Facebook er orðin stór hluti af daglegu lífi okkar. Langflestir íslendingar fara daglega inn á Facebook, við eigum einfaldlega aðra tilveru á netinu.
Flestir nota Facebook með sínum hætti. Sumir (reyndar mjög margir) eru alveg “húkkt”, fara mjög oft á dag inn á Facebook að skoða, læka og kommenta. Skrolla niður fréttaveituna sína og læka og læka. Verða sár ef þau fá ekki læk eða komment á myndir. Mæla lífshamingju sína á Facebook.
Margir eru alveg hættir að fara beint inn á fréttamiðlana eða vefritin, bíða bara eftir því að vinir deili og læki og fara svo í gegnum þessa linka inn á miðlana. Svo eru það týpurnar sem kommenta út í eitt á fréttir og annað efni sem er deilt á netinu í gegnum Facebook kommentakerfið.
Við “hittum” allskonar fólk á Facebook og verðum vör við aðra. Stundum erum við minnt óþægilega á einstaklinga sem við vildum helst vera búin að gleyma – til dæmis fyrrverandi kærasta eða aðra fortíðardrauga sem spretta allt í einu sprellifandi upp á Fésbókinni. Svo finnst okkur sumir einfaldlega bara pirrandi og leiðinlegir.
Þarna kemur blokk valkosturinn til sögunnar!
Einn af kostunum við Facebook er að þú getur blokkerað fólk. Allskonar fólk. Ekki bara leiðinlega vinnufélaga heldur bara hinn og þennan.
Ég átti svona ‘moment of clarity’ eða stund sannleikans þegar ég mundi allt í einu eftir þessum takka og áttaði mig á að ég get lokað á hvaða Facebook notanda sem er. Eftir þetta er ég ekki lengi að hugsa mig um, ég bara smelli á takkann ef ég vil ekki ónæði frá einhverri manneskju, vera minnt á hana með einum eða öðrum hætti á meðan ég er á netinu.
Nú hljómar þetta kannski frekar dramatískt en í raun er þetta alls ekkert mikið drama.
Dæmi um manneskjur sem ég hef blokkerað eru t.d söngvari sem er ægilega mikið á móti samkynhneigðum og grimm öfgamanneskja sem vil endilega að allir lesi skoðanir sínar og verði svo sammála sér. Annars…
Ég vil heldur ekki að fólk sem ég er fyrir löngu hætt að tala við á þessari lífleið minni sé að “njósna” um mig. Hvað þá fyrrverandi núverandi. Eða bara fyrrverandi núverandi mömmu. Eða þessi sem kom vaggandi eins og zombí upp að mér og endurtók aftur og aftur ‘vitlíglasviltudansa’ í hvert sinn sem ég fór á djammið 1998-2002. Ég þarf ekkert á öllum þessum tengingum að halda. Eða skoðunum.
Ég vil helst lifa í litríkri blómaparadís undir regnboga alla daga þar sem allir eru vinir, glaðir að dreifa kærleika.
Mig langar ekki að hitta árásargjörn tröll í þessum litla verndaða netheimi mínum. Ég hitti þau ekki þegar ég fer út í Hagkaup – af hverju ætti ég að vilja rekast á þau á netinu?
Blokk takkinn er snilld!
Með því að smella á hann þá gufar manneskjan einfaldlega upp úr tölvunni þinni, eða svo gott sem. Þú sérð hana hvergi þegar þú ert að ráfa um netið.
Þó þið séuð í sömu grúbbum, eigið sömu vini, að skilja eftir ummæli við sömu fréttina, pósta linkum hingað og þangað, – þú bara verður ekkert vör við þá einstaklinga sem þú ert búin/n að blokkera.
Þeir bara eru ekki til lengur. Að minnsta kosti ekki á Facebook. Og þeir eru ekkert að skjóta upp kollinum eins og litlir pirrandi skrattar. Minni andleg netmengun = Gaman.
Ég gæti farið hér í að gera langan lista af einstaklingum eða Facebook notendum sem gæti verið sniðugt að blokkera en ég tipsa þig bara með því að segja… t.d. stjórnmálamenn/konur sem pirra þig, fólk í ræktinni sem starir á þig, bókasafnsverðir, tuddinn sem lagði þig í einelti í 12 ára bekk, öfga hægrisinnar, öfga vinstrisinnar, öfga rétthugsunarfólk, allskonar…
Þú gerir bara þinn blokklista. Núna eru 14 á mínum. Kannski lengist hann. Það myndi eflaust ekki skerða lífsgæði mín.
Knúúús!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.