Ertu fórnarlamb aðstæðna þinna? Ertu óánægð með þig, samband þitt, vinnuna þína, fjölskyldu þína o.sv.fr.v.? Finnst þú að þú sért ekki metin að verðleikum þínum, finnst þér fólk vera fífl?
Ég hef eitt að segja, þegar fíflunum fjölgar í kringum þig þá er kominn tími til að líta í eigin barm.
Lífið er of stutt til að eyða því í gremju og volæði, ekki vera fórnarlamb, gerðu eitthvað í hlutunum, þú getur einfaldað líf þitt, hleyptu góðum hlutum inn í líf þitt og byrjaðu núna, ekki á morgun eða í næstu viku heldur núna! Gerðu eitthvað “spontant” sem gleður þig eða aðra, hvað er það sem þú ert óánægð með?
Hér eru nokkrar fáránlega einfaldar hugmyndir sem geta glatt þig:
- Þarftu hreyfingu? Vaknaðu í fyrramálið og farðu út í göngutúr í fallegri morgunbirtunni, niður í fjöru eða uppá hæð,andaðu að þér hreina loftinu og hugsaðu jákvætt.
- Ertu óánægð í sambandinu? Nýr dagur er nýtt upphaf, vektu maka þinn með kossi og morgunmat í rúmið og spurðu hann/hana hvað hann vilji gera, gleymdu uppvaski, þvotti og öðrum leiðindum, gerið eitthvað skemmtiegt.
- Ertu óánægð í vinnunni? Vertu jákvæð og sýndu frumkvæði, bakaðu köku eða muffins og gefðu starfsfélögunum. Taktu þátt í að skipuleggja næsta “staffadjamm”, hrósaðu samstarfsfélögum þínum og taktu ekki þátt í kvarti á kaffistofunni, kvart er smitandi en jákvæðni meira smitandi.
- Ertu einmanna? Farðu út meðal fólks, ég er ekki að meina djammið, farðu í gönguhóp, í hláturtíma, á námskeið eða kynntu þér þau 12 spora samtök sem eru í boði, flestir eiga nefnilega erindi í eitthvert þeirra og fá svo margt út úr því að vinna úr vandamálum sínum með öðrum, það tapar allavega enginn á að kanna málið.
- Áhyggjur af fjármálum? Þú ert ekki ein, við höfum það nánast öll, viðurkenndu vanmátt þinn, viðurkenndu fyrir þeim sem þú skuldar áhyggjur þínar og aðstæður og reyndu að finna lausn með þeim. Ekki leyfa áhyggjum að heltaka þig. það er alltaf lausn, það versta sem getur gerst er ekki endilega það sem mun gerast.
Fólk vill frekar vera í kringum fólk sem er jákvætt, það er voðalega þreytandi fólk sem sér alltaf það neikvæða í öllu og kvartar og alveg ástæðulaust að festast í því hlutverki.
Hver dagur er nýtt upphaf og þú getur ákveðið að breyta lífi þínu í dag og byrja lifa því lifandi. Ekki bíða eftir að fólkið í kringum þig breytist því það er ekki víst að það gerist nokkurn tíma, þú ræður bara yfir þér.
Ef þú ert ekki að kaupa það að það sé svona einfalt að breyta lífi sínu til hins betra, byrjaðu þá á að horfa á myndina YES MAN! hún er fyndin, skemmtileg og jákvæð.
Einfalt.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.