Eva Hauksdóttir, oft kölluð norn, er flestum netnotendum á landinu vel kunn enda orðheppin og skelegg týpa sem kann vel að stinga niður penna.
Hún bloggar að staðaldri á Eyjunni og segist þar vera aðgerðarsinni, norn, skáld og álitsgjafi. Hún hefur lítinn áhuga á tísku en mikinn á samfélagsmálum og hefur nokkra óbeit á yfirvaldstöktum. Við sendum henni okkar klassísku spurningar til að komast betur að því hver Eva Hauksdóttir er…
-Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið?
Það hafa komið tímabil sem ég hef átt erfitt með svefn, venjulega tengt miklu álagi og áhyggjum en þegar allt er eðlilegt sofna ég strax. Ég er líklegri til að vakna of snemma og finna hjá mér þörf til að fletta einhverju upp á netinu, venjulega einhverju sem liggur ekkert á. Í morgun vaknaði ég t.d. kl 6 og fór að leita að upplýsingum um það hversvegna Snæbjörn Jónsson sálugi bóksali vildi láta Hallgrímskirkju heita Haraldskirkju. Hvaða Haraldur var það eiginlega? Ég finn engar heimildir og auglýsi hér með eftir þeim.
-Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu?
Í augnablikinu hlakka ég ægilega til að fá hann Einar minn heim en hann er á ráðstefnu í Frakklandi. Svo hlakka ég líka mikið til þess að úskurðarnefnd um upplýsingamál hundskist til þess að afgreiða stjórnsýslukæru á hendur lögreglustjórnarnum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir að neita mér um aðgang að skýrslunni um Búsáhaldabyltinguna. Ég sendi inn kæru 16. október og hef enn ekki fengið svar.
-Hefurðu séð draug?
Allir verða einhverntíma fyrir skynvillum eða oftúlka eitthvað í umhverfi sínu. Þegar ég var lítil kom fyrir að ég taldi mig hafa séð draug en ef ég sæi draug eða álf í dag myndi ég sennilega biðja hann um skilríki áður en ég tryði því að hann væri ekta.
-Þekkirðu óvenjulega marga einstaklinga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það?
Nei ég held að sú dreifing sé nú bara ósköp jöfn. Það eru líka allt aðrir hlutir sem vekja áhuga minn á fólki svo ég spyr sjaldan um stjörnumerki.
-Flottasta fyrirmyndin?
Ég hrífst af mörgu fólki en mér finnst frekar bjánalegt af fullorðnu fólki að reyna að líkjast ákveðinni manneskju. Hinsvegar eru ákveðnir þættir í fari annarra og viðhorf og viðbrögð sem er vert að taka til fyrirmyndar. Það er t.d. til fyrirmyndar hvernig Edda Heiðrún Bachman hefur tekið veikindum sínum og ég myndi reyna að hugsa til þess ef ég missti heilsuna en það þýðir ekki að ég reyni að líkjast henni að öðru leyti.
-Uppáhalds tímasóunin?
Ef manni finnst maður vera að sóa tíma þá getur það nú varla verið uppáhalds. Mér finnst það eingöngu tímasóun sem maður velur ekki sjálfur. Eins og að bíða á flugvelli af því að flugi hefur seinkað. Ég ver stundum tíma til hluta sem hafa engan annan tilgang en að veita mér ánægju, t.d. að sitja í sólinni með hvítvínsglas, en það heitir ekki tímasóun heldur afþreying.
-Hvaða 5 hluti tækirðu með í geimfarið?
Svona fyrir utan það nauðsynlega? Ég reikna ekki með að yrði boðið upp á nettengingu svo ég myndi taka birgðir af sunnudagskrossgátum Moggans, orðsifjabókina, Discworld bækur, eins mikið lesefni um mannréttindamál og ég kæmist upp með, og prjónadót.
-Hvernig bíl langar þig í?
Það eina sem skiptir mig máli varðandi bíl er að hann sé í nógu góðu lagi til að ég geti reiknað með að komast vandræðalaust á milli staða. Þar sem almenningssamgöngur eru góðar er bara vesen að vera á bíl.
-Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar:
Ég horfi ekki mikið á kvikmyndir og á frekar erfitt með að nefna einhverjar fimm “uppáhalds”. En ég get amk mælt með þvi að sem flestir horfi á:
- Stanno tutti bene (Giuseppe Tornatore)
- Babel (Alejandro González Iñárritu),
- Caché (Michael Haneke)
- Amélie (Jean-Pierre Jeunet) og
- Happiness (Todd Solondz)
-Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu eða leikara?
Nei en ég hef oft orðið skotin í dauðum ljóðskáldum. Jóhann Sigurjósson er t.d. mjög hot, svona af dauðum manni að vera. Svo var ég líka pínulítið skotin í Illuga Jökuls þegar ég var 16 ára. Ég hékk á Mokka og skrifaði ljóð og fannst ég ekkert smá heppin ef hann kom þangað. Einu sinni bað hann mig að lána sér penna. Það var mikil hamingja. En hann leit ekki einu sinni á mig, skilaði bara pennanum þegar hann var búinn að nota hann.
-Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum?
Ég get ekki svarað fyrir aðra. Mín mistök eru aðallega þau að reyna að byggja upp sambönd við menn sem voru of ólíkir mér. Ef samband þarf að útheimta endalausa vinnu og tilslakanir til að ganga stóráfallalaust fyrir sig þá vil ég frekar sleppa því.
-Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna?
Það sem ég er að fást við þessi árin er aðallega að skrifa pistla um samfélagsmál. Það sem mér finnst skemmtilegast við það er þegar ég finn að eitthvað sem ég skrifa hefur haft áhrif á hugsunarhátt annarra. Mér finnst skipta máli fyrir lýðræðið að ólíkar skoðanir takist á.
-En erfiðast?
Mér finnst svekkjandi að geta ekki haft tekjur af blogginu mínu.
-Hvaða starf myndirðu velja ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna?
Ég hef áhuga á að vinna að mannréttindamálum en það er erfitt fyrir fólk sem hefur ekki sérmenntun sem nýtist á þeim vettvangi að fá áhugavert, launað starf.
-Manstu eftir vandræðalegu atviki sem henti þig á gelgjuskeiðinu?
Ég var í heimavistarskóla þegar ég var 14-15 ára og einhverju sinni ætlaði ég að eyða nótt uppi á strákavist. Ég var komin upp þegar ég varð vör við að skólastjórinn var inni á ganginum. Ég skaust inn á klósett og inn í skúringakompu sem var inn af klósettinu og faldi mig þar á bak við hurð. Þar sat ég í marga klukkutíma og þorði ekki að hreyfa mig. Loks heyrði ég að einhver var kominn inn á klósettið og var að pissa. Ég hélt að það væri skólastjórinn og get ekkert lýst því hvernig mér leið. Svo fann ég að einhver stóð yfir mér. Ég gat ekki litið upp heldur sat bara frosin og horfði á andlit speglast í ryksugunni sem var þarna við hliðina á mér. Þetta reyndist ekki vera skólastjórinn heldur einn af strákunum og hann smyglaði mér út af ganginum aftur.
-Hvernig langar þig að verða í ellinni?
Heilbrigð. Ég hef unnið á elliheimilum og það eina sem rýrir lífsgæði fólks verulega í ellinni er heilsubrestur.
-Hvað ertu að fara að gera á eftir?
Ég ætla í kaffi til vinkonu minnar sem ég hef ekki hitt í nokkur ár. Ég bý erlendis og umgengst fáa svo þegar ég kem til Íslands reyni ég að hitta sem flesta.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.