Margrét Danadrottning hafði stórar áhyggjur af Facebook-notkun samlanda sinna í áramótaávarpi sínu og hvatti fólk til að forðast sýndarmennsku og trúa ekki þeim óraunveruleika sem sýndur er í samfélagsmiðlum.
Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð í Danmörku en Margrét hefur áhyggjur af þeim sýndarveruleika og yfirborðsmennsku sem henni finnst fólk lifa í gegnum Facebook og aðra vefmiðla. Hún bendir m.a. á að það sé erfitt að lifa samkvæmt þeim stöðlum sem tíðkast þar sem fólk getur látið líta út fyrir að líf þeirra sé fullkomið, þau séu í fullkomnu hjónabandi, eigi fullkomin börn, stundi spennandi vinnu og nám, séu dugleg í frístundum, heimilisstörfum og heimboðum ásamt því að hafa óaðfinnanlegt og unglegt útlit. Allt þetta ýtir undir minnimáttarkennd þeirra sem sjá þennan sýndarveruleika og telja hann raunverulegan. Þessa ádeilu hennar má lesa hér en ávarpið er hér fyrir þau sem kunna dönsku.
En hvað er raunveruleiki og hvað er sýndarmennska?
Nú hagar fólk sér mismunandi á Facebook og hef ég fengið kjánahroll yfir ýmsu sem ég hef orðið vitni að í báðar áttir. Í raun finnst manni ekki viðeigandi að deila sínum innstu hjartans málum, þegar fjölskylduerjur, ástarsorg, ástvinamissir og veikindi er öllum opið þá þykir manni það of mikið.
Einnig þykir mér kjánalegt þegar fullorðið fólk dressar sig upp, spartlar í framan og tekur af sér sjálfsmyndir í gríð og erg til að birta á Facebook, eða kærustupar/hjón sem lofa hvort annað óspart fyrir allra augum, og mont það og sjálfsupphafning sem kemur frá þeim sem aldrei gera grín eða hafa húmor fyrir sjálfum sér.
Misskilningur eða röng mynd?
Svo má líka svo auðveldlega misskilja fólk sem maður “kynnist” í gegnum samskiptavefinn facebook. Ég á t.d. “facebookvinkonu” sem er óspör á stóru orðin og virðist hafa sterkar skoðanir á öllu, hún deilir skoðunum sínum á pólitík, mannréttindabrotum hvers skonar og virðist í raun alveg ósakplega reiður og bitur einstaklingur. En þegar maður kynnist henni í raun þá er hún ekkert nema almennilegheitin, gerir óspart grín að sjálfri sér, er skemmtileg og létt í lund, allt önnur manneskja en sú sem birtist okkur á FB.
Yfirhylming
Ég þekki líka par sem hefur virst í fullkomnu ástarsambandi, lof og ástarjátningar á milli þeirra og myndir af þeim saman í faðmlögum birtast ósjaldan á FB, það hreinlega slitnar ekki slefið á milli þeirra og það fyrir allra augum. En svo hitti ég hana um daginn, með glóðurauga og höndina í fatla, kærastanum er víst laus höndin og hann er sjúklega afbrýðissamur. Bannar henni að eiga karlkyns vini á FB nema þeir séu afspyrnu ljótir, gamlir eða náskyldir henni og hann njósnar stöðugt um hana og ferðir hennar til að reyna finna eitthvað grunsamlegt. Þessi sýndarmennska á netinu er einmitt til að sannfæra umheiminn (og þau sjálf) um að ekkert sé að!
Að “logga sig inn” -forrit fyrir eltihrelli
Það vekur hjá mér ótta þegar fólk skráir sig inn hvert sem það fer, á veitingahús, í verslunum, á bókasafninu eða heima hjá tengdó, allstaðar er fólk að skrá sig inn og það gerir öllum auðvelt að vita um ferðir þeirra hverja stund. Það er meira segja til forrit í símanum sem þú tengir við vissa vini og þá skráir hann ferðir þínar ósjálfrátt hvert sem þú ferð. Þetta getur verið öflugt stjórntæki fyrir afbrýðissama maka eða ofverndandi foreldra. Það þykir mér frelsisskerðandi og öfgafullt. Það traust á að ríkja milli para og foreldra og barna að slíkt njósnaforrit eigi ekki að þurfa.
Börn á Facebook
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Tólf ára sonur minn sýndi mér um daginn hneykslaður mynd sem bekkjarsystir hans deildi af sér á Facebook; hún var nýkomin úr sturtu í handklæðinu einu saman að pósa “eggjandi” á sama hátt og hún hefur séð “fyrirmyndirnar” Rihanna, Kim Kardashian og Miley Cyrus gera. Það er umdeilt hvort börn eigi yfir höfuð að vera á Facebook þrátt fyrir að hafa náð þrettán ára aldri og þykir mér þá lágmark að foreldrar hafi aðgang að og fylgist með notkun þeirra til 18 ára aldurs, fyrir utan að brýna fyrir þeim hvar hætturnar leynast. Um það má lesa hér!
Skemmtileg afþreying og samskiptavefur
En burséð frá öllu þessu þá er Facebook fyrst og fremst skemmtilegt afþreying sem fær þig til að vera í betra sambandi við fólk sem þú annars ekki hittir oft (en mátt þó ekki láta FB letja þig til að hitta)
Maður má bara passa sig að taka ekki öllu trúanlega sem þar birtist og passa sig hvað maður lætur frá sér. Góð leið til að stýra þessu er að stofna hópa, ef þú ert t.d. að deila fjölskyldumyndum þá getur þú deilt þeim með ákveðnum hópi fólks, statusum sem eru persónulegir viltu kanski bara birta nánustu vinum og þá getur þú stillt hann þannig o.s.fr.v.
Munum bara að beita skynsemi, varúð og varkárni og þá erum við á réttri leið.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.