fanga augnblikið á síma Matta og sér þar dularfull skilaboð frá AJ sem biður hann að spara sig og sendir mynd af ferskju. Karen er fljót að leggja saman tvo og tvo og sér að skilaboðin snúast ekki um viðskipti á ferskjum, en eins og sönn ofurmamma þá þurkar hún sér á milli læranna, kreystir fram bros og hendir í afmælisveislu handa ástkæra eiginmanninum, fer yfir heimalærdóminn hjá unglingnum, græjar búning á litla barnið og hún nær líka að spæja smá og finna símanúmer AJ.
Lélegur lygari
Þegar Karen er búin að skutla krakkaskaranum á mismunandi skólastofnanir í 107 og leiðbeina þeim í smáatriðum hvernig þau eigi að borða nestið sitt, taka próf og gera höfuð-herðar-hné-og-tær í smáatriðum bankar prestur á rúðuna hjá henni og biður hana um að gefa sér start.
Preturinn er myndarlegur með eindæmum og ég er nokkuð viss um að Séra Sæti sé módel í hjáverkum og hafi verið að sitja fyrir á biblíumyndum þegar bíllinn hans varð rafmagnslaus.
Sérann á örugglega eftir að koma meira við sögu síðar, hann og Karen eiga líka sömu týpu af bíl, það getur varla verið tilviljun.
Karen fer svo í vinnuna á sálfræðistofunni sinni sem er smekkfull af innrömmuðum klisjum og flennistórum IKEA plakötum en hendir öllum fagmannlegheitum út um gluggann þegar hún notar síma skjólstæðings til að spæja um AJ, Önnu Júlíu! Anna Júlía er sumsé viðhaldið hans Matta. Hún býr í Kópavogi og á með eindæmum trúgjarnan nágranna sem hún hefur treyst fyrir aukalyklum að íbúðinni og hleypir Kareni inn í íbúðina þrátt fyrir að Karen sé með lélegri lygurum á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.
Hvað er Matti að pæla?
Af íbúðinni að dæma er Anna Júlía allt önnur týpa en Karen, hún er bara með MALM kommóður og ekki einasta Iittala kertastjaka að sjá, tjah ekki nema að flennistóri reðurinn á MALM náttborðinu sé flott skandinavísk hönnun, framúrstefnulegt úra-statíf? En hver er eiginlega þessi Anna Júlía og af hverju er Matti að halda framhjá með svona líka ósmekklegri konu?
Karen brunar svo á leikskólann hjá litla kúti, hvar hún er að sjálfsögðu formaður foreldrafélagsins, og lætur Matta fá úrið sem hafði verið svo haganlega komið fyrir á reðurstandinum.
Þrátt fyrir strangar æfingar náði litli kútur ekki alveg taktinum í höfuð-herðar-hné-og-tær dansinum, það leit nú ekkert svakalega vel út fyrir Karen…
Verða Karen og séra Sæti par?
Svo um kvöldið þá er afmælisboð fyrir Matta og Karen hellir sig haugafulla og fer á trúnó með tvíbura-vinkonu sinni sem er í sama íslenska hönnunarkjólnum og með sömu hárgreiðsluna, og eftir langt kvöld og fullt af fínu áfengi úr fínum Iittala glösum þá ber Karen fram þessa fínu tippaköku fyrir Matta sinn.
Karen rekur svo Matta á dyr í lok kvöldsins, skiljanlega!
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hún tæklar þessi svik.
Er til eitthvað nógu flott í Epal sem getur linað þjáningar hennar, þó ekki væri nema tímabundið?
Verða Karen og Séra Sæti par??
Mun litli kútur ná að mastera höfuð-herðar-hné-og-tær?
Hvert fer Matti eiginlega?
Fær Anna Júlía úrastandinn sinn aftur?
Væri ekki líka bara ágætt að telja upp allt hönnunardótið í kreditlistanum svo að við hin getum stolið stílnum hennar Karenar?
Ég bíð spennt eftir framhaldinu í kvöld og ekki klikka á að koma í FB Grúbbuna Aðdáendur Norrænna sjónvarpsþátta til að ræða þáttinn!
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.